26.7.2012 | 20:37
Myllubærinn í Frans
Þá erum við enn einu sinni farin á ferðina. Að sjálfsögðu urðu heimilisskipti í Frans fyrir valinu og þau ekki af verri endanum. Hálfur mánuður í Búrgúndý héraði, matar- og vínkistu Frakklands þaðan sem Pinot Noir þrúgan er upprunnin og Pouilly Fussy hvítvín er á heimaslóðum. Ekki er húsnæðið af verri endanum. Næsta hálfa mánuði ætlum við að eyða í 200 ára gamalli vatnsmyllu með ábyrgð á búfénaði staðarins.
Búfénaður staðarins samanstendur af tveimur kindum (með hala), nokkrum geitum, hænum, kanínum og svo öndum. Ein andarfrúin eignaðist í gær nokkur andarbörn, ein 16 stykki sem var strax hent út í djúpu laugina þ.e. litlu greyin voru varla komin í heiminn þegar þau voru teymd niður að ánni og látin reyna á sundhæfileikana. Ekki eru allar dýrategundirnar upptaldar þar sem á heimilinu eru líka einn köttur, níu ára Havana brown oriental sem heitir Che og hundur sem er blanda af giant poodle og Labrador og heitir Diego.
Það sem er ólíkt með þessari ferð og öðrum sem við höfum farið í er að Birkir er ekki með okkur. Birkir segist vera búinn að fá nóg af ferðalögum erlendis og sagði nei takk þegar fjölskyldan ákvað á síðustu stundu að breyta áætlunum sínum um að vera heima eitt sumar. Í staðinn fyrir Birki var því ákveðið að bjóða ömmum og systrum með í ferðina sem þær þáðu allar að sjálfsögðu. Birkir ætlar að eyða viku með afa sínum í Vestmannaeyjum. Arnar afi og Guðrún konan hans ætla síðan að koma hingað til Frans og þá mun Birkir eyða viku með ömmum sínum þegar þær fara heim frá Frans.
Ferðin hófst eldsnemma laugardagsmorgunn síðasta með óbeinu flugi til Lyon með fjólubláa flugfélaginu Wow. Upphaflega átti þetta að verða þægilegt beint flug sem færi fram á kristilegum tíma þ.e. kl. 17. Að sjálfsögðu tókst nýja spútnik félaginu að færa flugið að íslenskum veruleika með því að færa flugtímann fram til kl. 6:30 að morgni og að sameina það Basel flugi sem þýddi tveggja tíma bið inn í flugvélinni á Basel án þess að vera boðið upp á vott né þurrt eins og t.d. vatn þrátt fyrir loforð um annað. Þetta blogg á ekki að verða reiðilestur yfir lélegri þjónustu flugrekenda og því verður settur punktur við þess ræðu hér og nú.
Fyrstu tvær næturnar deildum við húsinu með Isabel (sem er húsráðandi hér í myllunni), Havana (7 ára dóttir hennar) og Jill (tengdamóðir hennar frá Nýja Sjálandi). Þær settu okkur vel inn í búskapinn, sýndu okkur aðeins umhverfið og fóru með okkur á frábæran veitingastað í hádeginu. Snemma á mánudagsmorgunn skutlaði Eiður húsráðendum á lestarstöðina þar sem þær hoppuðu upp í lest til Parísar og síðan var ferðinni heitið með flugvél til Íslands. Hinir nýju húsráðendur fóru á markaðinn Louhans þar sem gerð voru góð kaup, í töskum, hunangi, víni og Bresse kjúklingi (sjá mynd). Kjúklingurinn var notaður í Coq au vin um kvöldið. Meðlætið var ekki af verri endanum hvítlaukskartöflumús og Ratatouille. Að sjálfsögðu var þessu skolað niður með eðal vínum frá héraðinu.
Á þriðjudeginum var ferðinni heitið í H&M, en ekki hvað? Með nýjustu tækni þ.e. H&M appi var auðvelt að finna út hvar næsta H&M búð er. Að komast þangað reyndist nú ákveðinn höfuðverkur þar sem í ljós kom að þetta nýja fína app frá HM og heimasíða HM var ekki með heimilisfangið rétt. Allt hafðist þetta nú að lokum sem má þakka áralangri reynslu fjölskyldumeðlima í að koma sér í og úr vandræðum. Þegar á staðinn var komið reyndist HM búðin vera hin þokkalegasta og staðsett í stórum verslunarkjarna með mörgum öðrum búðum m.a. græjubúðum. Meðan kvenpeningurinn fann sig og buddunni sinni stað í HM ákvað eini karlpeningur hópsins að eyða tíma í græjubúð. Hún reyndist síðan ekki tímans virði þar sem skortur var á alvöru græjum í búðinni og því var næsta skemmtilegast iðjan tekin upp en hún er að versla í matinn.
Það er hreint yndislegt að vafra um, skoða og kaupa í stórum matvöruverslunum hér í Frakklandi þar sem allt er til. Um kvöldið var leitað í smiðju Yesmine Olsson og lambi á fyrsta farrými var hent í pottinn og með því var höfð mjög sterk raita og hrísgrjón. Að sjálfsögðu var þessu skolað niður með guðaveigum ættuðum frá Frans. Í gær ákvað hluti af hópnum að setja smá vinnu í tanið (brúnkuna) en hinn hlutinn ákvað að gerast menningarlegur og fara til tveggja bæja sem hafa klaustur á sínum snærum. Eftir mjög sveittan tíma í loftkælingalausum bíl sameinaðist menningarhlutinn brúnku hlutanum sem hafði tanað sig í drasl. Sest var út á pallinn og smakkað á frönskum ostum áður en afgöngum var hent á pönnuna og þeim rennt niður með rauðu og hvítu eftir smekk.
Í dag var undirrituð orðin voða kvefuð þannig að hún ákvað að halda sig heima en restin af hópnum fór í hellaskoðunaferð sem reyndist dásamleg þar sem aðeins var 11 stiga hiti í hellunum. Dagurinn var einstaklega heitur og þegar þetta er skrifað er 28 stiga hiti á pallinum og klukkan orðin 10 að kveldi. Spáin segir 35 stig fyrir kvöldið og nóttina og því má búast við að mikið verði svitnað hér á myllubænum í kvöld og í nótt. Kvöldmaturinn var mjög heimalagaður þar sem mikil framleiðsla hefur verið hjá hænum staðarins upp á síðkastið og því nóg til í eggjaköku. Einnig fullt af baunum, tómötum og kúrbít. Ömmurnar tóku að sér eldamennsku kvöldsins og öllum þessum fínu afurðum var skellt í eggjakökuna og restin af Bresse kjúklingnum var grillaður og hafður með. Þessu var skolað niður með fínum frönskum drykkjum og síðan var frönsk sítrónubaka með stóru s-i, ostar og ákvextir í eftirrétt. En nóg í bili hér frá myllubænum í Frans.
Kveðja Íris og co.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 27.7.2012 kl. 19:55 | Facebook
Athugasemdir
VÁ en yndislegt.Þetta er draumur sem ég vildi fá að upplifa.Hafið það sem allra best og við Kalli sendum okkar bestu kveðjur:)
Hafdís öfundsjúka:) (IP-tala skráð) 27.7.2012 kl. 21:23
Elskurnar í Frans, takk fyrir yndislegan vikutíma - ekki ofsögum sagt að dvölin var dásamleg bæði innanhúss í mat/drykk og ekki síður með húsdýrunum, ég naut þess í botn að fylgjast með fiðurfénu (sveitalarfurinn Aðalbjörg kom sterkur inn), geitum, og heimiliskötturinn Che bræddi hjartað alveg í spað. Við ömmur og Ester náðum fínni lendingu heima Wow stóð sig ágætlega í þetta skiptið, en innritunin í Lyonflugvelli á terminal 3 er afar hægfara svo ekki sé meira sagt....... Ég fæ Birki og ömmu Maju til mín í kvöldmat, verð að sjá nýju gleraugun á pilti, kannski vill hann gista hjá mér í nótt.
Ástarkveðja og farnist ykkur vel við bústörfin
M/amma Aðalbjörg.
Aðalbjörg Karlsdóttir (IP-tala skráð) 29.7.2012 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.