New York og fleira

Mikið ferðalag hefur verið á fjölskyldu og ömmum undanfarna daga þannig að enginn tími hefur verið til að setjast niður við tölvu fyrr en núna en klukkan er hálf tólf að kvöldi til og ömmurnar eru í eldhúsinu að fást við mat, pabbinn að horfa á Roy Orbison í sjónvarpinu, börnin í tölvunni og mamman er í annarri tölvu að blogga, allt mjög nútímalegt. New York ferðin er afstaðin en lagt var eldsnemma af stað á fimmtudagsmorgni og bílnum ekið inn á Manhattan um hádegi þar sem hótelið fannst án mikillar fyrirhafnar. Farið var í tveggja tíma skoðunarferð um borgina á tveggja hæða strætisvagni og kvöldmatur var borðaður á góðum ítölskum stað. Dagskráin var þéttskipuð daginn eftir og því var dagurinn tekinn snemma og lestin tekin á American Museum of Natural History. Krakkarnir höfðu beðið með mikilli eftirvæntingu eftir að komast á safnið sem er í Hollywoodmyndinni ,,Night at the museum" og sjá uppáhaldsfígúrurnar sem koma fram í þeirri mynd. Það kom í ljós að myndin er trú uppruna sínum og sumar fígúrurnar sem eru í myndinni eru einfaldlega uppspuni og/eða eru staðsettar á öðrum söfnum. Dum Dum var þó mættur á svæðið og safnið er mjög flott og STÓRT. Eftir safnið var rölt í Central Park og litli dýragarðurinn þar skoðaður og á eftir var farið í ferð fram og tilbaka með Staten Island Ferry. Siglt er framhjá Frelsisstyttunni og Ellis Island og Manhattan sést frá aðeins öðru sjónarhorni. Eftir ferjuferðina var farið á indverskan veitingastað og klukkan 10 um kvöldin var lagt af stað til Montague.
Fólk fékk að sofa út í morgun en eins og berlega hefur komið í ljós þá á þessi fjölskylda erfitt með að sitja á rassinum og strax eftir hádegi var ákveðið að fara til Old Sturbridge Village sem er eins og Árbæjarsafn okkar Íslendinga. Þar komumst við í kynni við sögunarmyllu, leirkerasmíði, tinsmíði og fleira. Eftir alla þessa fræðslu var komið við í stórri verslunarmiðstöð og þar sem sumum fannst þeir ekki eiga nóg af skóm og töskum var ákveðið að þétta aðeins á og einnig var fjárfest í ferðatösku ásamt fleiru.
En verið er að reka mig í burtu af borðstofuborðinu, klukkan alveg að verða tólf á miðnætti og síðbúinn kvöldverður tilbúinn sem verður skolað niður með rauðu víni.
Allir biðja að heilsa í bili

Kveðja frá Montague, Massachusetts,
Iris


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband