Ferð á ströndina, BBQ og Boston

Eins og oft áður sit ég úti á palli í myrkrinu með tölvuna og blogga. Klukkan er 22:10 og hitamælirinn sýnir 80 á Farenheit úti, sem mér reiknast til að séu 26,67 á Celsíus en inni í húsinu er hitastigið 86 á Farenheit sem er 30 á Celsíus.

mosquito.jpg

Það heyrist óvenju mikið af smellum, suði og tísti hér úti en ég sé ekki hvað er um að vera þar sem aðeins er birta frá tölvuskjánum og moskítókertinu. Ég held að það sé best að vera ekkert að kveikja ljósin. Einnig heyrast þrumur í fjarlægð, búið var að spá þrumuveðri hér í dag en það lætur bíða eftir sér. Að sjálfsögðu er rauðvínsglasið ekki langt undan enda verðum við Eiður að standa okkur í rauðvínsdrykkjunni ef við eigum að ná að klára Bota boxið áður en ferðin er á enda. Við erum nýkomin heim frá Boston en þar átti fjölskyldan mjög ánægjulegan dag. Þessa stundina erum ég og örverpið einar í húsinu fyrir utan tvo ketti, sem eru svo feimnir að þeir hafa varla sést, og nokkra fiska. Eiður, Birkir og Eydís fóru í búðina að kaupa síðkvöldssnakk og morgunmat. 

En svo haldið sé áfram þar sem frá var horfið þá eyddu þrír fjölskyldumeðlimir aðfaranótt miðvikudagsins í kjallaranum, þ.e.a.s. þeir sem sofið hafa á efri og um leið heitari hæð hússins. Í kjallaranum er hitastigið aðeins ,,eðlilegra". Við fundum dýnu sem hægt er að blása upp ásamt rafmagnspumpu og á henni sváfum við Eiður um nóttina. Birkir svaf á nokkrum pullum úr sófunum í stofunni sem við lögðum á tjalddýnu sem við fundum líka í kjallaranum. Nóttin varð bærilegri fyrir vikið. Þegar við vöknuðum kom í ljós að flugukvikindin höfðu ekki alveg getað séð okkur í friði. Við erum útbitin sem má líklega rekja til gönguferðarinnar deginum áður en ég er þó sýnu verst. Eiður taldi um 20 bit bara á bakinum á mér svo er annað eins annarsstaðar á líkamanum, sum á vægast sagt mjög undarlegum stöðum.

p1000467.jpg

Í gær hafði aðeins dregið úr hitanum og hann fór ekki upp í nema 95 á Fahrenheit (35 á okkar ástkæra og ylhýra selsíus). Við ákváðum að fara til Lake Wyola sem er í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá húsinu okkar og kom staðurinn okkur skemmtilega á óvart. Um er að ræða vatn sem er sennilega aðeins stærra en vatnið í Cazenovia og eins og þar eru hús við vatnið allan hringinn. Húsin eru þó aðeins minni og ekki eins ríkmannleg. Við vatnið er lítil skeljasandsströnd (örugglega manngerð) þar sem við komum okkur vel fyrir með strandstóla og handklæði. Afkvæmin fóru út í vatnið sem er eins heitt og sjórinn í Daytona Beach, að þeirra sögn, og þar eyddu þau næstu þremur klukkutímum. Eiður og ég sátum í okkar stólum og lásum bækurnar okkar á milli þess að við hlupum út í vatnið til að kæla okkur. Yndislegt Joyful 

6a00d8341c67b753ef00e54f6ada9e8834-640wi.jpg

En fyrst verið er að minnast á bækur þá verð ég að segja frá því að við komuna hingað vantaði mig eitthvað að lesa. Í húsinu er til fullt af spennandi bókum og fljótlega rakst ég á bókina The Notebook. Ég er að sjálfsögðu búin að sjá myndina oftar en einu sinni en hef aldrei lesið bókina. Hún veldur ekki vonbrigðum, er í einu orði sagt yndisleg. Ég hef margoft verið komin að því að skæla hressilega yfir henni, alveg eins og yfir myndinni.

 

 

 

e0032354_4b7389115dc4e.jpg

Úr því ég er farin að fara út í ,,detail" verð ég víst að minnast á bókina sem Eiður er að lesa. Hann pantaði hana á Amazon og það er saga Led Zeppelin, örugglega mjög áhugaverð en að öllum líkindum gjörsamlega laus við snýtiklúta.

 

 

 

 

 

 

img_0080.jpg

En áfram með smjörið. Eftir strandferðina var farið á BBQ stað sem búið var að mæla með. Staðurinn sveik ekki, maturinn frábær og allt umhverfi staðarins skemmtilega hrátt og sjarmerandi. Menn sjá um sig sjálfir að mestu, fá matinn á pappadiskum og setja glös og hnífapör í þar til gerða bakka eftir notkun. Á staðunum var 9 holu míni golf þar sem fjölskyldumeðlimir gátu spreytt sig á meðan maturinn sjatnaði í mallanum.

p1000483.jpg

Í morgun var ferðinni heitið til Boston. Þangað er rétt tæplega tveggja tíma akstur og var tíminn á leiðinni notaður í að blaða í gegnum Boston-kafla ferðabókar um New England. Til að skerpa aðeins á söguþekkingu manna var ég með húslestur á leiðinni og las upp úr vel völdum köflum bókarinnar þar sem farið var í gegnum sögu Boston. Þrátt fyrir að við Eiður höfum margoft komið til Boston höfum við aldrei komið til Cambridge og ákváðum við að löngu tímabært væri að skoða þann hluta Boston og því var ferðin hafin þar. Í Cambridge er mjög gaman að koma, svæðið er eins og míní útgáfa af Boston, mjög líflegt. Mjög heitt var í veðri, örugglega vel yfir 90 á Fahrenheit. Við fórum inn á Harvard svæðið, inn í Harvard Book Store, röltum aðeins um svæðið og fengum okkur að borða. Síðan lá leiðin inn í Boston, það hafðist þó ekki fyrr en eftir nokkrar tilraunir þar sem GPS frúin var ekki alveg tímanlega í að segja hvort beygja ætti til hægri eða vinstri. Eftir nokkrar vitlausar beygjur með tilheyrandi bölvi og ragni hafðist þetta allt saman. 

p1000485.jpg

Boston var yndisleg að venju. Þar var byrjað á að rölta um Washington Street og síðan farið niður á Fenueil Hall svæðið. Þar var rölt um svæðið, horft á götulistamenn, sem stelpunum fannst sérstaklega skemmtilegir, borðað inni í Quincy Market og að lokum lá leiðin í Borders bókabúðina við School Street þar sem fjárfest var í matreiðslubók og nokkrum tímaritum skellt í pokann í leiðinni. Á leiðinni í bílinn var komið við í eld-, eld gamla kirkjugarðinum á Tremont street sem er frá 17. öld.

 

 

img_0095.jpg

Nú er Eiður kominn heim, með ítalskt brauð í farteskinu og ólífur af ólífubarnum og verður þessu skolað niður með ofangreindu rauðvíni. Hér er einnig mættur Cooper köttur en hann er nágrannaköttur sem hefur komið reglulega í heimsókn til okkar. Hann er mjög flottur, mjög loðinn og ljónslegur.

 

Í þessum skrifuðum orðum er byrjað að dropa. Langþráð rigning er mætt á svæðið og viðbrögðin láta ekki á sér standa, rekið er upp indjána gleðiöskur. Ég get þó trúað því að af rigningunni eigum við eftir að fá nóg þegar heim verður komið.

Síðasti heili dagurinn okkar hér verður á morgun. Deginum verður eytt í pökkun og þrif og spennandi verður að sjá hvort að allt kemst í töskurnar eða hvort að ferðinni verður heitið í næsta moll til að bæta úr töskuleysi. Einnig stendur til að fara í alvöru mínígolf annað kvöld.

Líklega er þetta síðasta bloggfærslan sem færð verður í þessari ferð en smá möguleiki er á að tími verði til að skella inn smá texta annað kvöld. Ef ekki þá sjáumst við á klakanum.

Knús og kram frá Montague, MA, BNA.

 

Íris Heart 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja hérna hér. Við ömmur vorum greinilega heppnar með viku, en örugglega eruð þið þó miklum mun hitaþolnari en rauðhærða amman. Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt Iris mín, ættir endilega blogga líka "hversdags".

Við Valdi komum heim í gærkvöldi eftir fremur blautan dag á Fjallabaksleið nyrðri. Áttum annars mjög góða daga í þessari útilegurferð ef frá er talið lítils háttar óhapp þegar gírstöngin losnaði á leið í Kverkfjöll og engin leið að koma henni aftur á sinn stað. Við urðum því að sleppa Kverkfjöllum og Möðrudal, þar sem við ætluðum að gista, og brunuðum á Egilsstaði án þess að stoppa því það gátum við náttúrlega ekki, hefðum ekki komið honum í gang aftur. Viðgerð á Egilsstöðum gekk fljótt og vel, við gistum á Edduhóteli um nóttina og ókum síðan um Austfirði í gríðarlegri rigningu og þoku. ákváðum að halda áfrm þar til við kæmumst út úr rigningunni og það gerðist í Suðursveit.

Við ömmur heimsækjum svo Michelle og Justin síðdegis í dag.

Hlakka til að fá ykkur heim.

Risaknús. Maja

Amma Maja (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 12:40

2 identicon

Hæ elskurnar,

Er búin að vera lin við að kíkja við undanfarið, búið að vera svoldi gestkvæmt. Enn var afskaplega glöð þegar ég uppgötvaði nýja og langa færslu frá því síðast. Frábær lestur. Hlakka til að sjá ykkur heima á klakanum. Er byrjuð að tína í tösku og ekki nema rúmur sólarhrigur þar til við leggjum í hann.

Sendi link á mynd af okkur systrum hér í Norge. Erum búin að vera heppin með veður hér undanfarið. Sól og 25 stiga hita. Þá koma líka flugurnar...... enn það verður bara að hafa það.

Sjáumst
Rúna 

Runa (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband