20.8.2015 | 04:42
San Francisco, rappmamma, Brooklyn og brúðkaupsafmæli.
Fjölskyldan er komin til Brooklyn í New York. Mikið er þetta nú dásamlegur staður, allt bara algjörlega yndislegt. Við erum í frábæru húsi, þriggja hæða mjóu húsi, (Townhouse), hátt til lofts, frábært eldhús og garður. Dýralífið er í blóma, kötturinn Esme beið okkar (að knúsa og klappa lifandi loðnu dýri er eitthvað sem við höfum virkilega saknað að heiman), íkornar hlaupandi á girðingunni í kringum garðinni ásamt forvitnum þvottabirni sem við hittum í gærkveldi. Svo er hér einnig dýrategund sem lifir góðu lífi og er ekki eins velkomin, þ.e. frú Moskító. Hún virðist ekki vera eins algeng á vesturströnd BNA, a.m.k. höfum við lítið orðið vör við hana fram að þessu, en hér á austurströndinni virðist hún lifa góðu lífi og vera í fantaformi. Eins og oft áður er Eiður minn í eldhúsinu eitthvað að fást við mat, en frúin situr við eldhúsborðið og skrifar þessar línur. Byrjum nú frá því er síðast var horfið.
Þegar við kvöddum Ashland vorum við á leið til Willows í Kaliforníu. Sá bær reyndist vera frekar lítill klassískur BNA bær. Hlutverk hans í ferðalaginu var nú bara hugsaður sem viðkomustaður á löngu ferðalagi frá A (Ashland) til B (San Francisco). Við hótelið var sundlaug sem við nýttum okkur aðeins. Að öðru leyti mun nú líklegast lítið standa upp úr nema að þarna gistu slökkviliðsmenn sem unnu við að ráða niðurlögum skógareldanna sem voru ekki langt undan og einnig það að við urðum aðeins vör við frú Moskító.
Daginn eftir var ferðinni heitið til San Francisco. Þar sem borgin er fimmta dýrasta borg í heimi, að okkur skilst, var gist í öðrum bæ sem er rétt fyrir utan San Francisco, Almeda. Reglulegar almenningssamgöngur ganga á milli bæjarins og San Francisco, bæði lest og bátur og var því lítið mál að fara þarna á milli. Við höfðum tvo daga til að skoða San Francisco sem við nýttum okkur til fullnustu. Við byrjuðum fyrsta daginn á að fara í Kínahverfið sem er mjög þekkt hverfi. Einnig fengum við okkur far með sporvagni upp brekkurnar (við erum sko að tala um mjög brattar brekkur) og fórum að Fisherman´s Wharf sem er hafnarhverfi borgarinnar.
Borgin er mjög skemmtileg, mjög lífleg og mikil stemning það væri því frábært að koma þarna aftur síðar. Seinna kvöldið í San Francisco áttum við Eydís miða á Nicki Minaj tónleika sem voru haldnir í Concord Pavillion í um klukkutíma akstursfjarlægð frá San Francisco. Restin af fjölskyldunni skutlaði okkur mæðgum á staðinn og fór í bíó á meðan við horfðum á frábæra tónleika með New York/Trinidad rapparanum geðþekka (NB. ég var ekki elst á tónleikunum).
Daginn eftir, eldsnemma, var förinni heitið til New York, sex tíma flug með millilendingu og 1 ½ tíma bið í Chicago. Ferðalagið var langt en gekk mjög vel og við vorum komin í Brooklyn húsið seinni part sl. laugardags. Eins og áður segir beið okkar þessi yndislega kisa sem heitir Esme og þetta líka frábæra New York hús. Hér höfum við haft það alveg dásamlegt undanfarna daga. Hverfið er alveg ofsalega líflegt, veitingastaðir og verslanir á hverju horni í bland við íbúðarhús með oft á tíðum skrautlega íbúa, bara eins og í Woody Allen bíómynd. Hér er hins vegar mjög heitt og rakt enda hefur maður s.s. oft heyrt í bíómyndum að New York sé nánast óbærileg á sumrin vegna hita og raka. Hér eru moskító flugurnar líka frekar árásargjarnar sem fjölskyldan hefur nú aðeins fengið að kynnast.
Fyrsti dagurinn hér í Brooklyn fór að mestu í afslöppun er frá er talið að annar leikur Arsenal á tímabilinu á móti Crystal Palace átti að fara fram kl. 8:30 að New York tíma. Þar sem ekki er hægt að horfa á slíkar gersemar í sjónvarpinu á heimilinu þá verður maður bara að aðlagast. Undirrituð var því búin að spotta út fótboltabar í nágrenninu sem opnaði nógu snemma til hægt væri að horfa á leiki sem sýndir eru á svona ókristilegum tíma. Dagurinn var því tekinn frekar snemma og undirrituð og gráa viðhengið röltu hálftíma gang á pöbbinn sem reyndist svo vera algjört Arsenal vígi, Arsenal fánar og læti, fullur af fólki klæddum í Arsenal peysum frá ýmsum tímum og viðkunnanlegur eigandi í Arsenal peysu. Undirrituð var sko ekki eini kvenmaðurinn á svæðinu heldur voru þarna nokkrar stelpur og þetta reyndist hin besta skemmtun. Þarna lifði fólk sig svo sannarlega inn í leikinn með hrópum og köllum. Eftir leikinn, þegar heim var komið, voru börnin vakin og í morgunmat voru beyglur, New York Style, sem eigendur hússins höfðu skilið eftir sig. Mismunandi beyglur voru hitaðar í ofni og borðaðar með rjómaosti. Þetta á að vera mjög New York-legt og ekki urðum við fyrir vonbrigðum því þetta er svooo gott á bragðið.
Á mánudaginn var stefnan tekin á Manhattan en aðeins tekur um 20 mín að ferðast þangað með lestinni. Þar var byrjað á að rölta um Chinatown og Little Italy en síðan var stefnan tekin á High Line sem er alveg frábær göngugata, ef hægt er að orða hlutina þannig. Um er að ræða lestarspor sem liggja yfir borginni og voru notuð til að flytja aðföng á aðal matarmarkað Manhattan hér áður fyrr en voru aflögð árið 1980. Brautarteinarnir voru í algjörri niðurníðslu í nokkur ár þar til einhverjir fengu þá snilldarhugmynd að gera þarna göngusvæði sem hefur heppnast alveg frábærlega.
Um kvöldið fór gamla settið á hafnaboltaleik í glæpahverfinu The Bronx, hvar New York Yankees og Minnesota Twins háðu kappi langtímum saman. Það var afskaplega skemmtileg, en um leið, afskaplega löng upplifun. Stemningin æðisleg og líka yfirgengilega amerísk þar sem í einu af óteljandi leikhléum var dreginn fram aldraður hermaður, honum í hælt í hástert, allir gestir og leikmenn dregnir á fætur ásamt því að fáninn blakti við hún. Og þá brustu allir í söng, leikmenn og áhorfendur - og góluðu slagarann GOD BLESS AMERICA. Í miðjum leik! Stórundarleg afleiðing 9/11 að okkur skilst.
Í gær rann upp brúðkaupsafmælisdagur okkar hjóna. Dagurinn hófst á amerískum bröns þ.e. pönnukökum með sírópi og smjöri, eggjum og beikoni. Eftir það var ferðinni heitið í Downtown Brooklyn þar sem kíkt var í nokkrar búðir eins og H&M og fleiri. Um kvöldið fórum við hjónakornin út að borða í nágrenninu á því miður ekki nógu góðan stað. Búið er því að ákveða að taka annan í brúðkaupsafmæli á betri stað áður en haldið verður heim á leið. Kvöldið skyldi því miður líka eftir sig fjölmörg bit á hinum ólíklegustu stöðum á hjónakornunum.
Í dag var tekið smá Brooklyn þema. Deginum var s.s. eytt í að ganga um Prospect Park sem er risastór garður (samt bara 1/10 hluti af Central Park). Í honum er Brooklyn Zoo sem er lítill dýragarður sem við heimsóttum og var bara mjög skemmtilegur. Á eftir var ferðinni heitið í bestu ísbúð New York borgar (að sögn Brooklyn búa) áður er ferðinni var heitið heim í húsið. Á morgun er stefnan tekin á outlet ferð í New Jersey þar sem verður væntanlega sjoppað út í eitt.
Meira síðar ..
Kveðja út hitanum og rakanum í New York.
Íris og co.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.