Martini? Nei....romm

Dagarnir hafa verið ansi þéttskipaðir hjá okkur að undanförnu og lítill tími hefur gefist til þess að skrifa á bloggið en úr því verður nú snarlega bætt. Þessi eyja er dásamlega falleg. Hún er hæðóttari og grænni er við áttum von á og vegakerfið því eintómar brekkur og beygjur. Húsið okkar og bílastæði er í svo miklum halla að við veltum nánast út úr bílnum, jafnvel bláedrú, þegar heim er komið og nauðsynlegt er að setja steina fyrir aftan dekkin á bílnum.  Hér er líka mjöööög heitt og rakt. Regnskúrir hafa verið algengar undanfarna daga og þá erum við að tala um almennilega regnskúr, eins og hellt sé úr fötu. Þess á milli skín sólin. Eins og venjulega eru blessaðar mosquito óvinkonur okkar mættar í heimsókn. Það virðist alveg vera sama hversu miklar varnir við setjum upp, alltaf finnast ný og ný bit. Eins og sjá má á myndinni erum við með alls konar varnir, moskítóreikelsi, moskítóspaða, moskítókerti, moskótósprey, blað af Aloa-vera plöntu sem vex hér í garðinum, Aloa-vera gel á brúsa og hvítvín - sem er lykilatriði þegar snúist er til mosquitovarnar. 

Moskítóvarnir

Þrátt fyrir hvítvínið þá er ekki um mikla hvítvínsframleiðslu að ræða hér. Hér drekka menn romm....og það mikið af því. Rommið er þjóðardrykkur eyjaskeggja. Mikil rommframleiðsla er á eyjunni og í búðunum er hilluplássið fyrir rommið mælt í metrum.  Hægt er að fá það í ýmsum útgáfum, í litlum og stórum flöskum og meira að segja í beljuformi. Svo er rommið til í hinum ýmsu styrkleikum og hægt að fá það blandað sem Mojito og Pina Colada. Einnig er rommið greinilega stór hluti af borðhaldi innfræddra. Í þau skipti sem við höfum farið út að borða er ekki óalgengt að sjá fólk vera með romm flösku á borði ásamt flösku af sykurreirssírópi. Menn blanda sér svo drykk sem nefndur er Ti-punch. Einnig eru hér í boði endalausar aðrar tegundir af púnsi með alls konar bragði og í öllum regnbogans litum. Við erum nú þegar búin að prófa kókospúns sem er ljósbrúnn á litinn og svo ástaraldinpúns sem er bleikur á litinn. Pina-Colada og Mojito hafa einnig fengið að fylgja með í innkaupakörfuna.

St. Pierre

Stutt yfirferð á dagskrá síðustu daga. Á þriðjudaginn keyrðum við um norðurhluta eyjunnar. Fórum til St. Pierre, sem er gamla höfuðborg hennar, en borgin þurrkaðist út árið 1902 þegar eldgos hófst í fjallinu Mount Pelée. Skv. Wikipedia þá áttu menn ekki von á því að eldgos í fjallinu myndi hafa eyðileggjandi áhrif á borgina þar sem tveir dalir aðskildu hana og fjallið. Annað kom hins vegar á daginn því að þegar fjallið gaus þá var um að ræða sprengigos þar sem gas og grjóthnullungar hentust á 700 km/klst hraða á bæinn og þurrkuðu út nánast allt líf þar, þ.e. 30 þús manns. Aðeins tveir lifðu tveir af, annar bjó alveg í útjaðri bæjarins en hinn var fangi sem var í svo rammgerðum fangaklefa (dýflissu) að gasið og grjótið náði ekki til hans. Í dag er ekki að sjá að þarna hafi átt sér stað svona hörmulegur atburður. Í stað höfuðborgar Martinique er nú að finna nokkra minni bæi og skemmtilegar strendur. Í dag er það borgin Forte-de-France sem er höfuðborgin og er hún staðsett á suð-vestur hluta eyjunnar.

Gönguferð - Íris

Á miðvikudaginn ákváðum við að taka smá göngutúr um austasta hluta skagans sem við búum á. Um er að ræða merkta gönguleið sem var nú bara býsna erfið þegar á reyndi. Um var að ræða 12 km. gönguleið í mjög fallegu en líka mjög hæðóttu landslagi sem ýmist minnti á gróðurlausar Íslandsstrendur eða hitabeltisfrumskóg með pálmatrjám, „Mangrove" og eitruðum „Manchineel" trjám. Gangan tók vel á fjórðu klst. og þegar við það bættist 30 stiga hiti sem skv. weather channel appinu „feels like“ 36 stiga hiti þá tók gangan verulega á. Við vorum því nær dauða en lífi þegar við komum á áfangastað. Mikil gleði braust út hjá nærstöddum þegar í vasa fundust þrjár evrur sem dugðu fyrir vatni í minjagripversluninni á endastöð, en vatnsskortur var farinn að gera alvarlega vart við sig síðasta klukkutímann. Sumir vilja halda því fram að 6-7 kg líkamsþyngd hafi gufað upp við gönguna, a.m.k. skv. forlátri vigt sem fyrirfinnst á heimilinu. Frekari staðfesting á þyngdartapi bíður betri tíma.

Út að borða-Eiður

Í gær var farið í bíltúr og suðurhluti eyjunnar skoðaður. Þar er mikið af fallegum smábæjum og ströndum og stoppuðum við í nokkrum þeirra m.a. til að borða á veitingastað á ströndinni.  Í gærkveldi fórum við síðan mjög fínt út að borða á franskan, nútíma kreóla veitingastað og fengum alveg frábæran mat. Mahi-Mahi fisk með þremur mismunandi grænmetis- og kartöflupuré, foie-gras með sultuðum mangó, hörpuskel í rjóma-hnetusósu og hrísgrjónabúðingur eldaður upp úr súkkulaði. Nammi namm.

Í dag var stefnan tekin á ströndina enda ekki seinna vænna að byrja aðeins að vinna í taninu áður en heim verður komið. Við fórum á sömu strönd og við fórum fyrsta daginn. Yndisleg strönd með örfáu fólki sem er mjög ólíkt því sem maður á að venjast frá sólarströndum, eins og t.d. Ródos. Núna er afrakstur dagsins að koma í ljós, það brakar í sumum og hvíti liturinn er óðum að víkja fyrir þeim rauða.

 

Á morgun er stefnan tekin norður á eyjuna þar sem við ætlum að taka góða gönguferð í frumskóginum, með nægar vatnsbirgðir. Á sunnudaginn er stefnan síðan tekin á Kayakaferð um eyjar í nágrenninu.   

Meira síðar..........

kveðja

Íris og Eiður  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband