Ömmur mættar ?

Jú, Ömmurnar eru mættar og það hefur einfaldlega verið svo mikið að gera hjá okkur að bloggið hefur setið á hakanum. Úr því verður nú bætt snarlega:
Ömmurnar skiluðu sér á réttum tíma og stað á flugvellinum í Boston og keyrt var til Montague, slegið var upp veislu með nautasteik, rauðvíni og Boston cream cake í eftirrétt. Daginn eftir (þ.e. í gær) var svo lagt í verslunaroutletferðina ógurlegu sem búið var að plana. Lagt var snemma af stað í gærmorgun, sem veitti ekki af vegna þess að tveggja tíma akstur er á staðinn. Rallið hófst kl. 11 um morgunin og því lauk kl. 9 í gærkveldi, geri aðrir betur, við erum mjög stolt af okkur. Bíllinn var fullur af pokum sem innihéldu óvenjumörg skópör (sumir keyptu sér 5 pör), sjálfvirka ryksugu (þið vitið nú örugglega hver á þar í hlut), nokkur veski, fatnað og leikföng. Heimkoma var um kl. 11 í gærkveldi og stelpurnar sváfu mest alla leiðina heim. Reyndar var hluti af verslunardegi ammana eytt á útibarnum á Ruby Tusday við hvítvínsdrykkju en það er önnur saga.
Dagurinn í dag hefur að mestu leyti farið í það að taka upp úr pokum og velta fyrir sér hvernig eigi að koma dýrðinni heim til Íslands og hvernig eigi að losa sig við allar umbúðirnar án þess að Kaninn taki eftir því ;) (fólk er jú svolítið skömmustulegt yfir kaupkasti gærdagsins). Ömmunum hefur nú tekist að breyta þeim í öreindir og er vandamálið líklega úr sögunni. Á morgun verður farið til New York og Eiður hefur notað tímann í dag til að finna handa okkur hótel á Manhattan sem ekki er á syndsamlegu verði, það er náttlega vita vonlaust og því verður kreditkortaheimildin nýtt til hins ýtrasta.
Í dag er 4 júlí og við verðum ekki mikið vör við þjóðhátíðarstemningu hér í BNA, einhver flugeldasýning verður víst á föstudaginn næsta hér og kannski verðum við komin nógu snemma frá New York til að sjá hana, kemur í ljós, okkur finnst þetta nú hálf lélegt, bjuggumst við skrúðgöngum að amerískum hætti.
Núna stendur til að fara út í göngutúr og týnast að hætti ammanna, þannig að þetta verður látið duga í bili í blogginu.
Frábært að sjá hversu veðrið er gott heima, það er nú ekki upp á marga fiska hér, 24 stiga hiti, sem virkar eins og 13 stig heima, vonandi bíður góða veðrið eftir okkur.

Allir biðja að heilsa héðan frá ameríkunni
bless í bili
Iris


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband