8.7.2010 | 03:12
Við suðumark í Montague
Hér er það helst að frétta af fjölskyldumeðlimum að þeir eru komnir að suðumarki, íslensku skilningarvitin þola vart meir. Við erum stödd í hitabylgju og það í húsi sem ekki er með lúxus eins og loftkælingu og sundlaug. Hitinn í gær fór í 101,8 á Fahrenheit sem mér skilst, eftir mjög áreiðanlegum heimildum, að sé 38,778 á Celsíus. Hitinn í dag var skömminni skárri ekki nema 99,2 á Fahrenheit sem er 37,333 á Celcíus. Eins og sjá má eru fjölskyldumeðlimir orðnir mjög lunknir við að breyta úr Fahrenheit yfir í Celsíus með mörgum aukastöfum.
Eins og gefur að skilja hefur allur þessi hiti hægt mjög á viðbrögðum og rökréttum hugsunum fjölskyldumeðlima enda er hitinn inn í húsinu enn hærri en úti. Þetta hefur haft áhrif á margt eins og t.d fjölda bloggfærslna undanfarið. Eitt af því sem enn er verið að rembast við er að elda heima. Eftirfarandi er ágæt lýsing á því ferli: kjarki er safnað, farið inn í eldhús, kveikt á gasinu, peppeintal hefst með orðunum ,,þú getur þetta" (eins og Vala Flosa í Sidney), einhverju matarkyns hent á pönnuna og það steikt, slökkt á gasinu, hlaupið út með svitadropana hangandi á nefinu, kjarki safnað og sami hringurinn byrjar aftur. Ætt er aftur inn í eldhús, kveikt á gasinu, meira steikt á pönnu, tekið úr ofninum, sagt upphátt: ,, ég get ekki meir", hlaupið út og kjarki safnað á ný.
Þessa stundina stendur yfir eldamennska á dýrindis HM- túnfiski þ.e. túnfiski frá Suður Afríku sem borinn verður fram með chilli og fennel sósu og skolað niður með dýrindis Shiraz Bota Box rauðvíni. Ég sit, eins og prinsessa, andstætt mínum ektamanni, úti að sjálfsögðu, og horfi á hann svitna við að skera chilli pipar og fennel og kreista sítrónur. Yngstu fjölskyldumeðlimirnir fussa og sveia yfir matseðlinum og fengu því pizzu í staðinn.
En svo rifjaðir séu upp síðustu þrír dagar. Á mánudag var ferðinni heitið í outletið í Wrentham, eins og til hafði staðið. Við vorum mætt á staðinn um háegi og við okkur blasti raðir af bílum og örtröð af fólki enda var síðasti dagur í 4th of July sale sem er stór útsöluhelgi hér í BNA. Við versluðum slatta og að íslenskum sið vorum við með þeim síðustu sem yfirgáfu svæðið þetta kvöld. Á leiðinni heim stoppuðum við í bæ við hraðbrautina sem heitir Franklin og skelltum okkur í kvöldmat á mexíkóskum stað, þar sem ég var titluð senjora og Eiður amígó.
Nóttin var rétt bærileg í húsinu með hjálp nokkurra misgóðra vifta sem fundust í kjallaranum. Næsta degi var eytt í rólegheit, ekki annað hægt vegna hitans. Horft var á leik Úrúgvæ og Hollands vopnuð viftum og voru niðurstöður leiksins húsmóðurinni mikil vonbrigði.
Eftir leikinn brettu menn upp ermar, skelltu sér í föt og út í bíl. Var ferðinni heitið í Holyoke mollið. Þar var stefnt á að klára innkaup ferðarinnar og hafðist það, nánast. Það er alveg ótrúlegt hvað listinn lengist alltaf. Að sjálfsögðu var kvöldmatur snæddur heimavið og í þetta sinn voru eldaðir dýrindis hamborgarar að hætti Yesmine, mjög hollt og gott
Eftir ögn skárri nætursvefn í nótt en síðustu nótt, sem má þakka örlítið lægra hitastigi, voru gönguskórnir reimaðir og ferðinni heitið til Wendell State Forest. Þar var farið í klukkustunda langa skógargöngu í kringum vatn.
Eftir gönguna smelltu menn sér í sundföt og skelltu sér í sund á vatninu, sem var í líkamshita, alveg dásamlegt. Eftir sundið var stefnan tekin heim, horft var á leik Spánar og Þýskalands en niðurstöður þess leiks urðu húsmóðurinni mikil vonbrigði. Tveir vonbrigðadagar í röð, eins gott að við verðum í flugvél þegar úrslitaleikur HM fer fram, ekki víst að hjartað þoli meira.
Þau ánægjulegu tíðindi bárust okkur í morgun að Salka, ólétta unglingslæðan okkar, er orðin mamma. Það, að sjálfsögðu, gerir okkur Eið að afa og ömmu. Ester, systir, var tilbúin með heita vatnið og handklæðin og tók á móti kettlingunum þremur og stóð sig eins og hetja, eins og henni er von og vísa. Nú er kattafjöldinn á heimilinu orðinn sex stykki, úff. Næstu mánuðir ættu að verða býsna skrautlegir og skemmtilegir í Fögrubrekku.
Ekki er búið að ákveða dagskrá morgundagsins enda hefur hitinn gjörsamlega sett strik í öll plön fjölskyldunnar. Engin heil brú er í ákvörðunum og vonast er eftir að þrumuveður í kvöld eða á morgun muni bjarga geðheilsu manna en þessa stundina heyrist í þrumum í fjarlægð. Nema að það sé bara einhver maður á ferð með mjög stuttan kveikiþráð, vegna hitans, að skella hurðum, hver veit. Hitastigið á Íslandi er farið að hljóma mjög aðlaðandi.
Suðukveðjur frá Montague, MA, BNA
Íris
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:27 | Facebook
Athugasemdir
Héðan úr kettlingakoti er allt ljómandi gott að frétta. Salka er mamma af Guðs náð með ríkt móðureðli og passar afar vel upp á krílin sín. Móðureðlið í mér er víst býsna sterkt líka(!) þar sem ég vaknaði oft í nótt við minnsta tíst frá ungviðinu og varð að athuga með þá. Einnig vaknaði ég þegar Salka fór í slag við sandkassann inn á baði og svo aftur þegar hún fór í óvissuferð á bak við kommóðuna inn í svefnherbergi og festist þar. Ég hugleiddi alvarlega að fara fram á fæðingarorlof þegar ég mætti þreyttari en fjandinn í vinnuna í morgun. En á móti kemur að það er ansi skemmtilegt að fylgjast með þessum blindu og heyrnalausu hnoðrum veltast um í hreiðrinu í leit að spena. Ég held ég eigi eftir að sakna litlu fjölskyldunnar alveg óskaplega þegar þið komið aftur til baka. Bið vel að heilsa og mun halda áfram að senda ykkur myndir í gegnum símann.
Ester (IP-tala skráð) 8.7.2010 kl. 19:47
Sæl veriði elskurnar mínar, svo að hitabylgjan er alveg að fara með ykkur heyri ég, þetta er svakalegt og alveg sjóðandi, ég lenti í svona heitum hitabeltisstormi í Marokkó í fyrra það var afar heitt og ekki gott, hér er allt á kaldari nótunum, en ágætt samt og út um gluggan sé ég Sjálandið baðað í kvöldsólinni. Hér eru í vikudvöl 2 loðnir, fjórfættir, dauðskelkaðir bræður og eru búnir að pakka í vörn bakvið þvottavélina, virðast eiga allt eins von á skyndisóknum af hendi húsráðanda sem auðvitað er til alls vís. Heimili þeirra er rekið sem fæðingar- og hvíldarstofnun fyrir Sölku hina fullkomnu móður og hnoðrana hennar, þið eigið framundan fjörugt heimilislíf þegar þið komið heim, og getið varla beðið trúi ég. Michelle og Justin eru að bjóða okkur Maju að líta ínn á laugardagskvöldið ég veit ekki hvort Maja verður komin, en ég ætla að kíkja á þau, annars verða þau að pakka og þrífa. Hlakka til að fá ykkur heim, mörg knús og kossar, ykkar
m-amma Aðalbjörg
amma Aðalbjörg (IP-tala skráð) 8.7.2010 kl. 23:31
Elsku systir og mamma. Takk fyrir alla umhyggjuna fyrir kattafjölskyldunni ég ryndar dauðöfunda ykkur að standa í þessu ,,veseni". Ég hlakka mikið til að taka þátt í því sjálf þegar heim er komið. Ester mín ég hef trú á að milli þín og Sölku hafi myndast þráður sem ekki muni slitna í bráð. Gaman að heyra mamma hvað þú og Maja hafið náð góðu sambandi við M og J. Ég hef á tilfinningunni að þetta verði ekki okkar síðustu samskipti við þau.
Mikil tilhlökkun er í hópnum að koma heim.
Knús Íris
Íris Bjargmundsdóttir, 10.7.2010 kl. 05:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.