Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.6.2007 | 02:49
Sólbruni og Mosquitobit
Dagurinn í gær notaður í afslöppun við sundlaugina með ,,rauðum afleiðingum" sem komu í ljós í morgun þegar vaknað var. Allur kvenleggurinn brann með það sama en Eydís er þó sínu verst, það er því ekki gott ástandið á fólki, útbitið og sólbrunnið.
En í stað þess að láta það á sig fá þá var ákveðið að nota daginn til að ferðast til Key West en þangað er tveggja tíma akstur. Gaman er að keyra þessa leið, brýrnar eru fjölmargar og landslagið mjög fallegt. Lengsta brúin heitir ,,the seven mile bridge" og er að sjálfsögðu eins og maður gæti haldið, 7 mílna löng.
Bærinn kom okkur skemmtilega á óvart, hann er ekki stór (ca 20-25 þús. manns búa þar) en þar er mikill túrismi sem má rekja m.a. til alþjóðlegs flugvallar sem staðsettur er á eyjunni og þess að mikið af skemmtiferðaskipum hefur þarna viðkomu. Bærinn er hinsvegar ólíkur öllum öðrum sólstrandarbæjum sem að við höfum komið til og höfum við nú komið til nokkurra. Gamli bærinn er mjög sjarmerandi, með gömlum húsum í suðurríkjastíl (eða það sem bandaríkjamenn kalla gamalt, frá ca 1880), mikið af veitingastöðum og litlum verslunum. Gífurlegur hiti og raki eru þarna og röltum við sveitt um bæinn í ca tvo tíma áður en haldið var heim á leið.
Á morgun er síðasti heili dagurinn okkar hér í ,,Lyklunum". Stefnt er að leggja í hann til Daytona um hádegi á föstudag. Morgundagurinn fer því að mestu leyti í þrif en til að brjóta hann aðeins upp þá verður líklega farið í kanósiglinguna sem við eigum alltaf eftir að prófa, nú eða kanski bara á ströndina he he.
Bestu kveðjur frá Florida
Iris
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 03:46
Dagur þrjú. Punktur.
Deginum var eytt við sundlaugina í gær, fyrir utan stuttan göngutúr í nágrenninu.
Um kvöldið grilluðum við í Tiki húsinu (það er þetta með stráþakinu á myndunum). Þetta er rosa flott hús með bar, ísskáp, vaski, rennandi vatni, grilli og sjónvarpi. Við erum alvarlega að pæla í að flytja inn eitt svona stykki heim eða að reyna að kópera það í garðinn heima.
Í morgun vöknuðu menn á misjöfnum tímum. Eiður og Eydís eru enn á íslenskum tíma og vöknuðu um kl. 6 í morgun en restin hefur nokkurn vegin jafnað sig á tímamismuninum og vöknuðu því milli kl. 8 og 9. Það var ekki falleg sjón sem blasti við mönnum þegar þeir horfðu á hvorn annan, allir útbitnir eftir Mosquito flugur. Ég held að ég sjálf hafi farið verst ,að venju, og óhætt er að segja að um 50-60 bit sé að ræða á mér einni en meira segja Birkir og Eiður sem hafa aldrei verið bitnir eru með fullt af bitum núna. Þetta flugukyn hér í Florida Keys fer greinilega ekki í manngreiningarálit.
Ég verð nú samt að minnast á eitt sem mér dettur í hug þegar minnst er á Mosquito flugur, ég rakst á auglýsingu í bæjarblaði staðarins, um sjónvarpsstöð sem sendir út einn dag í viku, tvo tíma í senn og umfjöllunarefnið er að sjálfsögðu-- Mosquito flugur-- og hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir bit. Mér sýnist næsta útsending vera á miðvikudag klukkan 19 og ég bíð spennt.
Annars var dagurinn í dag notaður í ferð á ströndina, við keyrðum í rúmlega klukkutíma á rosalega fallega strönd sem heitir Bahia Honda. Hvítur sandur, lítið af fólki, yndislega heitur sjór og engar öldur. Við vorum í um tvo klukkutíma á ströndinni og keyrðum síðan heim. Að venju verður kvöldið tekið rólega og ekki er búið að plana alveg morgundaginn, kannski verður það kanósigling, kemur í ljós.
Búið er að finna út nafn kattarins. Hún heitir Emma og er rúmlega 1. árs gömul, hún er rosalega fjörug og leikur sé mikið við krakkana.
Kveðja
Iris
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2007 | 11:37
Ferðaáætlun
Hér kemur svo loksins ferðaáætlunin sem var löngu búið að lofa:
9. til 16. júní - Islamorada, Florida Keys
16. til 25. júní - Daytona Beach, Florida (Disney garðar ofl.)
26. júní til 1. júlí - Savannah GA, Charleston SC, Petersburg VA, Washington DC, Wilmington DE, New York City.
2. til 9. júlí - Montague Massachusetts, flogið heim að kvöldi 9. júlí.
Eiður
10.6.2007 | 14:58
Islamorada
Eftir langan og strangan keyrsludag í gær erum við komin til Islamorada í Florida Keys. Ef himnaríki er til þá held ég að þetta hljóti að jafnast á við það. Hér ætla ég að eyða ellinni, kaupa mér hús og bát og njóta náttúrunnar, vonandi koma myndir inn bráðlega sem sýna dýrðina.
Smá yfirlit yfir ferðalagið okkar fram að þessu.
Föstudagurinn 8. júní : Við mættum allt of snemma út á flugvöll. Engin röð í innritun né skoðun og eyddum því einum þremur klukkutímum út á flugvelli áður en farið var í loftið.
Flugið gekk ágætlega, það var klukkutíma styttra en til stóð vegna hagstæðra vinda og tók því ekki nema 6 klst og 45 mín. Krakkarnir voru ótrúlega góðir allan tímann og kvörtuðu aldrei.
Vel gekk að finna bílinn á flugvellinum og ferðalagið á hótelið sem við gistum á fyrstu nóttina gekk einnig vel. Hótelið var í um klukkutíma akstur frá flugvellinum, við Cocoa Beach og við hliðina á því var McDonalds, krökkunum til mikillar gleði.
Laugardagurinn 9. júní : Daginn eftir (þ.e. í gær) var haldið snemma af stað til Florida Keys. Til stóð að ferðalagið stæði um 5-6 tíma en reyndin var sú að það tók okkur um 12 tíma að komast hingað, sem má rekja til stopps í risastórum verslunarkjarna og kröfu af hendi yngsta fjölskyldumeðlims um fjöldamörg pissustopp (óeðlilegt að mati foreldranna).
Þó að dimmt væri orðið gekk nokkuð vel að finna húsið og þessi fíni hvíti ljónaklippti persneski köttur tók á móti okkur fagnandi (vitum ekki nafnið á honum ennþá, en það er í rannsókn).
Eftir að búið var að henda af sér dótinu þá var farið út að borða á góðum ítölskum sjávarréttastað hérna rétt hjá. Eftir það voru allir uppgefnir og farið var beint að sofa.
Sunnudagurinn 10. júní : Planið í dag er að eyða deginum í leti við sundlaugina og núna er ég ein eftir inn í húsinu, allir aðrir eru komnir þangað. Ég held að ég hætti þessu núna og drífi mig líka, set kannski inn meira í kvöld.
Kveðja
Iris
Vinir og fjölskylda | Breytt 11.6.2007 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2007 | 14:15
Gamla færslan
Tilurð þessa bloggs má rekja til Bandaríkjaferðar fjölskyldunnar sem nú stendur fyrir dyrum. Fyrirhugað ferðalag hefur verið á teikniborðinu í ein 3 ár og hefur Eiður borið hitann og þungann af skipulagningunni síðasta árið. Hann er svo skipulagður, þessi elska
Flogið verður næstkomandi föstudag þann 8. júní til Orlando og heimferð er áætluð frá Boston þann 9. júlí. Til stendur að fara í þrjú heimilisskipti, tvö eru við fjölskyldur í Florída, nánar tiltekið í Florida Keys og Daytona, og eitt við fjölskyldu í Massachusetts. Ein vika verður notuð til að keyra norður til Massachusetts frá Florida og hafa ýmsir gististaðir verið sérvaldir á leiðinni.
Að sjálfsögðu erum við með háleit markmið varðandi þessa bloggsíðu og ætlunin er að skrifa fréttir af okkur a.m.k. einu sinni á dag og setja inn myndir. Hvort að við það verður staðið verður að koma í ljós en öllum er velkomið að skrifa hér inn kveðjur, skilaboð eða spurningar til okkar.
Ferðaáætlun verður sett inn fljótlega, allavega áður en farið verður í loftið á föstudaginn.
Iris
10.6.2007 | 14:13
Nýtt blogg
Bloggið byrjaði ekki vel
Fyrst var stofnað blogg á blogcentral.is og náðist að setja þar inn eina færslu en síðan ekki söguna meir, lykilorð, tölvupóstur og fl. virtist hafa gufað upp. Þetta er því tilraun tvö og hefur efni af fyrri síðu verið fært inn hér að neðan (ofan).
kveðja
Iris
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)