Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Montague

Jæja þá er lokaáfangi ferðarinnar hafinn. Við komum seint í gærkveldi í myrkri til Montague og áttum ekki í neinum erfiðleikum með að finna húsið inn á milli trjánna enda með GPS tæki sem er ótrúlega hjálplegur hlutur við svona aðstæður. Ferðalagið var langt og strangt, geðveik umferð og stíflur í kringum New York sem við þurftum að taka sveig framhjá, allt hafðist þetta þó að lokum. Landslagið í New York fylki er mjög fallegt og breyting á því er búin að vera mikil á leiðinni frá Florída, fín tilbreyting að keyra hæðir og hóla í stað þessa flata landslags sem hefur verið ríkjandi undanfarnar 3 vikur.
Húsið er yndislegt, ekki mjög stórt (sem betur fer) og allt mjög snyrtilegt. Það er staðsett inn í skógi og Eydís vakti okkur í morgun með því að segja okkur að hún hefði farið út í garð og séð, tvo íkorna, kanínu, þvottabjörn og fullt af fuglum enda er bakgarðurinn skógurinn. Ég hlakka mikið til að eyða þessari síðustu viku hér og ekki skemmir fyrir að ömmurnar komi á morgun til okkar, það verður örugglega stuð í litla húsinu í skóginum.
Tvær kisur eru í húsinu sem okkur er treyst fyrir að passa en við höfum nú varla séð þær (nema rétt aðeins tvö strik sem skjótast upp og niður stigana á miklum hraða) enda eru þær víst með afbrigðum feimnar. Dagurinn í dag verður notaður til að kanna umhverfið, þvo þvott og koma okkur fyrir en á morgun verður farið til Boston og ömmurnar sóttar á flugvöllinn.
Fréttir af Diljá eru þær að ég held að hún hafi hrist af sér hitann og sé orðin frísk :)

Kveðja frá BNA
Iris


Washington og Delaware

hæ hæ allir

Dagurinn í gær var notaður í heimsókn til Washington. Við vorum komin þangað um hádegi í gær en það tók okkur u.þ.b. klukkutíma að finna bílastæði í borginni. Dagurinn notaður í rölt á The Mall og öll minnismerkin skoðuð sem þar eru. Einnig kíkt á þinghúsið og hæstarétt, annars eru sumir staðir svo víggirtir þarna hjá þeim að það er ekki hægt að komast nálægt þeim eins og t.d. þinghúsið, mjög ólíkt því sem var þegar við Eiður vorum þarna fyrir 15 árum síðan. 

Eftir skoðunarferðina var keyrt inn í Georgetown og kvöldmatur borðaður á stóru ítölskum veitingastað, ofsalega líflegt og skemmtilegt umhverfi sem gaman væri að koma aftur til og mjög vel heppnuð máltíð, nema að Diljá var svo þreytt að hún var næstum sofnuð ofan í matinn. Það gerðist reyndar á Hard Rock staðnum í Universal garðinum í Florida, þ.e. að Diljá sofnaði ofan í matinnLoL, en í þetta skipti tókst okkur að halda henni vakandi.Sleeping Það tók okkur síðan 3 klukkutíma að komast á hótelið í Delaware og stelpurnar sváfu nánast allan tímann á leiðinni. Gistum á besta hótelinu í nótt, vöknuðum í sólarleysi og hitastigið er svipað og á Íslandi en það sem verra er, Diljá er orðin lasin, í raun finnst ekkert að henni nema bara hiti en allur er varinn góður og þar sem við sjáum fram á að geta ekki verið með hana á götum New York borgar í þessu ásigkomulagi þá þarf að breyta ferðaplaninu. Fresta New York og fara beint í húsið í Montague og láta litlu prinsessuna jafna sig. Við förum svo eina til tvær nætur til New York í næstu viku. Það eru ekki allir sáttir en besta planið í stöðunni.Cool

Sólin er farin að brjóstast fram og væntanlega hlýnar eitthvað í leiðinni, fyrir höndum er langur keyrsludagur norður til Massachusett og því kveðjum við í bili.

Iris, Eiður, Birkir, Eydís og Diljá

 


Virginía

 

Mikill keyrsludagur að baki í dag, lögðum af stað frá Charleston í Suður-Karólínu klukkan 9 í morgun og vorum komin hingað í Chester í Virginíu um kl. 6 í dag. Chester er lítill bær rétt fyrir sunnan Richmond og við hótelið er fín sundlaug sem að sjálfsögðu var nýtt um leið og komið var á staðinn. Mjög heitt er í veðri, líklega um 95 á Farenheit, en skýjað og stuttu eftir að við stigum upp úr lauginni þá byrjuðu lætin. Það rignir eldi og brennisteini þ.e. veður staðarins er þrumur og eldingar með MJÖG mikilli rigningu. Núna er bara beðið eftir að það stytti upp svo hægt sé að hætta sér í næsta hús og borða án þess að vökna mjög mikið.  

Síðustu nótt eyddum við í Charleston í Suður-Karólínu, ofsalega skemmtilegur bær, ekki ósvipaður og Savannah en virðulegri. Það er virkilega spennandi að koma í borgarferð bæði til Savannah og Charleston, það eru æðislegar búðir, veitingastaðir og það mikið að skoða að það myndi duga til að fylla upp í nokkra daga.

Á morgun er stefnan tekin á Washington. Leggja á snemma af stað héðan í fyrramálið og eyða deginum í Washington. Annað kvöld á að keyra til Delaware og gista þar eina nótt og fara síðan til New York og eyða tveimur dögum þar, mikil tilhlökkun er að fara til New York hjá fólki, sérstaklega hjá Birki Smile

 

Bless í bili

Iris


Savannah Georgía

Hæ hæ allir

Eins og fyrirsögnin ber með sér þá erum við komin til Savannah í Georgíu. Þetta er alveg yndisleg borg, sérstaklega gamli hluti hennar sem hefur svolítið ,,evrópskt yfirbragð". Við borðuðum þar í gærkveldi, við ánna á Fiddlers crab house. Birkir smakkaði krabba þar og fannst hann góður. Á eftir röltum við aðeins um svæðið og fengum okkur ís áður en farið var í háttinn. Núna var fjölskyldan að klára morgunmatinn og er stefnan tekin á sundlaugina áður en lagt verður af stað til Charleston í Suður-Karólínu. Þangað er aðeins tveggja tíma akstur og gist verður þar næstu nótt.

Bless í bili

Iris


Næstsíðasti dagur í Daytona

....svo haldið sé áfram þar sem frá var horfið þá var seinni deginum í Orlando eytt í vatnsrennibrautagarði sem heitir Blizzard Beach, mjög flottur garður en ógeðslega mikið af fólki. Fjölskyldan var ekki mætt á svæðið fyrr en um kl. 3 þann dag vegna óvæntra tafa sem fólust í því að bíllinn var rafmagnslaus (kæliboxið hafði gleymst í sambandi um nóttina og tíma tók að fá start) og svo uppgötvaðist að sundfötin höfðu gleymst í Daytona Beach (fjárfesta þurfti í nýjum sundfötum :) ). Loksins þegar fjölskyldan komst á svæðið þá voru nokkrar ferðir teknar í rennibrautinni og sumir lögðust einfaldlega í langt og gott sólbað sem var mjög við hæfi því að hitastigið í Orlando var yfir 100, eins og ,,the Americans" segja ,,in the 100's").

Blizzard Beach og strönd 060

Þegar búið var að henda okkur út úr garðinum kl. 7 þá var kvöldið endað á Fetsund nótunum (takk fyrir frábært tips Ævar) þ.e. fyrst var farið á Kobé, Japanska steikhúsinu og síðan í Mini-golf á eftir. Þetta var ógurlega skemmtilegt, krakkarnir voru heillaðir af Japanska kokknum sem kveikti í laukeldfjalli og henti spöðum upp í loft fyrir framan þau á milli þess sem hann eldaði matinn þeirra. Hringurinn í Mini-golfinu tók u.þ.b. 2 tíma hjá okkur (látum velgengni á golfvellinum liggja milli hluta, það er tapsárt fólk í fjölskyldunni sem ekki er gott að styggja).

Mini Golf 011

Lagt var af stað til Daytona kl. 00:30 um nóttina þegar golfið var búið og menn sváfu vel fram eftir í morgun.

Deginum var eytt á ströndinni og einnig var öðrum bílnum skilað á Sanford flugvöllinn eins og til hafði staðið. Um kvöldið var farið út að borða á sama stað og við höfðum farið fyrsta kvöldið í Daytona. Fólk spyr okkur nánast undantekningalaust hvaðan við séum og allir segja váááá þegar við segjum Ísland. Sumir spyrja hvort að við þolum ,,yfirleitt" sól en aðrirvita eitthvað um Ísland eins og stelpan sem þjónaði til borðs hjá okkur í kvöld en hún er frá New York en er einnig norsk í aðra ættina (þó að hún hafi aldrei komið þangað) og sagðist hafa lesið heilmikið um Ísland, vissi að tungumálið væri mjög gamalt, vissi um erfðafræðipælingar Decode og eitthvað fleira sagðist hún vita.

En nú er komið að aðalfréttunum: Birkir borðar rækjur, hann smakkaði þær í kvöld og fannst þær mjög góðar, þvílíkur sigur :) Önnur stórfrétt, er reyndar ekki mjög ný hefur eiginlega gleymst að segja frá: Eiður er farinn að drekka kaffi, það er reyndar vel sykrað og french vanilla bætt, en honum finnst það svo gott að hann stingur upp á því að fyrra bragði að við stoppum og fáum okkur kaffi. Ég bjóst aldrei við því að ég myndi skrifa þetta en svona er það nú.

Á morgun en síðasti dagurinn okkar í Daytona. Á morgun er stefnan tekin á lítinn vatnsrennibrautagarð hér rétt hjá og síðan á að fara heim og taka til í húsinu. Á þriðjudagsmorgunn er stefnt á að leggja snemma á stað norður Bandaríkin og fyrsta stoppið er Savannah í Georgíu. Þangað er 4 tíma akstur og því veitir ekki af að leggja snemma af stað því að borgin er víst mjög falleg og gaman er að stoppa þar í nokkra klukkutíma. Við vitum ekki hversu auðvelt verður að komast á netið til að blogga á leiðinni, vonandi er nettenging víðast hvar.

Bið að heilsa í bili FhFF (Fyrir hönd Fögrubrekkugengisins og Flórídafaranna)

Iris


Örþreytt

Vorum að koma "heim" á hótel í Orlando eftir annasaman dag í Universal Studios og Island of Adventure. Tveir skemmtigarðar, hlið við hlið. Sundlauga-vatnsrennibrauta-garður á morgun. Meira blogg þá eða hinn...

Eiður


Myndasafn að fæðast

Sæl öll!

Kominn er vísir að myndasafni úr ferðinni (og raunar einnig frá öðrum viðburðum) á slóðinni: http://picasaweb.google.com/eidura

Skemmtilegar myndir eins og þessi

Daytona%20Beach%20str%C3%B6ndin%2022.%20j%C3%BAn%C3%AD%202007%20080[1]

Kveðja, Eiður


Heimsókn í fimmta svæðisbundna áfrýjunardómstól Flórídafylkis

Eins og til hafði staðið þá fór ég í heimsókn í dómstólinn í dag. Um er að ræða dómstólinn sem dómarinn okkar, judge Palmer, er dómari við. Aðstoðakonan hans, Teri, tók á móti mér og Eiði (hann var sérlegur aðstoðarmaður minn í þessari heimsókn), við fórum í réttarsal og hlustuðum á málflutning í máli sem snerist um læknamistök. Við vorum víst mjög heppin með mál því að yfirleitt er þarna um að ræða frekar óspennandi mál sagði Teri okkur og lítið um áheyrendur í réttarsal.
Annars var þetta alveg frábær heimsókn, allir ofsalega indælir og almennilegir. Þegar við mættum á svæðið þá hittum við dómarana sem áttu að dæma í málinu, við heilsuðum upp á þá og spjölluðum við þá smástund, þeim fannst mjög spennandi (reyndar öllum sem við hittum, öryggisvörðunum líka) að við kæmum frá Íslandi. Eftir að málflutningi var lokið þá sýndi Teri okkur skrifstofu Palmer dómarar en þar hittum við ritara hans, sem var jafn indæl og allir hinir. Að lokum kíktum við á bókasafnið og fórum svo heim til krakkanna sem höfðu verið skilin eftir í umsjá Jack Sparrow sjóræningja í tvo klukkutíma.
Dagurinn var síðan notaður í rólegheit, sem veitti ekki af eftir allan hasarinn undanfarna daga. Reyndar var látið undan Birki og farið í bíó á Shrek 3 en hann var mikið búinn að biðja um að fara.
Á morgun er planið að taka dag á ströndinni og á föstudag og laugardag er planið að taka tveggja daga ferð í garða. Föstudag á að fara í Universal og laugardag í vatnsskemmtigarð, gista á eina nótt í Orlando, nálægt görðunum.

Annars bara allt gott, kveðja í bili frá Flórída
Iris


Ströndin og Disney

Síðustu dagar hafa verið mjög annasamir hjá fjölskyldunni. Ferðin í Kennidy Space Center féll niður því að foreldrarnir sváfu yfir sig, þ.e. þau vöknuðu ekki fyrr en klukkan hálf tíu um morgunninn og þá var einfaldlega of seint að leggja af stað. Til að breiða yfir klúðrið þá var deginum í skyndi breytt í stranda og menningaferð Smile  Það sem eftir lifði morguns var notað í ferð á ströndina, þar sem við skemmtum okkur við að kljúfa öldurnar sem voru býsna háar.

IMG_1756

 IMG_1731

IMG_1723

 

 

 

 

Síðari hluti dagsins var notaður í (lág)menningarferð til Orlando þar sem byrjað var á að skoða hið geysistóra Florida Mall og síðan stórt outlet sem er þar rétt hjá. Veskin voru aðeins viðruð og eftir ferð á veitingastað í Orlando þá var ekið heim til Daytona. Búið var að plana ferð í Disney garðinn tvo daga í röð og ákveðið var að gista á hóteli í Orlando nóttina á milli. Lagt var eldsnemma af stað um morgunninn og deginum þ.e. gærdeginum var eytt í Magic Kingdom. Þvílíkur hiti og þvílík mannmergð sem var þarna, maður þarf sko að taka með sér extra skammt af þolinmæði til að komast í gegnum heilan dag þarna. Við vorum komin  á staðinn kl. 11 um morguninn og vorum að skríða inn á hótelið kl. 11 um kvöldið. Þetta var því 12 tíma törn bara í garðinum og við komumst ekki einu sinni yfir að skoða allt á þeim tíma. Þetta var samt ágætis skemmtun, nokkrar stórskemmtilegar ferðir fyrir alla, sérstaklega fyrir krakkana.

IMG_1810

Síðari dagurinn, þ.e. dagurinn í dag var notaður í Epcot garðinn sem var eiginlega mun skaplegri. Minna af fólki og margar stórskemmtilegar og fræðandi ferðir sem bæði börn og fullorðnir höfðu gaman af. Já og svo var ekki verra að við fengum eiginlega í fyrsta skipti almennilegan mat að borða síðan við komum til Florida. Við fórum á virkilega góðan ítalskan veitingastað í garðinum og fengum æðislegan mat þar sem er góð tilbreyting frá þessu brasi sem þeir kalla mat hér í bandaríkjunum. Það er ekkert skrýtið að 60% af þjóðinni sé of feit því að maður getur varla ímyndað sér að það geti verið nokkuð annað en innantóma kalóríur í þessu sem boðið er upp á hér.

Eftir Epcot var farið ,,downtown Disney" og veskin aðeins viðruð í búðunum þar og að lokum var lagt í hann til Daytona. Dagurinn á morgun verður notaður í rólegheit, ekki veitir af því að það eru allir gjörsamlega búnir á því. Rólegheit þýðir þó sjálfsagt ferð á ströndina ef maður þekkir krakkana rétt, þau bókstaflega elska þessa strönd enda er mjög gaman á henni.

Knús og kossar til allra frá Florida

Iris


Síðustu dagar (þeirra heilögu!!)

Nú eru nokkrir dagar síðan skrifað var síðast og því veitir ekki af upprifjun. Sit ein úti í niðamyrkri á veröndinni með rauðvín í glasi meðan ég skrifa þetta (alveg yndislegt).

Síðasti dagurinn í Florida Keys var alveg frábær og yndislegur. Við notuðum hluta af honum í kajak leiðangur eins og til hafði staðið frá fyrsta degi. Við sáum strax eftir því að hafa ekki prófað þetta miklu fyrr því að þetta var mjög skemmtilegt og við hefðum getað farið tvisvar ef við hefðum fattað það fyrr.

Við vorum með fjóra báta til umráða, tveir fylgdu húsinu sem við vorum í en tveir voru fengnir að láni frá nágrönnunum. Einn báturinn var tveggja manna og voru ég og Eydís saman á honum með Diljá í eftirdragi í öðrum bát (hún gafst fljótt upp á róðrinum J). Eiður var á einum bát með Birki í eftirdragi í öðrum (hann gafst líka fljótlega upp). Við sigldum eftir kanölunum og út á sjó, nágrönnum okkar til mestrar furðu þá datt enginn út í. Öllum fannst rosalega gaman þó menn væru misjafnlega fljótir að vilja fara heim. Tounge Sjórinn er mjög sérstakur þarna í kringum eyjarnar, hann er hlýr (sennilega um 30 gráður), hann er misdjúpur (svæðið er að ég held eitt stórt rif, t.d var dýpra í kanalnum heldur en út á sjó, þar sáum við niður á botn). Það eru engar öldur heldur er þetta eins og að vera á stóru vatni (þ.e. ekki á íslensku vatni með vindi).

Kajak og sund 006Kajak og sund 020Kajak og sund 026

Restin af þessum síðasta degi var notuð í sund

 Kajak og sund 051

og tiltekt og einnig morguninn eftir en þá var lagt í hann norður til Daytona Beach. Ferðalagið gekk mjög vel þó ekki væri það stutt, vorum 9 tíma á leiðinni. Þegar komið var til Daytona um kl. 8 um kvöldið var smá rúntur tekinn um húsið og síðan farið út að borða á alveg frábæran stað, einhvers konar sambland af kúbönskum Fridays/Hard Rock stað.

Daytona er þekkt fyrir kappakstur og við fystu kynni má segja að borgin snúist um bíla/mótorhjól, mikið af slíkum hraðskreiðum tækjum eins og sjá má/og heyra á götum borgarinnar og á ströndinni (já, þið lesið rétt, akstur er leyfilegur á Daytona ströndinni, maður þarf að líta til beggja hliða og hlusta vel J). Þessu komumst við að í dag þegar ákveðið var að fari í smá skoðunarferð á ströndina sem er í göngufæri frá  húsinu okkar. Ströndin er mjög flott, breið, gífurlega löng og hreinleg. Sjórinn er hlýr og öldur eru háar, ekki verið að reyna að troða inn á þig sólhlífum og bekkjum, heldur virðast flestir koma með það með sér.

Það sem átti að vera smá kíkk á ströndina (til að kíkja á aðstæður, þið vitið) endaði í tveggja tíma rölti. Diljá og Eydís rennandi blautar eftir allan ölduganginn en þetta var mjög gaman og frískandi. Fyrir utan að enginn hafði haft vit á að bera á sig sólarvörn fyrir gönguna og brakar því í sumum eftir daginn. Annars er það að frétta af Mrs. Mosquito að það er víst eitrað grimmt fyrir þeim hér í Daytona þannig að sennilega/vonandi eigum við ekki von á mörgum bitum héðan í frá, annars er aldrei að vita þegar við eigum í hlut. Ótrúlegt að segja frá því að Eiður hefur haft vinninginn í bitum, það er greinilega verið að vinna upp glataðan tíma, það mætti því kalla hann þúsundbita kónginn, en auðvitað þorir enginn að segja það upphátt.

Húsið sem við erum í er mjög spes, það hefur að geyma kínverskt herbergi, garðherbergi, (rúmið er með himnasæng) risastórt svítubaðherbergi, (okkar STÓRA baðherbergi er kústaskápur miðað við það), það er pool-borð í stofunni, eldhúsið hefur tvo ofna og örbylgjuofn, 4 klósett eru í húsinu, óteljandi stólar og borð. Mög auðvelt að halda 60 manna fermingarveislu hérna án þess að fá lánað borð og stóla. Garðurinn er risastór, en er eiginlega tómur, gras og örfáir pálmatrésræflar. Ég held samt að framkvæmdir á lóðinni standi fyrir dyrum, þetta er því líkara safni heldur en heimili og við erum svolítið stressuð út af því, krakkarnir gætu brotið eitthvað. Mr Palmer dómari og frú segja okkur að hafa ekki áhyggjur því að þetta séu bara hlutir Smile Á morgun stendur til að fara til Kennedy Space Center.

Sama dag og við komum til USA (fyrir viku síðan) var verið að skjóta á loft geimfari og nú er verið að reyna að ná þeim heim aftur, en eitthvað hefur það dregist, við erum því að pæla að tékka á þessu á morgun og kippa málunum í lag. Wink

Við biðjum að heilsa í bili, það er víst þjóðhátíð og handbolti (vonandi beint á netinu) á morgun, segjum bara góða skemmtun.

Fyrir hönd Fögrubrekku gengisins

kveðja frá Florída,

Iris

PS: það er rosalega gaman að lesa gestabókina, endilega skrifið meira Smile

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband