Úr ofninum í eldinn

Fjölskyldan er mætt til Ashland sem er lítil sætur bær alveg syðst í Oregon fylki. Fyrsti heili dagurinn er að kveldi kominn og ég sit út í garði að skrifa þessa færslu og Eiður er staddur, þar sem honum ber, þ.e.a.s við eldavélinawink. Í matinn er líbanskur kjúklinga- og grænmetisréttur.  

wildfireFjölskyldan er hér við heldur óvenjulegar aðstæður því hér í Oregon og norður Kaliforníu geysa töluverðir skógareldar og er fjölskyldan að fá smá nasasjón af þeim í orðsins fyllstu merkingu. Brunalyktin hangir yfir bænum og þegar við komum hingað seinni partinn í gær var skyggni lítið sem ekkert vegna reyks. Það er s.s. ekki öskuský sem hangið yfir okkur hér í Oregon, eins og við höfum upplifað heima á Íslandi, heldur reykský. Reykurinn veldur sviða í augum og hálsi og er frekar óhollur til innöndunar. Mörg þúsund slökkviliðsmenn eru að berjast við skógareldana sem hafa kviknað á nokkrum dögum. Ástæða þeirra er okkur ókunn en ég sá á vefsíðu í dag að búist er við þrumum og eldingum í austur Oregon og þá er mikil hætta á íkveikju þar sem eldingu getur slegið niður í þurran gróðurinn þ.e.a.s. þar sem rigning fylgir ekki þrumuveðrinu. Dagurinn í dag var þó örlítið skárri en í gærdagurinn og við höfum meira getað verið úti við í dag og skoðað umhverfið heldur en í gær. Vonandi verða vindáttirnar okkur hagstæðar næstu daga þannig að við getum notið betur þeirrar fallegu náttúru sem hér er að finna.

P1000870Síðustu dagar hafa verið mjög „bissí“. Þegar við yfirgáfum yndislega húsið í LA tók við hin ljósum prýdda borg Las Vegas. Bílferðin til borgarinnar tók um 4 klukkutíma og voru nokkur stopp tekin á leiðinni m.a. í hamborgara á Arbys, sem bættist þar með við hamborgaralistann. Einnig var stoppað í mjög skemmtilegri geimverubúð og nokkrum minjagripum bættum í safnið. Svæðið þar sem búðina var að finna er við Area 51 sem er mjög þekkt geimverumóttökustöð hér í BNA. Klikkaður hiti mætti okkur svo í Las Vegas, þar var hitinn 105 (41 á selsíus) sem þykir reyndar frekar lítið að sögn leigubílstjóra sem ég hitti, eðlilegt hitastig er 110-115 í ágúst. Okkur rauðnefjuðu Íslendingunum fannst þetta hins vegar alveg nóg og fjölskyldan datt í hægt tempó þann tíma sem hún dvaldi í borginni. Í Las Vegas gistum við á íbúðahóteli sem var staðsett aðeins í burtu frá aðalgötunni „The Strip“.

11816105_10205987415782619_4013881121267879394_oÁ móti kom að hótelið og íbúðin sem við gistum í var mjög vel búið. Flottar sundlaugar, garðsvæði, líkamsræktaraðstaða og það sem hitti beint í mark við komuna á hótelið var Margarita Mondays. Sú uppákoma er aðeins á mánudögum, eins og nafnið gefur til kynna, milli kl. 17 og 18. Við komum því rétt tímanlega til þess að miðaldra lögfræðingurinn, sem getur þefað uppi frítt áfengi í boði, gæti skroppið í margarítu og tortillasnakk ásamt sterkri salsasósu, algjörlega í boði hótelsins. Síðar um kvöldið var hótelskutlan tekin á „strippið“ og það mælt út ásamt því að farið var út að borða á mjög góðum ítölskum stað.

P1000898

Daginn eftir voru nokkur sundtök tekin á sundlaugabakka einnar sundlaugar hótelsins ásamt því að sólbekkirnir voru mátaðir mjög ítarlega. Um kvöldið var rölt á nálægan veitingastað og á meðan beðið var eftir borði var spilavítið skoðað. Þar var farið í spilakassa (eins og í bíómyndunum) og heildartap fjölskyldunnar eftir kvöldið taldist ca. 1 dollari enda voru mjög lágar upphæðir lagðar undir. Eftir þetta var stefnan tekin á „strippið“ á ný og endapunktur kvöldsins var síðan tekinn í KISS-minigolfinu, gráhærða fjölskyldumeðliminum til mikillar gleði.

 

20150805_175541Næsta dag var stefnan tekin á flugvöllin í Las Vegas þar sem flogið var til Portland í Oregon. Í Portland var hitastigið ekki nema um 24 gráður á selsíus og nýttu rauðnefjuðu Íslendingarnir sér það til fullnustu. Eftir tékk inn á hótel var stefnan tekin á miðbæ Portland sem er alveg dásamleg borg. Oregon er þekkt fyrir mikla bjórframleiðslu og einnig vínframleiðslu. Við fullorðna fólkið þefuðum uppi, að sjálfsögðu, brugghús þar sem hægt var að smakka á framleiðslunni sem var, vægt til orða tekið, mjög góð. Einnig var litið við í stærstu bókabúð BNA sem er ekkert smá stór og flott. Þar var aðeins verslað áður en stefnan var tekin heim á hótel.

Daginn þar á eftir var ferðinni heitið á bílaleigubíl til Ashland en það ferðalag tók u.þ.b. fjóra klukkutíma. Eins og að framan segir tók á móti okkur reykur og lítið skyggni en einnig yndisleg eldri hjón sem ætla að lána okkur húsið sitt næstu sex daga hér í Ashland (sem er sennilega réttnefni). Þau eru nýkomin heim frá Íslandi, m.a. gistu þau í húsinu okkar í nokkra daga en einnig keyrðu þau hringveginn. Þau eru alsæl með ferðina og langar að fara aftur til Íslands, að sjálfsögðu J

Hér ætlum við litla fimm manna fjölskyldan að vera í sex daga, vonandi munum við sjá út úr reykmekkinum næstu daga og hafa tækifæri til að skoða þetta fallega svæði áður en stefnan verður tekin á San Francisco og síðan til Brooklyn í New York borg. Meira síðar….

Reykmettuð kveðja frá Ashland í Oregon,

Íris og Co.             


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ öll gaman að fylgjast með ykkur hér :) Við sendum okkar bestu kveðjur úr 7 stiga hitanum í Reykjavík :) 

Guðrún Pétursdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2015 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband