21.7.2014 | 22:18
Martinique
Nú erum við Eiður komin til frönsku eyjunnar Martinique í Karíbahafinu og hér ætlum við að eyða næstu tíu dögum. Sunnar á jarðkringluna höfum við ekki áður komið en Martinique er á 14. breiddargráðu. Önnur lönd í svipaðri fjarlægð frá miðbaugi eru til dæmis Senegal, syðsti oddi Indlands og Filipseyjar. Um er að ræða heimilisskipti við hjón sem hér búa en við erum aðeins tvö í þetta skiptið, Birkir, Eydís og Diljá voru skilin eftir heima á Íslandi undir eftirliti ammanna.
Undanförnum þremur vikum hefur undirrituð eytt á grísku eyjunni Ródos við nám í hafrétti sem var mjög skemmtilegur tími. Eldsnemma á laugardagsmorguninn síðasta flaug ég til Parísar í gegnum Aþenu. Við Eiður hittumst á flugvellinum í París og eftir endalausar biðraðir náðum við loksins að koma okkur fyrir í flugvélinni. Þetta var langt ferðalag, 9 tíma flug frá París með Air Caraibes, frekar þröng sæti og því erfitt að láta fara vel um sig. Þegar við komum á áfangastað var komið myrkur. Við tókum leigubíl frá flugvellinum en þegar við komum í litla bæinn okkar, sem er hinum megin á eyjunni, þekkti leigubílstjórinn ekki heimilisfangið og vissi því ekkert hvert hann átti að fara með okkur. Við vorum búin að sjá myndir af húsinu og gátum því staðsett það út frá kennileitum og upplýsingum sem Martinique fólkið hafði gefið okkur þó að við vissum ekki hvaða gata myndi leiða okkur að húsinu. Við kvöddum því leigubílstjórann á aðalgötu bæjarins og ákváðum að reyna að finna veginn upp að húsinu frekar gangandi heldur en að láta bílstjórann leita í myrkrinu með mælinn í gangi. Húsið er í gríðarlega miklum halla sem býður upp á frábært útsýni en það tekur líka á að draga þungar ferðatöskur upp brekkuna í þessum hita. Við ákváðum því að safna kröftum áður en við hæfum leitina með því að fá okkur pizzu og rauðvín á veitingastað sem stendur við aðalgötuna. Eftir það var lítið mál að finna húsið og komum við því í húsið vel sveitt eftir töskudráttinn. Þegar undirrituð fór loksins að sofa var hún búin að vaka í 26 klst., eyða 13 klst. um borð í þremur flugvélum og fljúga í gegnum sjö tímabelti.
Fyrsti dagurinn, þ.e. gærdagurinn, fór í að koma sér fyrir og kanna umhverfið. Við búum í litlum bæ á á Caravelle skaga. Bærinn heitir Tartane og er ósköp lítill og sætur. Við versluðum í matinn en þær búðir sem við fundum voru ekki með mjög merkilegt úrval. Okkur tókst þó að finna frosna önd til að hafa í kvöldmatinn. Farið verður í betri matvöruverslun í dag. Eftir búðarferðina fórum við á dásamlega strönd hérna rétt hjá þar sem saman kom hvítur skeljasandur, pálmatré og heitur sjór, alveg eins og maður ímyndar sér Karíbahafið. Eftir að hafa eytt klukkutíma á ströndinni og í sjónum fundum við skemmtilega gönguleið sem við löbbuðum. Restinni af deginum var síðan eytt í rólegheitum. Ekki veitir af til að venjast hitanum en hann er mjög mikill.
Húsið sem við erum í er með mjög stórar svalir sem eru í raun framlenging á íbúðinni. Á svölunum er stofan og borðstofan. Fólk býr því að hluta til úti allan ársins hring. Garðurinn er fullur af fallegum trjám og runnum sem eru í blóma m.a. bananatré og papayatré. Dýralífið er líka mjög fjölbreytt, litlar krúttlegar eðlur, dásamlegir kólibrífuglar og ekki eins dásamleg skordýr.
Tímaskynið hjá undirritaðri er í algjöru rugli. Ég vaknaði klukkan fimm í morgun, við sólarupprás og ákvað að nota tímann, á meðan ég bíð eftir að betri helmingurinn vakni, í að skrifa þessar línur. Ég sit því núna í stofunni með útsýni út á hafið og hlusta á fuglasönginn, dásamlegt. Stefnt er á að eyða tímanum hér í skoðunarferðir um eyjuna, gönguferðir og mögulega einnig bátsferðir. Við munum vonandi geta gefið okkur tíma til að setja hér inn nokkrar færslur og myndir af því sem fyrir augu ber.
Bless í bili
Íris
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hæ elskurnar
Takk fyrir pistilinn Iris, frábær penni stóra stelpan mín og glæsileg uppsetning mynda og texta J.
Nú erum við að leggja upp í norðurleiðangurinn í fyrramálið, reyna að fara snemma af stað svo við náum góða veðrinu fyrir norðan áður en það haustar líka þar!!!!
Við Eydís fórum í Trönuhjallann þegar ég keyrði hana í vinnuna í dag, tókum Diljá með okkur í Smáralindina, fundum fyrirtaks myndabók á frönsku fyrir Fögrubrekkugestina Diljá ætlaði svo að græja miða og skrifa á hann til þeirra, Eydís ætlar að gista þar í nótt, ég hleð bílinn svo í fyrramálið, skila Birki í Trönuhjallann og tek þær systur með. Ester, Halli og Emma fóru í morgun, heyrði í þeim á Blönduósi e.hád. og allt gekk vel, var verið að fóðra Emmu, en henna fer stórvel fram þessa dagana, hægt að fylgjast með á Fb.
Ég hafði dálitlar áhyggjur af Diljá vegna slyssins á hjólinu, en hún er bara hress að vísu plástruð og eitthvað marin, en hlakkar til að koma með okkur norður, ég ætla að gefa þeim frí frá mér og leyfa þeim að spóka sig í friði á Akureyri á föstudeginum ég held að þær verði lukkulegar með það elskurnar.
Ég fór með Eydísi í skóleiðangur og við fundum þessa fínu Ecco-skó á útsölu, þeir eru mjög svo gæðalegir, virðast vera nógu breiðir fyrir hana, ég vona að þeir endist henni vel.
Birkir fór með strætó í Grafarvogslaugina í dag, það tók mestallan daginn hjá honum blessuðum, eitthvað er hann að tala um að fara í Álftaneslaugina, það gæti tekið allt að því heilan dag líka!!! en það hentar honum blessuðum.
Gott að þið njótið lífsins á þessari dásamlegu eyju, en gekk ekki andskotalaust að komast á leiðarenda, alla vega kostaði það mikinn svita, það skil ég J svo þetta stórkostlega útsýni.
Hlakka til að sjá næsta pistil…
Knús og kveðja
mamma
Aðalbjörg Karlsdóttir (IP-tala skráð) 23.7.2014 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.