Rauðir lokadagar

Síðasti heili dagurinn okkar á Martinique er að kveldi kominn. Eins og oft áður er verið að nota síðasta kvöldið til að klára matarbirgðir (risarækjur), drykkjarbirgðir (allskonar), þrífa og pakka. Flugið verður tekið til Parísar á morgun þar sem gist verður eina nótt áður en haldið verður heim á leið í faðm fjölskyldunnar. Eins og öll kvöld undanfarin þá er setið við borðstofuborðið, sem er út á svölum, við kertaljós frá Mosquitokertinu, reyk frá Mosquitoreykelsinu og í skýi af Mosquitospreyi og hlustað á sönginn í skordýrunum.  

Frá því að penna var síðast stungið niður hefur litur manna breyst frá því að vera hvítur í að vera rauður. Síðasta föstudag var stefnan tekin á ströndina eins og fram kom í síðustu færslu. Þegar á leið kvöldið og daginn eftir kom í ljós að Eiður hafði brunnið all hressilega þennan dag. Hann er því líflegur útlits, hvítur með mjög rauða bletti hér og þar á líkamanum.  Hann mun því væntanlega þegar fram í sækir verða hvítur með brúna bletti.

Úr gönguferð

Síðast liðinn laugardag fórum við á norðanverða Martinique og var markmiðið að ganga mjög vinsæla gönguleið sem þar er að finna. Til að komast þangað þarf að keyra eins langt og hægt er á norð-vestur hluta eyjunnar, þ.e. þar til að vegurinn endar. Ranghalar vegakerfisins náðu nýjum hæðum, en við erum bókstaflega að tala um 180° beygjur upp og niður hæðir og fjöll ásamt halla upp á mörg hundruð prósent! Við stoppuðum á bílastæði sem er upphafspunktur göngunnar og þar er að finna rústir af byggingum sem áður hýstu sykurframleiðslu en einnig hafði kakó verið ræktað á svæðinu. Gönguleiðin liggur til bæjar sem er á norðurodda eyjarinnar og heitir Grand Riviere og tekur gangan þangað um sex klst. Vinsælt er að fá fiskveiðimenn sem þar búa til að skutla sér aftur til baka á bílastæðið af aflokinni göngu. Við höfðum nú ekki í hyggju að fara í svo langa göngu minnug þriggja tíma göngunnar sem við höfðum farið í nokkrum dögum áður. Gönguleiðin liggur um mjög fallegan frumskóg  með fjölbreyttum gróðri en reyndist þegar á leið frekar einsleit og með takmörkuðu útsýni. Við gengum því í tæplegan klukkutíma og snerum þá við. Á leiðinni má búast við að rekast á snáka og kóngulær en því miður rákumst við á hvorugt. Hinsvegar heyrðum við á einum tímapunkti í göngunni samblöndu af hræðslu- og reiðiöskri og sáum á eftir villisvíni á harðahlaupum niður brekkuna þ.e. í áttina frá okkur, kannski sem betur fer. 

Á ströndinni

Þegar komið var til baka á bílastæðið var haldið á yndislega fallega strönd sem þarna er og tánum dýft í sjóinn til hressingar.

Daginn eftir þ.e. á sunnudaginn áttum við pantað í Kayaka ferð. Við áttum frátekinn einn bát fyrir allan daginn en vinsælt er að sigla út í eyju sem er hér rétt við og heitir Ilet Chancel. Við bárum hressilega á okkur að sólarvörn og tókum með okkur vistir í hvítri tunnu sem við fengum afhenta og spenntum í ólar á Kayakinn. Siglingin var nú alveg töluvert púl þar sem við vorum á móti vindi og vel gusaðist yfir okkur að sjó allan tímann. Á eyjunni stoppuðum við á tveimur stöðum. Fyrst á stað þar sem finna mátti rústir af leirkerasmiðju og sykurverksmiðju (en ekki hvað) sem eyðilögðust í fellibyl árið 1891. Í þeim fellibyl fórust allir á eyjunni nema einn (að sjálfsögðu). 

Iguna eðla

Þekktustu íbúar eyjarinnar í dag eru Iguana eðlur og sáum við nokkrar þeirra á rölti. Næsta stopp var á yndislegri strönd þar sem við gátum buslað í sjónum, borðað vistirnar okkar og slappað af.  Eftir það var siglt heim á leið og það var eldrautt og gjörsamlega uppgefið fólk sem steig fæti á þurrt land við bílastæðin. Þá tók á móti okkur yndislega kona sem kunni bara frönsku og gaf okkur þann besta og kaldasta ananassafa sem við höfum nokkru sinni smakkað. Það dugði til að gefa okkur orku til að keyra heim í húsið.

bæjarhátíð

Okkur aðkomumönnum að óvörum var haldin eins konar þjóðhátíð í litla bænum okkar í gærkvöldi. Hér var dúndrandi stuð, franskt popp, tískusýningar eða fegurðasamkeppni (vitum ekki hvort), kandýfloss og allt. Reyndar mjög góð tilbreyting frá nær óstöðvandi „léttum lögum í dalnum“ frá ströndinni þaðan sem á hverju kvöldi hefur borist afskaplega þunglyndisleg frönsk hipphopp tónlist leikin af hljómplötum úr kyrrstæðum bíl. Við eigum reyndar von á miklu betra eftir nokkra daga þegar stórfjölskyldan sameinast á Þjóðhátíð í Eyjum. Þar höfum við leigt hús og saman ætlum við að halda þjóðhátíð, við öll fjölskyldan í Fögrubrekkunni, Rúna, systir Eiðs, ásamt Freyju dóttur hennar, mamma, tengdamamma og Dagný, systir Eiðs. Addi, vinur hans Eiðs, hefur svo bæst í hópinn ásamt dóttur sinni og því verðum við tólf saman í húsinu á Þjóðhátíð. Allur pakkinn verður tekinn, hvítt tjald og alles. Undirbúningur stendur nú sem hæst, á Ísafirði, í Kópavogi, Garðabæ og í bænum Tartane á Martinique.

kólibrífuglar

Við kveðjum Martinique með söknuði. Bitin, sólbrennd, södd. Við höfum haft það afskaplega gott hér sl. tíu daga. Búin að nærast að mestu á grilluðum fiski á veitingastöðum. Vitum ekkert mjög mikið um nákvæmlega hvaða tegundir af fiski við vorum að borða en flestar máltíðirnar voru framandi og innihéldu heilgrillaðan fisk. Heima við hafa aðrar áherslur verið í eldamennskunni. Naut, önd, risarækjur og fl. Drykkirnir hafa verið Ti-Punch, púns (með ýmsum bragðtegundum), Pina Colada, Mojito, hvítt, rautt og bleikt vín. Við höfum einnig eignast nokkra vini úr dýraríkinu, hvítur köttur nágrannans, kólibrífuglar og eðlur hafa verið gestir á svölunum okkar hvern dag. Hitinn og rakinn hefur verið slíkur að fregnir af roki og rigningu á Þjóðhátíð í Eyjum hljóma ekki mjög fráhrindandi þessa stundina.

Over and out frá Martinique.

Íris og Eiður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband