Nú er sunnudagskvöld og vegna mikilla anna hefur ekki gefist færi á blogga fyrr en núna. En svo haldið sé áfram þar sem frá var horfið byrjaði dagurinn í gær á því að við fórum á aðalleikvanginn og sóttum fjölskyldupakkann okkar. Í pakkanum var passi sem gildir á alla íþróttaviðburði leikanna, aðgöngumiðar á opnunarhátíðina, miðar á Chopin tónleika, lestarkort og fl. Eftir það röltum við í bæinn. Þar gengum við endilanga göngugötu sem heitir Nowy Swiat að gamla bænum. Í göngugötunni var skemmtilegur markaður sem seldi matvöru, vín og handverk og þar var margt um manninn. Síðan lá leiðin heim á hótel en með viðkomu í H&M þar sem mátunarklefinn var aðeins prófaður af kvenlega hluta tvíeykisins og á meðan var bekkurinn fyrir utan búðina vermdur vel og vandlega af karlhlutanum.
Opnunarhátíðin var á dagskrá kl. 20 og okkur hafði verið ráðlagt að mæta snemma, sem við og gerðum. Á leiðinn á hátíðina var komið við á hamborgarabúllu einni sem seldi örbylgjuhitaða kjötfarshamborgara með fersku salati og sósu. Að sjálfsögðu var Prins póló í eftirrétt. Skemmtilegast hefði verið að snæða prinsið ofan á húddinu á pólskum Fíat en hann var ekki við höndina og því bíður það betri tíma. Opnunarhátíðin var í einu orði sagt frábær. Okkur íslendingunum var plantað snyrtilega í stafrófsröð milli Ungverja (hungary) og Íra og á bekknum fyrir ofan okkur mátti heyra yfirgnæfandi færeysku enda færeyingar fjölmennir á pólskum áhorfendapöllum eins og alkunna er. Fulltrúar hverrar þjóðar gengu hring á vellinum eins og gert er á öðrum ólympíuleikum og fengu sér svo sæti á miðjum vellinum og þá hófst skemmtidagskrá og ræður voru fluttar.
Forseti Póllands, borgarstjóri Varsjár og Timothy Shriver, sonur stofnanda Special Olympics, Eunice Shriver (systir John F. og Roberts Kennedy), hélt þrusu ræðu þar sem hann minntist einnig á að Solidarnosc (Samstaða) væri 30 ára á árinu. Mick Hucknall (Simply Red) rölti hringinn með bresku keppendunum og flutti einnig eitt lag, something got me started, við mikinn fögnuð áhorfenda ekki síst foreldra sem hafa örugglega flestir kannast við kauða og lagið. Eftir að dagskránni lauk biðum við eins og grúppíur baksviðs eftir íslenska hópnum og hittum þar loks son okkar sem bókstaflega ljómaði af hamingju.
Í morgun var dagurinn tekinn snemma þar sem Birkir átti að keppa í 100 metra hlaupi kl. 10:15 og náðum við að mæta tímanlega á svæðið. Um undanrásir var að ræða og er úrslitakeppnin áætluð á þriðjudag. Birki gekk mjög vel í hlaupinu og hefur bætt tímann sinn mjög mikið. Tími hans í dag mældist 13,6 sekúndur sem er aðeins 4,1 sekúndu frá heimsmeti Usain Bolt og sá er skreflangur risi og ófatlaður að auki :) Eftir knús og kjass yfirgáfum við svæðið og mældum aftur breiðstræti Warszawa. Við vorum aftur mætt kl. 15:20 en þá átti Birkir að hefja undanrásir í langstökki. Honum gekk ágætlega en lengsta stökkið hans mældist 3,72 m sem er aðeins rétt rúmlega 5 metrum styttra en heimsmet ófatlaðra karla. Eftir keppnina var Birkir gjörsamlega búinn á því enda er dagskráin búin að vera mjög þéttskipuð hjá hópnum frá því að þau komu til Póllands, hans beið því kærkomin hvíld í kvöld og á morgun. Stefnan hjá hópnum er að fara í bæinn á morgun og okkur gefst þá sennilega tækifæri til að bregða okkur í grúppíulíki og hitta þau þar.
Í kvöld fóru fram tónleikar þar sem verk Chopin voru flutt en Chopin var pólskt tónskáld sem fæddist árið 1810 og gaf upp öndina árið 1849. Þessir tónleikar voru haldnir í tilefni af Special Olympics leikunum og okkur var boðið, að sjálfsögðu. Tónleikarnir voru mjög skemmtileg blanda af jassi, klassík og þjóðlagatónlist. Eftir tónleikana fórum við og nældum okkur í sushi og ættum því að sofna sæl og glöð í nótt. Á morgun hittum við hetjuna okkar og einnig er stefnan tekin á menningu og svoleiðis allskonar.
Bewztju kzwedjur fra Polska
Yrisz og Eydwzur
Athugasemdir
Þetta er heilmikið ævintýri að fá að taka þátt í svona viðburði.
Gaman að heyra að hann skemmti sér vel strákurinn.
Kveðja
Ingó
Ingólfur (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 16:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.