1.7.2011 | 21:32
Santorini
Aldrei þessu vant er það gráhærði bassaleikarinn sem bloggar. Það kom að því... eða hvað. Það er nú óvíst að hann fái að klára óáreittur. Það kemur í ljós í undirskirft bloggsins.
Eftir sex viðburðaríka daga í Aþenu var haldið til Santorini. Íris á sér tvö fyrirheitin lönd; H&M og Santorini. Annað er alls staðar nema á Íslandi en hitt er bara hér. Íslenskar konur þurfa ekki skýringu á ástæðu þess hvers vegna H&M telst fyrirheitna landið (eru ekki hvort eð er bara konur sem lesa þetta blogg?) og í raun þurfa þær ekki á ústkýringu á fyrirheitum Santorini, þegar búið er að nefna hana; Mamma Mia! var kvikmynduð hér. Eða svo hélt Íris. Við rúntuðum nebblega um alla eyjuna í dag á handónýtri Nissan Micra (ljósblárri) og sáum ekki eitt kunnuglegt kennileiti úr meistarverkinu. Kannski þarf maður að vera hvítvínsleginn og í Háskólabíói í huganum til að þekkja kennileitin en altént fundust þau ekki. Við smá gúgglun kom í ljós að myndin var kannski ekkert kvikmynduð hér. Tíhí... :-) Það verður eflaust kannað nánar. Margt fallegt sást samt. Við gengum til dæmis upp að hinni fornu borg Thira sem var byggð fyrir ca 2000 árum uppi á fjallstindi sunnarlega á eyjunni. Micran var ekki mjög hrifin af akstursleiðinni sem var, eðli málsins samkvæmt öll upp í móti og vel brött, hún hóstaði ítrekað en komst þó á leiðarenda.
Þaðan var haldið á "Red Beach". Glöggir lesendur sjá að þetta er ekki grískt heiti. Hvergi á leiðinni sáum við annað en enska heitið á ströndinni. Jæja. Þetta var ansi sérstök strönd. Vestmannaeyingar skilja þegar ég segi að þetta hafi verið blanda af Costa del Klauf, Ræningjatanga, Stafsnesi og Rauðhólum. Mjög fínt. Eftir daginn er ég kominn með áfastan eldrauðan trefil um hálsinn og Íris eitthvað svipað en í öðru formi. Sólbrunnin sem sagt enda mjög nálægt sólinni löngum stundum uppi á fjallinu.
Aðeins um Santorini. Þetta er eyjaklasi á gríska eyjahafinu. Sunnarlega. Heitir opinberlega Thira en gengur undir hinu nafninu Santorini í daglegu tali. Fyrir 3700 árum var þetta ein eyja en hún sprakk í eldgosi og við það myndaðist þessi litli og ofsalega fallegi eyjaklasi. Sjá kortið hér við hliðina. Hann lagðist í eyði í kjölfarið en sumir telja að goðsögnin um Atlantis sé í raun um Santorini. Við sprengigosið myndaðist líka flóðbylgja sem ku kannski hafa kaffært Krít og stútað mannlífinu sem þá var uppi á Krít. Það er óstaðfest. Ég er óvirkur sögu- og landafræðinörd. Hvað um það. Svæðið er fáránlega fallegt.
Og aðeins um Grikki. Maður þarf ekki að biðja um öskubakka hér. Hann er "default". (Mamma og tengdó, hafið ekki áhyggjur - við erum ekki byrjuð að reykja aftur :-). Samt reykja ekkert voðalega margir hér. Grikkir eru kurteisir og hjálplegir. Maturinn er bara voða fínn. Einfaldur, lítið brasaður og pínu íslenskur á köflum. Lambakjötið er amk jafngott og það íslenska. Jógúrt (grísk jógúrt) er æðisleg og grískt salat líka. Við erum að verða ofalin af góðum grískum mat. Raunar erum við komin með nokkra grikkja í fæði. Þrír grískir kettir eru búnir að spotta mótstöðuleysi Írisar þegar kemur að svöngum dýrum og eru komnir í fast fæði hjá henni. Við erum beinlínis búin að kaupa kattamat í hverfisbúðinni og hann er að verða búinn! Enda biðu kettirnir okkar þegar við komum heim úr skoðunarferð dagsins. Og í þessum töluðum (skrifuðum) orðum bættist sá fjórði við. Þeir bera greinilega saman bækur blessaðir.
... Fórum út að borða og nú er gráhærði sestur aftur við að klára bloggið. Maturinn var verulega góður eins og áður. Kartöflur með lauk og ólífum í forrétt og Músaka (Íris) og lamba-Tavas (Eiður). Við gistum í bæ á norðurenda eyjarinnar sem heiri Oía (borið fram Ía) og hann er sjúklega fallegur. Endalaus Kodak móment út um allt. Sigling um nærliggjandi eyjar á morgun, sundsprettur í hitapolli á leiðinni (eitthvað eldfjallaeitthvað) og vínbar um borð. Úff. Maður lætur sig hafa það. Tilneyddur :-)
Eiður (fékk að klára óáreittur að mestu)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir. Skemmtileg lesning. Náði aðeins að fara til Santorini í anda enn ölduniðurinn var samt einhvernveginn yfirgnæfður af kattarmjálmi;) . Hvað karlpening og blogglestur varðar þá var hér lesið upphátt við morgunverðarborðið eins og oft áður.
Fann síðu "filming locations for mamma mia". sem segir hvar helstu atriði myndarinnar voru mynduð ... http://www.imdb.com/title/tt0795421/locations. Santirini er ekki nefndi enn Skophelos og Skiathos eru á listunum. Þetta er nú samt engan veginn áræðanlega heimild og örugglega bara bull;-)
Dagný er hjá mér og við erum á leið í bæinn, endum sennilega í Drammen. Ætla að koma Dagný í lest í lok dagsins svo hún komist á umhverfis/hafrannsóknarráðstefnu sem byrjar í Kristiansand á morgun.
Góða skemtun áfram
Rúna
Rúna (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 08:53
Þessi þörf að gefa köttum að borða er líklega arfgeng þar sem við erum með tvo hérna á nesinum sem við gefum reglulega. Þeim fer reyndar fjölgandi því að annar er í þessum skrifuðu orðum að gjóta og er amk. einn svartur kettlingur kominn í heiminn!!
Alltaf gaman að lesa ferðasögurnar ykkar.
Kveðja
Ingó og Álftanesgengið.
Ingólfur Bjargmundsson (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 11:27
Rúna og fjölsk. Ég held að eyjan Skophelos sé málið þ.e. að Mamma mia hafi verið tekin upp þar. Annars syrgi ég þennan misskilning ekki neitt og finnst bara frábært að hafa ratað hingað á Santorini :)
Ingó og álftanesgengið: æðilslegt að fá að upplifa fæðingu hjá þeim. Nú verðið þið að drífa í ættleiðingum og pillunni :)
kv. Íris
Íris Bjargmundsdóttir, 2.7.2011 kl. 17:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.