25.6.2007 | 03:48
Næstsíðasti dagur í Daytona
....svo haldið sé áfram þar sem frá var horfið þá var seinni deginum í Orlando eytt í vatnsrennibrautagarði sem heitir Blizzard Beach, mjög flottur garður en ógeðslega mikið af fólki. Fjölskyldan var ekki mætt á svæðið fyrr en um kl. 3 þann dag vegna óvæntra tafa sem fólust í því að bíllinn var rafmagnslaus (kæliboxið hafði gleymst í sambandi um nóttina og tíma tók að fá start) og svo uppgötvaðist að sundfötin höfðu gleymst í Daytona Beach (fjárfesta þurfti í nýjum sundfötum :) ). Loksins þegar fjölskyldan komst á svæðið þá voru nokkrar ferðir teknar í rennibrautinni og sumir lögðust einfaldlega í langt og gott sólbað sem var mjög við hæfi því að hitastigið í Orlando var yfir 100, eins og ,,the Americans" segja ,,in the 100's").
Þegar búið var að henda okkur út úr garðinum kl. 7 þá var kvöldið endað á Fetsund nótunum (takk fyrir frábært tips Ævar) þ.e. fyrst var farið á Kobé, Japanska steikhúsinu og síðan í Mini-golf á eftir. Þetta var ógurlega skemmtilegt, krakkarnir voru heillaðir af Japanska kokknum sem kveikti í laukeldfjalli og henti spöðum upp í loft fyrir framan þau á milli þess sem hann eldaði matinn þeirra. Hringurinn í Mini-golfinu tók u.þ.b. 2 tíma hjá okkur (látum velgengni á golfvellinum liggja milli hluta, það er tapsárt fólk í fjölskyldunni sem ekki er gott að styggja).
Lagt var af stað til Daytona kl. 00:30 um nóttina þegar golfið var búið og menn sváfu vel fram eftir í morgun.
Deginum var eytt á ströndinni og einnig var öðrum bílnum skilað á Sanford flugvöllinn eins og til hafði staðið. Um kvöldið var farið út að borða á sama stað og við höfðum farið fyrsta kvöldið í Daytona. Fólk spyr okkur nánast undantekningalaust hvaðan við séum og allir segja váááá þegar við segjum Ísland. Sumir spyrja hvort að við þolum ,,yfirleitt" sól en aðrirvita eitthvað um Ísland eins og stelpan sem þjónaði til borðs hjá okkur í kvöld en hún er frá New York en er einnig norsk í aðra ættina (þó að hún hafi aldrei komið þangað) og sagðist hafa lesið heilmikið um Ísland, vissi að tungumálið væri mjög gamalt, vissi um erfðafræðipælingar Decode og eitthvað fleira sagðist hún vita.
En nú er komið að aðalfréttunum: Birkir borðar rækjur, hann smakkaði þær í kvöld og fannst þær mjög góðar, þvílíkur sigur :) Önnur stórfrétt, er reyndar ekki mjög ný hefur eiginlega gleymst að segja frá: Eiður er farinn að drekka kaffi, það er reyndar vel sykrað og french vanilla bætt, en honum finnst það svo gott að hann stingur upp á því að fyrra bragði að við stoppum og fáum okkur kaffi. Ég bjóst aldrei við því að ég myndi skrifa þetta en svona er það nú.
Á morgun en síðasti dagurinn okkar í Daytona. Á morgun er stefnan tekin á lítinn vatnsrennibrautagarð hér rétt hjá og síðan á að fara heim og taka til í húsinu. Á þriðjudagsmorgunn er stefnt á að leggja snemma á stað norður Bandaríkin og fyrsta stoppið er Savannah í Georgíu. Þangað er 4 tíma akstur og því veitir ekki af að leggja snemma af stað því að borgin er víst mjög falleg og gaman er að stoppa þar í nokkra klukkutíma. Við vitum ekki hversu auðvelt verður að komast á netið til að blogga á leiðinni, vonandi er nettenging víðast hvar.
Bið að heilsa í bili FhFF (Fyrir hönd Fögrubrekkugengisins og Flórídafaranna)
Iris
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 04:15 | Facebook
Athugasemdir
Reyni aftur, tókst ekki að skrifa í gestabókina þar sem ég klikkaði á fyrirsögninni :)
Hafið það sem best þarna úti :)
Skil þetta mjög vel með kaffið :-p
Dagný (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.