Niagara Falls, miðbær Syracuse og BBQ

p1000257.jpg

Samkvæmt áætlun var gærdeginum eytt í Niagara falls, Kanada megin. Lagt var af stað um morguninn kl. 9:15 og stoppað var einu sinni á leiðinni í hádegisnæringu á amerískum diner í litlum bæ við hraðbrautina. Frekar skítugur en stílhreinn veitingastaður og í anda ferðarinnar.

 

 

img_9951.jpg

Farið var yfir landamærin til Kanada en þau liggja um miðja Niagara ána og á milli fossanna tveggja. Stærri fossinn, sem er kallaður Horseshoe falls (skeifufossinn), er Kanada megin en minni fossinn, kallaður American falls (ameríski fossinn), er BNA megin.

 

 

img_9958.jpg

Útsýnið yfir fossana er mun betra Kanada megin og var búið að ráðleggja okkar að eyða deginum frekar þar en BNA megin. Þessi bær er ólíkur því sem ég var búin að gera mér í hugalund. Ég sá fyrir mér svona saklausa Gullfoss og Geysir kósý stemningu en ónei, að koma þarna er eins og að vera komin á brjálaða sólarströnd. Mikið er af hótelháhýsum frá öllum mögulegum hótelkeðjum, þar sem allt gengur út á að selja útsýni. Gífurlegur túrismi, mikið líf og verðlagið framkallaði nokkur auka hjartaslög hjá verðbólgnum, gengisþjáðum og vaxtapíndum Íslendingum. 

p1000293.jpg

Við skelltum okkur að sjálfsögðu í ferð með ,,Maid of the mist" sem er bátur sem siglir alveg að skeifufossinum. Við fengur afhendar skærbláar regnslár en urðum samt rennandi blaut og sáum ekki út úr augum þegar við vorum staðsett í mesta úðanum af fossinum, stórskemmtileg bátsferð.

 

 

Einnig fórum við á stutta bíósýningu í 4D um uppruna fossanna, fengum á okkur snjóflyksur, vind og rigningu en annars var lítið varið í þetta, sérstaklega þegar sýningin er borin saman við sýningar sem við fórum á í Disney görðunum í 2007 ferðinni. Búið var að ákveða að fara á brasilískan steikarstað og borða en þar sem við áttum ekki til fleiri auka hjartaslög á lager var ákveðið að skella sér frekar á einn ítalskan í staðinn, þó ekki væri hann nú beint hjartastyrkjandi.

p1000327.jpg

Eftir matinn var rölt um svæðið og kíkt á mannlífið en auðvelt væri að eyða heilli viku þarna og hafa nóg við að vera allan tímann. Við vorum staðráðin í að sjá fossana eftir sólarlag, þar sem þeir eru upplýstir, og biðum við í dágóðan tíma eftir að ljósin væru kveikt, sumum var orðið verulega kalt. Eftir ljósasýninguna tók við þriggja tíma akstur í húsið og voru menn orðnir vel lúnir þegar heim var komið.

Í morgun fengu allir að sofa út. Skipstjórinn og Eydís hafa ekki alveg sagt skilið við íslenska tímann og vakna alltaf á undan öðrum en við hin náðum að kúra lengur. Ferðatöskurnar voru aðeins mátaðar í dag og stelpurnar eyddu tveimur klst. í sundlauginni. Seinni partinn ákváðu gamlingjarnir að kíkja aðeins inn í Syracuse og leita að miðbænum. Vísir af honum fannst á Armory Square með dyggri aðstoð GPS konunnar. Ekki var bærinn neitt sérstaklega líflegur, meira eins og Austurstrætið í 15 ms. og 5 stiga frosti. Víða er þó hægt að sjá veitingastaði og bari sem bjóða upp á borð og stóla úti sem er nú meira en hægt er að segja um flestar aðrar borgir BNA sem við höfum komið til. Við mátuðum aðeins stólana og borðið á einum staðnum áður en við lögðum í hann heim aftur.

p1000334_1005473.jpg

Við áttum deit við litla lögfræðinginn í kvöld en hann var svo rausnarlegur að bjóða okkur út að borða á BBQ stað sem heitir Dinosaur Barbecue. Staðurinn er mjög sérstakur, ,,mótorhjólatöffarastaður" enda um gamalt mótorhjólaverkstæði að ræða. Mennirnir sem áttu verkstæðið stofnuðu veitingastaðinn og seldu hann síðan til annars ríkasta manns heims (við erum svo púkó að við þekktum ekki nafnið en hann heitir Zorro eitthvað...) og eru sjálfir milljónamæringar í dag. Fullt var út úr dyrum, mikil stemning og maturinn alveg frábær. Við áttum mjög skemmtilegt kvöld, enda er litli lögfræðingurinn mjög viðkunnalegur og skemmtilegur maður.

Á morgun er síðasti dagurinn okkar hér og er stefnt á að leggja af stað til Montague eftir fyrri HM leik á laugardag en áætlaður ferðatími er 4 klst. Dagurinn á morgun fer í pökkun og þrif en síðan á að enda daginn með stæl. Elda á Fruits de Mer á la Provencale (hörpudisk og rækjur í hvítlauk) og eftir kvöldmat er stefnt á bátsferð inn í bæ til að kaupa ís.

Fremur kalt hefur verið í veðri hér undanfarið, lítil sól og frekar vindasamt. Hitinn í dag hefur líkleg ekki verið hærri en 17-18 stig sem er eins og 10-12 stig heima, en spáð er hlýnandi veðri á laugardag og í næstu viku er gert ráð fyrir 32-36 stiga hita í Montague. Stefnan er tekin á að nota a.m.k. einn dag í sólbað í næstu viku. Það er nú hálf leiðinlegt að koma heim frá útlöndum jafn hvít og þegar við fórum út. 

290647_image.jpg

Þessi færsla var gerð undir áhrifum af glasi af hvítvíni sem ber það virðulega nafn Rex-Goliath - Giant 47 Pound Rooster Chardonnay en næsta bloggfærsla verður að öllum líkindum framkvæmd í Montague, undir áhrifum hvers verður svo bara að ráðast af úrvalinu.

Kveðja frá N.Y 

Íris 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ, ekkert lát á ævintýrum. Gaman að heyra af blautri fossaferð, stefnumóti við litla lögfræðinginn o.fl. Nú eruð þið væntanlega á fullu að pakka og þrífa, óhjákvæmilegur fylgifiskur .

Gestirnir okkar skildu vel við ömmur með rauðvínsflösku og kertum á hvorum stað og fallegu kveðjukorti. Gaman að geta gert svona elskulegu fólki greiða

Ég hóta enn af miklum móð en er þó mun brattari. Búin að leggja snýtuklútunum og byrjuð á sýklalyfjakúr eftir heimsókn á Læknavaktina í gær. Lagði þó ekki í að fara í útskriftarveislu hjá Taru og tveimur skólasystkinum enda engan veginn veisluhæf ennþá.

Við ætlum að leggja í hann síðdegis á morgun og fara í þjórsárdal, þaðan væntanlega Sprengisand á sunnudag. Reiknum með að koma heim um aðra helgi. Fram að þeim tíma verðum við líkast til ekki í netsambandi. Ég hlakka mikið til að kanna nýjar slóðir og Valdi enn meira til að sýna mér þær.

Kveðja og knús frá okkur til ykkar allra. Hlakka til að sjá ykkur. Maja (Við stefnum aftur á fjölskylduhittinga 18. júlí)

Amma Maja (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 20:35

2 identicon

Íris mín, takk kærlega fyrir ritstörfin. Mjög skemmtileg lesning. Bestu kveðjur frá okkur öllum.  Áfram Íris og áfram Argentína...

Rúna (IP-tala skráð) 3.7.2010 kl. 12:50

3 identicon

Þá er hún Salka komin til mín. Afar kringlótt blessunin og malar mikið - ég sendi ykkur mynd til sönnunar í tölvupósti. Úlfur er heldur skeptískur og urrar. Nóa fannst verra að ég hafi hleypt mömmu inn í íbúðina í nokkrar mínutur. Hann stendur enn í þeirri trú að hún ætli að búa til úr honum kvöldmat þegar henni gefst tækifæri til. Við sjáum til hvernig þetta fer. Ég býst frekar við að Úlfur verði sendur í útlegð á bak við þvottavélina heima hjá mömmu. Nói virðist höndla þetta betur. Ég sendi ykkur myndir og fréttir ef að fæðingu verður. Ég er búin að googla "How to deliver kittens" og samkvæmt sérfræðingum þá eru ekki miklar kröfur gerðar til manns, reyndar er manni ráðlagt að vera ekki of mikið fyrir. Ég verð þó með handklæðastafla og heitt vatn tilbúið líkt og gert er í bíómyndunum þegar utan-spítala-fæðing á sér stað og hvet hana til dáða... úr hæfilegri fjarlægð auðvitað.

Ester (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband