Síðustu dagar (þeirra heilögu!!)

Nú eru nokkrir dagar síðan skrifað var síðast og því veitir ekki af upprifjun. Sit ein úti í niðamyrkri á veröndinni með rauðvín í glasi meðan ég skrifa þetta (alveg yndislegt).

Síðasti dagurinn í Florida Keys var alveg frábær og yndislegur. Við notuðum hluta af honum í kajak leiðangur eins og til hafði staðið frá fyrsta degi. Við sáum strax eftir því að hafa ekki prófað þetta miklu fyrr því að þetta var mjög skemmtilegt og við hefðum getað farið tvisvar ef við hefðum fattað það fyrr.

Við vorum með fjóra báta til umráða, tveir fylgdu húsinu sem við vorum í en tveir voru fengnir að láni frá nágrönnunum. Einn báturinn var tveggja manna og voru ég og Eydís saman á honum með Diljá í eftirdragi í öðrum bát (hún gafst fljótt upp á róðrinum J). Eiður var á einum bát með Birki í eftirdragi í öðrum (hann gafst líka fljótlega upp). Við sigldum eftir kanölunum og út á sjó, nágrönnum okkar til mestrar furðu þá datt enginn út í. Öllum fannst rosalega gaman þó menn væru misjafnlega fljótir að vilja fara heim. Tounge Sjórinn er mjög sérstakur þarna í kringum eyjarnar, hann er hlýr (sennilega um 30 gráður), hann er misdjúpur (svæðið er að ég held eitt stórt rif, t.d var dýpra í kanalnum heldur en út á sjó, þar sáum við niður á botn). Það eru engar öldur heldur er þetta eins og að vera á stóru vatni (þ.e. ekki á íslensku vatni með vindi).

Kajak og sund 006Kajak og sund 020Kajak og sund 026

Restin af þessum síðasta degi var notuð í sund

 Kajak og sund 051

og tiltekt og einnig morguninn eftir en þá var lagt í hann norður til Daytona Beach. Ferðalagið gekk mjög vel þó ekki væri það stutt, vorum 9 tíma á leiðinni. Þegar komið var til Daytona um kl. 8 um kvöldið var smá rúntur tekinn um húsið og síðan farið út að borða á alveg frábæran stað, einhvers konar sambland af kúbönskum Fridays/Hard Rock stað.

Daytona er þekkt fyrir kappakstur og við fystu kynni má segja að borgin snúist um bíla/mótorhjól, mikið af slíkum hraðskreiðum tækjum eins og sjá má/og heyra á götum borgarinnar og á ströndinni (já, þið lesið rétt, akstur er leyfilegur á Daytona ströndinni, maður þarf að líta til beggja hliða og hlusta vel J). Þessu komumst við að í dag þegar ákveðið var að fari í smá skoðunarferð á ströndina sem er í göngufæri frá  húsinu okkar. Ströndin er mjög flott, breið, gífurlega löng og hreinleg. Sjórinn er hlýr og öldur eru háar, ekki verið að reyna að troða inn á þig sólhlífum og bekkjum, heldur virðast flestir koma með það með sér.

Það sem átti að vera smá kíkk á ströndina (til að kíkja á aðstæður, þið vitið) endaði í tveggja tíma rölti. Diljá og Eydís rennandi blautar eftir allan ölduganginn en þetta var mjög gaman og frískandi. Fyrir utan að enginn hafði haft vit á að bera á sig sólarvörn fyrir gönguna og brakar því í sumum eftir daginn. Annars er það að frétta af Mrs. Mosquito að það er víst eitrað grimmt fyrir þeim hér í Daytona þannig að sennilega/vonandi eigum við ekki von á mörgum bitum héðan í frá, annars er aldrei að vita þegar við eigum í hlut. Ótrúlegt að segja frá því að Eiður hefur haft vinninginn í bitum, það er greinilega verið að vinna upp glataðan tíma, það mætti því kalla hann þúsundbita kónginn, en auðvitað þorir enginn að segja það upphátt.

Húsið sem við erum í er mjög spes, það hefur að geyma kínverskt herbergi, garðherbergi, (rúmið er með himnasæng) risastórt svítubaðherbergi, (okkar STÓRA baðherbergi er kústaskápur miðað við það), það er pool-borð í stofunni, eldhúsið hefur tvo ofna og örbylgjuofn, 4 klósett eru í húsinu, óteljandi stólar og borð. Mög auðvelt að halda 60 manna fermingarveislu hérna án þess að fá lánað borð og stóla. Garðurinn er risastór, en er eiginlega tómur, gras og örfáir pálmatrésræflar. Ég held samt að framkvæmdir á lóðinni standi fyrir dyrum, þetta er því líkara safni heldur en heimili og við erum svolítið stressuð út af því, krakkarnir gætu brotið eitthvað. Mr Palmer dómari og frú segja okkur að hafa ekki áhyggjur því að þetta séu bara hlutir Smile Á morgun stendur til að fara til Kennedy Space Center.

Sama dag og við komum til USA (fyrir viku síðan) var verið að skjóta á loft geimfari og nú er verið að reyna að ná þeim heim aftur, en eitthvað hefur það dregist, við erum því að pæla að tékka á þessu á morgun og kippa málunum í lag. Wink

Við biðjum að heilsa í bili, það er víst þjóðhátíð og handbolti (vonandi beint á netinu) á morgun, segjum bara góða skemmtun.

Fyrir hönd Fögrubrekku gengisins

kveðja frá Florída,

Iris

PS: það er rosalega gaman að lesa gestabókina, endilega skrifið meira Smile

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband