Viðburðarríkur dagur í Hellenska lýðveldinu Grikklandi

Þessi dagur er nú búinn að fara öðruvísi en skipulagt var og búist var við.

Hjónin vöknuðu frekar seint í morgun enda var dagurinn í gær frekar viðburðarríkur og ekki veitti af að hvíla lúin bein með því að sofa vel fram eftir. Eins og kemur fram í færslunni hér að neðan var stefnan í dag tekin á HM, í Plaka, skoðunarferðir og mögulega bíó. Þegar við skriðum loksins út af hótelinu um hádegi og lögðum af stað í áttina til HM búðanna þá mætti okkur fleira og fleira fólk með gasgrímur, hvíta málingu í framan og kröfuspjöld og eitthvað var því lítið af opnum búðum til þess að kíkja í. Athyglinni var því fljótt beint frá búðunum og við örkuðum með Special Olympics merkispjöldin framan á okkur (sem var nú gert að ásettu ráði þar sem viðmótið er aðeins annað þegar spjöldin eru til staðar) meðfram mótmælaröðinni sem var mjög löng. Við fundum fljótlega fyrir afleiðingum tárasprengja þ.e.  sviða í augum, koki og tárum í augum og flýttum okkur því í gegnum mannfjöldann. Loksins fundum við HM búðina en þá var hún lokuð og reyndar voru flestar búðir og veitingastaðir á þessu svæði lokað, sennilega mjög skynsamlegt. Sama staða var ekki inn í Plaka hverfinu þó að greinilega væru mun færri þar á ferli en um helgina. Þar gátum við keypt ísskápsmerki (það er einfaldlega skylda) og smá glingur og síðan fengum við okkur ágætan hádegismat. Eftir matinn var ákveðið að leita enn frekar að opnum HM búðum. Í staðinn fyrir slík verðmæti vorum við skyndilega lent inn í miðju óeirðanna og á hlaupum undan lögregunni sem var á mótorhjólum og henti sprengjum út í eitt með tilheyrandi látum tókst okkur að komast að hótelinu okkar með sviða í hálsi og tár í augum. Á leiðinni sáum við að flestar búðir, veitingastaðir og jafnvel hótel voru búin að víggirðast, þ.e. að loka járnhliðum. Einnig hittum við aðgerðarsinna sem voru með grímur fyrir andlitinu og hvítir í framan en þeir voru að vara okkur við því að fara nær miðbænum og voru að leiðbeina okkur um að komast á hótelið okkar. Það var nú samt ekki endilega það sem gráhærði helmingurinn vildi gera enda vita það allir sem vilja vita að uppreisnarandi fylgir gráu hári. Ljóshærði helmingurinn hefur auðvitað engin grá hár og þ.a.l. engar uppreisnarkenndir :)

Eftir smá hvíld á hótelinu var ákveðið að ganga á fjall sem er 270 m hátt og er í miðri Aþenu. Uppgangan gekk mjög vel enda fólk í ágætri þjálfun. Mikið útsýni er af fjallinu og var því stoppað þar smá stund. Ekki fannst hjónunum þessi uppganga nægilega átakamikil og því var arkað inn almenningsgarð og tekið smá hlaup í 30 mín. Gráhærða helmingnum tókst að lenda í hundi á leiðinni sem  beit hann í lærið en án þess þó að mikið sjái á honum sem betur fer. Eftir gott bað á hótelinu var farið í að leita að opnum veitingastað en þeir eru orðnir fáir og götur sem voru virkilega líflegar fyrir þremur dögum síðar eru nánast tómar enda mátti heyra sprengjuregnið í fimm mínútna fjarlægð frá hótelinu okkar. Veitingastaður fannst þó og ekki förum við svöng í rúmið.  Ekki er þó hægt að finna opinn hraðbanka sem virkar og það er því greinilegt að verkfallið nær líka til þeirra.

Á morgun er stefnan tekin á Santorini í fjóra daga og ætlum við að taka flug snemma í fyrramálið kl. 10:30. Ekki er vitað hvort að lestir muni ganga á morgun en við ætlum að gera tilraun í fyrramálið en annars er það bara leigubíll út á flugvöll. Meira vonandi á morgun, kv. Íris.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins gott að ljóshærði helmingurinn er þarna til að hafa vit fyrir og hjúkra gráhærða helmingnum! Hlýjar kveðjur :)

Olga Björg Örvarsdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband