Við erum aftur mætt í litla kósý húsið á 48 Randall Wood Drive í Montague, MA. Klukkan er 21:30 og ég sit sveitt út á palli (hiti 29 stig) í þessum yndislega garði við bjarmann af moskító kertinu mínu góða, með rauðvín í glasi (hvað annað), horfi/heyri í flugeldasýningu, horfi á elduflugurnar og á meðan mallar coq au vin á eldavélinni inn í eldhúsi.
Eins og sjá má á fyrri færslu http://www.fagrabrekka.blog.is/blog/fagrabrekka/entry/252512/ eyddi fjölskyldan og ömmur níu dögum hér í þessu húsi í ferð okkar um BNA árið 2007. Þetta hús er alveg frábært. Í fyrri heimilisskiptum höfum við gist í höllum en þetta hús er ekki þannig en það sýnir manni að það er ekki stærðin sem skiptir máli heldur andinn í húsinu og í þessu tilfelli er hann virkilega notalegur. Hér er virkilega kósý og okkur líður svolítið eins og að vera komin heim.
Síðasta deginum í Cazenovia var eytt í algjörum rólegheitum. Eiður horfið á báða leiki HM, stelpurnar voru í sundlauginni, ég lá í sólbaði og kláraði að lesa bókina mína, enda hafði veðrið heldur betur tekið við sér, sól og 25 stigi hiti. Við tókum síðan stuttar rispur í þ og þ (þrif og þvott) á milli. Stefnt hafði verið á bátsferð eftir mat en það klikkaði vegna kunnuglegs vandamáls þ.e. rafmagnsleysis. Flotta bláa græjan dugði heldur ekki til þar sem hún var rafmagnslaus, skipstjórinn hafði greinilega gleymt að hlaða stuðtækið. Fólk hafði því ofan af sér þetta kvöld með ýmsu móti, mest var þó horft á sjónvarp og internetið kannað.Daginn eftir var klárað að pakka og þrífa og horft á hinn frábæra leik Þýskalands og Argentínu. Eftir að hafa horft upp á tap Brasilíu fyrir Hollendingum ákvað ég að halda með Þjóðverjum og svo var planið að halda með Úrúgvæ ef/þegar Þjóðverjar dyttu út. En hvað veit maður, Þjóðverjar unnu virkilega ánægjulegan sigur.
Lokaverkið var að telja fermetra, rúður, flugnanet, rennihurðir og sæti í húsinu og hér á eftir fara niðurstöður þeirrar talningar:
Rúður = 435 - Þar af rennihurðir = 21
Flugnanet = 134
Sæti = 69 (sætin í Daytona-húsinu 2007 voru 97 en það var minna hús)
Fermetrar hússins = 700 !
Lagt var af stað til Montague um kl. 14:30 en komið var við í Kimberly's ice cream og fengið sér mjög góðan heimagerðan ís sem mikið var búið að mæla með. Ísinn stóðst væntingar og við tók fjögurra tíma akstur til Montague sem gekk mjög vel. Við vorum mætt í húsið í Montague um kl. 20 eftir nokkur stopp.
Í dag er 4. júlí sem er þjóðhátiðardagur BNA. Þetta er í þriðja skiptið á fjórum árum sem við erum í BNA á þessum degi. Í fyrsta skiptið, þ.e. 2007, fóru hátíðarhöldin algjörlega framhjá okkur sem er nú ekki eingöngu að kenna okkar sjóndepru heldur halda bæirnir upp á 4. júlí á misjöfnum dögum. Sumir eru með skrúðgöngur og flugeldasýningar 2. og 3. júlí. Þetta er gert, skv. því sem Michelle segir, (húsfreyjan í húsinu), til þess að bæirnir séu ekki í samkeppni, samráð á mörkuðum, hm hm. Árið 2008 áttið fjölskyldan frábæran dag með sannkallaðri þjóðhátíðarstemningu hjá Ómari Karvelssyni og fjölskyldu í Houston, Texas.
Í dag var ferðinni heitið til Amherst, sem er nokkuð stór háskólabær hér sunnan megin við okkur. Justin, sem er húsbóndi heimilisins og íslandsáhugamaður nr. 1, er með doktorsgráðu í efnafræði og kennir við University of Massachusetts í Amherst. Við sáum ekta BNA skrúðgöngu sem gengur út á að bílalest, að mestu leyti, (inn í henni eru allskonar bílar, fornbílar, trukkar og vinnuvélar) keyrir eftir Aðalstræti (Main Street- sem allir bæir í BNA virðast hafa) og þenur flauturnar og hendir sælgæti og kleinuhringjum til áhorfenda við mikinn fögnuð þeirra. Diljá tók þátt í safna saman sælgætinu sem var hent úr bílunum en Eydís segist vera orðin of gömul. Diljá náði að safna svo mörgum kleinuhringjum að eftirréttur kvöldsins er í boði hennar. Eftir skrúðgönguna var farið á stórt opið svæði þar sem fólk safnaðist saman og tók þátt í ýmsum leikjum. Svolítið íslenskt.
Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á veðrið. Aðeins eitt orð er fært um að lýsa þeim aðstæðum; HEITT. Hitinn fór í 32 stig í dag, en það sem bjargaði okkur var að það var hálfskýjað. Hitastigið er aðeins of hátt fyrir kulþolna íslendinga , sem eru góðu vanir. Í húsinu er engin loftkæling og hitastigið inni er þessa stundina 27 stig. En við bítum bara á jaxlinn og tökum pollýönnu á þetta.
Á morgun er stefnan tekin á verslunarferð til Wrentham en þangað höfum við margoft komið og stefnt er á að klára verslunina á þriðjudag með ferð til Holyoke mollsins. Það moll var einnig heimsótt árið 2007 með góðum árangri
Knús og kossar frá Montague, MA
Íris
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hæ hæ og aftur, takk fyrir ritstörfin Íris. Frábært að heyra frá ykkur. Gekk ekki vel hjá Maradonna á laugardaginn svo nú er ég líka farin að halda með þýskalandi. Held það hafi breyst svona í miðjum leik. Hér erum við farin að telja niður til Íslandsferðar. Á eftir að vinna í 9 daga í viðbót...enn það er sól og blíða og reyndar mikið af mýflugum líka. Rafmagnsstauturinn sem Ævar færði mér kemur að góðum notum. Rafmagnsflugnaspaðinn er líka mikið notaðar. Hann verður tekinn með um helgina þegar við förum á MB Heimaaey út á Oyeren, með rækjur og kannski hvítvínskýr (nýtt orð sem ég lærði um daginn;-). Góða skemtun áfram. Hlakka til að heyra meira. Rúna
Runa (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 20:22
Það hefur eflaust haft einhver áhrif á skiptstjórafrúna að olnbogahrottinn Michael Ballack er ekki með í þessari keppni. Ég þykist nú vita það. Enda erum við systur stofnendur anti-Ballack hreyfingarinnar á Íslandi.
Hér á heimili kettlingafullra vandræðaunglinga þá erum við Salka núna einar eftir í kotinu. Hér er bara ljómandi estrógen hamingja. Svona girl power stemmning. Högnunum tveimur var potað í búr og fluttir í Garðabæinn þar sem mamma er búin að draga fram þvottavélina og ryksuga á bak við svo Nói geti sett sig í árásarstellingar í þó hæfilegri fjarlægð frá henni. Þar munu þeir bræður dúsa þangað til á sunnudaginn. Þeir hugsa Sölku eflaust þegjandi þörfina en ákvörðunin um útlegðina var tekin af læknisfræðilegum ástæðum enda spruttu upp áhyggjur af blóðþrýstingi hinnar virkilega óléttu eftir mikið hvæs og almenna háværa óhamingju karlkynsins síðasta sólarhringinn. Salka er að öðru leyti mjög róleg, afar kelin og malar hátt og snjallt.
Ester (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 22:29
Alltaf jafn gaman að lesa um för ykkar, húsfreyjan skrifar skemmtilega, ætti kannski að pota saman bók við tækifæri! Slurp er lýsingarorð sem segir allt um matinn sem þið innbyrðið :) Sé skipstjórann i anda með stuðtækið góða... Njótið áfram vel og vona að pöddufjandarnir láti ykkur í friði. Knús á línuna.
Elín R. Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 8.7.2010 kl. 00:37
Elsku Rúna við verðum greinilega að finna okkur nýtt lið til að halda með þar sem þetta klikkaði svona. Við hlökkum mikið til að sjá ykkur heima og við verðum að plana eitthvað skemmtilegt til að gera saman.
Takk Ester mín, þessar lýsingar þínar vekja upp mikla kátínu hér á bæ :)
Sæl Elín mín og takk fyrir kommentið, Varðandi matinn þá sé ég að við eigum eitthvað sameiginlegt þar sem við þurfum að gera meira í :)
Kær kveðja
Íris
Íris Bjargmundsdóttir, 8.7.2010 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.