Rólegir dagar í Ashland, Oregon

Fjölskyldan hefur nú kvatt Ashland í Oregon þar sem hún hefur dvalið undanfarna sex daga. Við erum á leið til San Francisco með viðkomu eina nótt í smábænum Willows í norður Kaliforníu. Við höfum haft það mjög náðugt undanfarna daga í Ashland. Sem betur fer hefur bærinn verið að mestu reykfrír frá því á laugardaginn sl. sem hefur væntanlega mátt þakka hagstæðum vindáttum frekar en endilega því að það hafi dregið úr skógareldunum.

100_5738-1024x768Þrátt fyrir að í heiti þessarar færslu sé tilvísun í rólega daga þá þýðir það ekki að fjölskyldan hafi alveg setið auðum höndum í Ashland. Dagarnir fóru í að kanna umhverfi bæjarins sem er mjög fallegt, og bæinn sjálfan sem hefur bæði fjölbreytt mannlíf og dýralíf. Hvað varðar mannlífið þá virðist Ashland vera mikill hippabær, bæði gamlir og ungir hippar sitjandi á gangstéttum með gítar að spila og syngja. Einnig virtist okkur við sjá fleiri furðufugla í Oregon en við höfum séð annarsstaðar í BNA. Við fengum þá tilfinningu eiginlega staðfesta af bensínafgreiðslustarfsmanni (NB: Skv. lögum hér í Oregon mega aðeins starfsmenn bensínstöðva dæla bensíni á bíla á bensínstöðvunum) sem sagði að í Portland vildu menn aðeins fá að lifa saman í sátt og samlyndi og fá að vera svolítið skrýtnir í friði. Okkur sýnist sú hugmyndafræði eigi einnig við hér í Ashland. Ef maður vill fá mannlíf og menningu hvers staðar beint í æð þá er oft besti staðurinn til þess matvöruverslun staðarins. Í einni búðarferðinni var m.a. hægt að sjá konu með kviknakið 4-5 ára gamalt barn í fanginu án þess að nokkur væri að kippa sér upp við það. Willy Nelson lúkkið er ekki óalgengt hér hjá báðum kynjum og  „dude“ er ávarp sem heyrist oft í röðinni að kassanum. img_2345

Hvað varðar dýralífið þá er það einnig mjög fjölbreytt. Í Ashland rákumst við á ófáa íkornana, sem er kannski ekki fréttnæmt. Það sem er óvenjulegt er að hér er fjöldi dádýra á vappi í bænum, þau er hægt að sjá á beit í görðum fólks. Þau kippa sér lítið upp við mannfólkið og það er greinilegt að þessi afslöppuðu lifnaðarhættir Oregon fólks ná einnig til dýralífsins.

Fyrsti dagurinn okkar í Ashland var svolítið ónýtur út af mengun frá skógareldunum. Við létum það þó ekki trufla okkur mikið heldur keyrðum um nágrennið, kíktum í búðir og tókum púlsinn á mannlífinu í miðbænum. Á laugardeginum var kíkt á farmers market þar sem keyptur var ótrúlega góður geitaostur og frábær kirsuberja-rabbarbarasulta og súrdeigsbrauð í morgunmat. Eftir hádegi var keyrt til nágrannabæjar sem er í um 30 mín fjarlægð frá Ashland og heitir Gold Hill. Rétt fyrir utan bæinn er að finna svæði sem hefur verið kallað The Oregon Vortex sem þýðir Oregon hringiðan. Um er að ræða mjög vinsælan ferðamannastað sem hefur fengið heitið House of Mistery.

height-changeÞar fengum við klukkutíma leiðsögn um staðinn sem er mjög sérstakur. Talið er að segulsvið jarðarinnar virki á ólíkan hátt á svæðinu en annarsstaðar. Indjánar vildu ekki koma nálægt þessum stað og sögðu að á honum væri eitthvað skrýtið í gangi. Villt dýr finnast varla á svæðinu og bannað er að taka gæludýr með sér þangað. Þekkt er að leiðsöguhundar eða önnur þjálfuð dýr hafi sýnt af sér mjög undarlega hegðun á staðnum, þ.e. orðið skyndilega mjög „óþekk“. Á gullgrafaratímanum var ekki hægt að mæla gull á réttan hátt innan þessa litla skika. Svæðið er þannig að í raun brenglast öll sjónræn skynjun þar bæði hjá mönnum og dýrum. Hlutir eða fólk virðast til dæmis hækka með því að færast örstutta vegalengd. Magnaður staður.

ORT1Á sunnudeginum var lagt snemma af stað og stefnan tekin á vesturströnd Oregon en strandlengjan þar þykir einstaklega falleg. Ekki urðum við fyrir vonbrigðum, frábær útsýnisakstur. Stoppað var í litlum bæ sem heitir Brookings og smá pikknikk haldið í garði sem þar er að finna. Einnig var keyrt í gegnum „drive through tree“ og síðan keyrðum við nokkra kílómetra leið í gegnum þéttan rauðviðsskóg með alveg ótrúlega stórum og breiðum trjám.            

Á mánudaginn var slappað af þ.e. stelpurnar fóru í bíó, Birkir fór í göngutúr og ég og Eiður ákváðum að taka labb í garði bæjarins, Lithia park. Þar hittum við nokkur dádýr á vappi m.a. móður með þrjá litla kálfa, fullt af íkornunum og kalkúna. Á eftir settumst við á Caldera brugghúsið og smökkuðum á bjórnum þeirra sem var mjög góður.

Crater_Lake_Panorama,_Aug_2013

Í gær var síðan farið á stað sem heitir Crater Lake með viðkomu í gömlum gullgrafarabæ sem heitir Jacksonville. Bærinn, sem var stofnaður um 1850, þykir ótrúlega vel varðveittur og mörg hús bæjarins líktust þeim húsum sem hægt var að sjá í gömlu vestrunum. Við gengum aðeins um þennan gamla hluta bæjarins og komum við í gömlum kirkjugarði sem þar var að finna. Eftir Jacksonville var haldið til Crater Lake sem er risastór gígur fullur af vatni. Fyrir 7.700 árum hafði verið þarna stórt eldfjall, Mt. Mazama sem sprakk og skyldi eftir sig stóran gíg sem með tímanum fylltist af vatni. Vatnið er fagurblátt á litinn og staðurinn er ofsalega fallegur. Þessum síðasta degi okkar í Ashland lauk síðan á að húsið var þrifið og pizza borðuð út á palli.

Eins og að framan segir er fjölskyldan á leiðinni til San Francisco með viðkomu í Willows en þangað er fjögurra tíma akstur. Farartækið er bílaleigubíll eða rúta réttara sagt þar sem Avis bílaleigunni fannst greinilega ekkert duga minna en 10 sæta Ford Transit til að ferja hópinn til San Francisco.

Tveimur nóttum ætlum við svo að eyða í San Francisco sem er örugglega allt of stuttur tími en við eigum pantað flug til New York á laugardagsmorgun þar sem síðasti hluti þessa ferðalags mun hefjast.

Meira síðar….

Kveðjur frá I-5 North í Kaliforníu.

Íris, Eiður og co.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband