Við Eiður erum stödd í Aþenu í Grikkandi (ekki í BNA) í 10 daga til að fylgjast með einkasyninum keppa í fimleikum. Þetta er önnur ferð okkar hjóna á Special Olympics á einu ári en eins og sjá má hér að neðan heimsóttum við Varsjá í Póllandi síðasta haust þar sem Birkir keppti í frjálsum íþróttum á Evrópuleikum Special Olympics. Við hjónin höfum sem sagt breyst í alræmdar grúppíur, þ.e. eltum soninn á milli landa til að horfa á hann keppa - frekar þreytandi foreldrar.
Við mættum þreytt og slæpt til Aþenu föstudagskvöldið síðastliðið og nú er kominn mánudagsmorgunn þannig að bloggið okkar fer nokkuð seint af stað að þessu sinni.
Til þess að byrja á byrjuninni þá lagði Birkir af stað í þennan langa leiðangur aðfaranótt mánudagsins 20. júní ásamt 36 öðrum keppendum auk þjálfara og fararstjóra til Aþenu. Kastljós var mætt á staðinn um morguninn og tók fyrstu skref ferðalagsins upp á filmu og sýndi í sjónvarpinu sama kvöld. Það voru stoltir foreldrar sem horfðu á viðtal við einkasoninn í Kastljósinu. Sem betur fer var búið að fræða hann örlítið um Grikkland sem fólst aðallega í því að sýna honum myndir af rústum, sem honum fannst ekki spennandi. Það varð þó til þess að hann gat svarað spurningu Margrétar Macksómasamlega um hvað væri að sjá í Aþenu :)Sjá hér: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4545126/2011/06/20/1/
Við foreldrarnir lögðum af stað til Aþenu aðfaranótt föstudagsins síðastliðinn. Í sama flugi voru Ósk og Kristján ásamt tveimur börnum sínum en þau eru á sömu leið og við að horfa á son sinn sem heitir Jóhann Fannar keppa í fimleikum. Við hófum ferðalagið á að fljúga næturflug til Parísar þar sem við þurftum að bíða í 6 tíma og er sá tími í móðu. Næst flugum við til Aþenu en í því flugi fengum við heitan mat með hnífapörum sem minnti okkur svolítið á gamla Icelandair, ótrúlegt hvað svona litlir hlutir geta skipt mann miklu máli. Við vorum komin upp á hótel í Aþenu kl. 19 á grískum tíma, gjörsamlega ósofin. Ekki voru þó hjónin til í að leggjast til svefns þegar þangað var komið heldur var drifið í því að fara út að borða og ágætur grískur matur borðaður og með því var drukkið ágætt grískt vín. Sofnað var um miðnætti á grískum tíma (um kl. 21 heima) eftir 38 tíma vöku, hjúkk.
Deginum í fyrradag var eytt í að sækja gögnin okkar í Family center og fara á opnunarhátíð Special Olympics. Að sækja gögnin reyndist þegar uppi var staðið heilmikið ferðalag. Við vorum búin að staðsetja afhendingarstað gagnanna á kort hjá okkur en sá staður reyndist vera í töluverðri fjarlægð frá miðbænum þar sem við gistum. Við skelltum okkur í lestina og fundum á korti heimilisfangið þar sem átti að afhenda gögnin. Til stóð að afhenda þau á Kifissias götu nr. 39 en húsnúmer á götunni þar sem við fórum úr lestinni var Kifissias nr. 295. Við lögðum því að stað enda ómögulegt að vita hversu langt er á milli húsa í fjarlægum borgum. Eftir tæplega klukkutíma göngu, í 36 stiga hita, vorum við að sjá húsnúmer nr. 260 og þá tók minn maður til sinna ráða og ákvað að hóa í leigubíl til að keyra okkur á leiðarenda. Sem betur fer segi ég núna þar sem ferðalagið í leigubílnum tók um 10 mín í viðbót á ógnarökuhraða. Á áfangastað, hjá Family center, fengum við gögnin okkar sem innihéldu m.a. miða á opnunarhátíðina, passa sem gefur okkur aðgang inn á keppnissvæðin, ókeypis í allar lestir og strætó og inn á söfn. Einnig fengum við afsláttarmiða í hinar ýmsu verslanir, sem mun nýtast vel, og grískt símakort.
Um kvöldið var svo haldið á opnunarhátíð Special Olympics sem fram fór á Kallimarmaro Panathinaiko Stadiums íþróttavellinum, elsta íþróttaleikvangi heims. Það væri örugglega mjög gaman að fara á fótboltaleik þar. Grikkir höfðu skipulagt mjög flotta opnunarhátíð þar sem við m.a. horfðum á öll keppnisliðin á leikunum, sem eru frá 180 löndum, ganga inn (tók tæplega tvo tíma). Nokkrir þekktir einstaklingar tóku þátt í hátíðinni eins og knattspyrnugoðið Zico sem leiddi landslið Brasilíu áður fyrr og Christian Karembeu (heimsmeistaraliði Frakka á HM 1998 í fótbolta) sem leiddi lið Frakka. Vanessa Williams (úr Desperate housewives, söng einnig ,,Save the best for last" í gamla daga) var ,,host" kvöldsins og Stevie Wonder hélt þrusu ræðu og tók svo nokkra slagara með hljómsveit sinni (gráhærða helmingnum til ómældrar ánægju þar sem draumur hefur ræsts, hann brosir ennþá). Ekki má svo gleyma að nokkrum friðardúfum var sleppt í tilefni dagsins en ég gat ekki betur séð en að þær væru hálf tjúllaðar af hræðslu, greyin.
Í gær var stefnan tekin á Plaka hverfið en þar er sko hægt að gera góð kaup í alls konar glingri og síðan var haldið á Akropolis til að skoða rústirnar og komu passarnir sér vel þar sem við fengum ókeypis inn á Akropolis svæðið. í gærkvelldi fengum við loks tímasetningu á hvenær Birkir keppir í fimleikunum en það verður á morgun. líklega verður deginum í dag eytt í að mæla út búðir og kannski að kíkja á söfn en meira um það síðar, kveðja Íris
PS Reynum að setja inn myndir næst, það er eitthvað vesen núna...
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.