Gull, brons og Las Vegas í Mini-van

Þá eru Special Olympics leikarnir að baki og fjölskyldan búin að fá fimleikasnillinginn í hendur. Hefst þá næsti hluti ferðalagsins sem er ferð til eyðimerkurborgarinnar Las Vegas. Þar ætlar fjölskyldan að láta ljós sitt skína í tvær nætur, kíkja í spilavítin og skoða mannlífið. Þar er víst 40 stiga hiti þannig að kannski bráðnum við bara. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er farartæki fjölskyldunnar til Vegas Mini-van eða strumpastrætó eins og margir kalla slíka bíla. Ferðalagið frá LA til Las Vegas tekur u.þ.b. 5 klukkutíma og landslagið er þannig að auðvelt er að láta sér líða eins og persónu í amerískri bíómynd með því að sitja í bíl á hraðbraut í steikjandi hita, og þá erum við að tala um 110 á Fahrenheit, með U2 og Aerosmith í útvarpinu og útsýni sem er ekkert nema eyðimörk og Joshua tré.

P1000852

Dvöl fjölskyldunnar í LA var mjög skemmtileg. Við vorum búin að heyra að LA væri frekar óspennandi borg en upplifun okkar er á annan veg, eftir að hafa varið þar síðustu 10 dögum. LA er mjög víðfem borg og þ.a.l. mjög fjölbreytt. Margt að sjá og margt hægt að gera til afþreyingar. Ekki skemmir fyrir að við gistum í svo flottu húsi með allar aðstæður eins og best verður á kosið. Takk Atli, Anna, Hildur Svava og Arnar smile

Frá því að síðast var skrifað þá hefur Birkir lokið keppni í fimleikunum. Um tveggja daga keppni var að ræða og skiptust dagarnir annars vegar í flokkun og hins vegar í aðalkeppni. Flokkun fór fram á föstudaginn sl. en hún gilti 25% af heildareinkunn keppenda. Á laugardaginn sl. fór síðan fram aðalkeppni. Birkir stóð sig frábærlega báða dagana, gerði allar æfingar fullkomlega ef frá er talið að hann gleymdi smá snúningi seinni daginn á gólfinu, en það gerist nánast aldrei að hann gleymi að gera hluta af æfingu. Stökkin hjá honum voru nánast fullkomin t.d. fékk hann 19.2 af 20.0 mögulegum fyrir stökk fyrri daginn og 19.0 síðari daginn. Einnig stóð hann sig frábærlega í hringjunum og á tvíslánni.  

P1000758

Þegar kemur að því að raða í sæti þá er Special Olympics kerfið svolítið sérstakt, okkur hefur verið sagt að þríhyrningurinn sé í reynd öfugur í Special Olympics ef hægt sé að orða það þannig. Í hefðbundinni keppni er einn á toppnum í þríhyrningnum og svo fjölgar þeim eftir því sem neðar kemur. Þessu er öfugt farið í Special Olympics. Einnig er það svo að ef keppanda gengur mjög vel þá er hann oft færðir upp um flokk sem í eru minna fatlaðir eða getumeiri einstaklingar. Af því að Birki gekk vel í æfingunum þá lenti hann því miður svolítið oft í þannig aðstæðum, hann var flokkaður með einstaklingum sem voru minna fatlaðir en hann. Hann lenti t.d. tvisvar í því að vera í flokki með sterkum keppanda frá Kína sem ekki var hægt að sjá að nokkuð væri að. Við erum óskaplega stolt af okkar manni og hann er mjög sáttur við sitt framlag.

P1000804Eftir seinni keppnisdaginn fengum við Birki með okkur heim í sólarhring og þá var ákveðið að fara á ströndina. Stefnan var fyrst tekin í Family center sem er á UCLA svæðinu. Þar hittum við stórmerkilegan mann sem var þar staddur með foreldrum sínum. Um er að ræða einn af 13 velgjörðarsendiherrum Special Olympics; David Egan, 37 ára gamlan mann með Downs heilkenni. Við vorum búin að taka eftir þessum manni áður þar sem hann hafði verið einn af ræðumönnum kvöldsins í pikknikkinu í boði Maju S fyrr í vikunni. Hann hélt þar mjög eftirminnilega ræðu. Hann og foreldrar hans sögðu okkur sögu David en í dag starfar David á Capitol Hill í Washington DC sem lobbíisti fyrir Down syndrome samtökin í BNA. Hann er ótrúlega skýr og flottur maður og foreldrar hans eru einnig yndisleg. Við fengum að sjálfsögðu að smella mynd af Birki og David saman - sjá myndina hér að ofan. Eftir þetta var ferðinni heitið í Target þar sem kaupa varð bikiní á yngsta fjölskyldumeðliminn. Birkir spígsporaði því um Target í gallanum með allar medalíurnar um hálsinn og vakti hann þvílíka athygli og lukku. Hann var eins og rokkstjarna, fólk var stöðugt að stoppa hann og óska honum til hamingju með afrekin. Meira segja stoppaði ein kona hann til að fá að taka selfie með honum.

P1000680Á ströndinni áttum við dásamlegan tíma en ströndin er risastór og sá hluti strandarinnar sem við vorum á var mjög hreinn og fínn. Öldurnar voru passlega stórar þannig að auðvelt var að láta þær henda sér á kaf. Stelpunum fannst svo gaman að þær voru bókstaflega út í sjó allan tímann og Birki fannst einnig mjög gaman þó að ekki tæki hann sjósundið eins langt og systurnar. Í gærmorgun var Birki skilað á campusinn til Evu og Sigurlínar og stefnan var auðvitað aftur tekin á ströndina enda óvíst hvort að við komumst nokkuð aftur á strönd í ferðinni. Í gærkveldi fór síðan fram lokahátíð leikanna. Eins og opnunarhátíðin fór hún fram á Los Angeles Memorial Colesium. Eftir hátíðina fengum við Birki endanlega í okkar hendur. Á leiðinni heim var komið við á Fatburger sem er svona hollari hamborgarastaður. Það er því bæði búið að prófa hamborgarana á In N Out og Fatburger en ferðirnar á hamborgarastaði eiga nú sjálfsagt eftir að verða fleiri.

Meira síðar.....

Íris & Co   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband