30.6.2010 | 04:29
1000 eyjarnar, bátsferð og fyrsta skóparið
Nú er ég aftur mætt fyrir framan tölvuna. Við stóru eyjuna, í stóra eldhúsinu, í stóra húsinu í stóra landinu og í þetta skiptið er bloggað við undirspil Bob Marley. Skipstjórinn sýnir ævintýralega takta í eldhúsinu við marineringar-gerð og er búinn að galla sig upp í þykkan fatnað, þannig að ekki sést í hvítt, og herðir sig nú upp í að mæta örlagavaldi sínum við grillið úti, þ.e. moskítóflugunni. Öll erum við bitin í klessu og má útganginn rekja til gönguferðarinnar um stöðuvatn bjóranna, að við höldum. Búið er að reyna nokkrar tegundir af moskítóvörnum og inntöku ofnæmislyfja en ekkert virðist virka.
Deginum í gær var eytt á svæði sem ber nafnið The Thousand Islands (nú er gátan um 1000 eyja sósuna leyst, en hún er upprunin þaðan) og er staðsett út frá austurhluta Lake Ontario. Um tveggja tíma akstur er til Alexandria Bay, þangað sem ferðinni var heitið, en þar fórum við um borð í bát og við tók rúmlega tveggja tíma dýrðleg bátsferð um eyjasvæðið með leiðsögn. Hér á eftir fer fram stutt endursögn, færð í stílinn að sjálfsögðu.
Um er að ræða ca. 1800 eyjar (BNA og Kanada eru búin að telja þær) af öllum stærðum og gerðum og eru stærstu byggðu eyjarnar um 4x Heimaey en sú minnsta um 15 m2. Á flestum minni eyjunum er eitt til þrjú hús að finna, fremur stór, og á minnstu byggðu eyjunni er aðeins eitt hús sem tekur alla eyjuna og heitir eyjan því viðeigandi nafni ,,Just Big Enough".
Eðli málsins samkvæmt er aðeins hægt að komast á eyjarnar á báti og menn verða sjálfir að sjá sér fyrir rafmagni og vatni og við það eru ýmsar aðferðir notaðar. Aðal uppgangstími svæðisins var seint á 19 öld og fram til um 1930, þegar kreppan skall á. Þarna keyptu milljónamæringar sér eyjur og byggðu stór hús sem þeir nýttu hluta af ári, en aðeins er hægt að búa þarna í um þrjá mánuði á ári (hljómar kunnuglega). Frostið fer niður í um 50 stig, vatnið leggur og fólk sem á peninga hefur víst ekki áhuga á að eyða tíma sínum í slíkar aðstæður Einnig má nefna að svæðið er á landamærum BNA og Kanada og strangt til tekið fórum við inn í Kanada þegar við sigldum á bátnum, þó ekki fengjum við stimpil í passann. Úr því verður þó bætt á morgun.
Eftir að bátsferðinni lauk, sem Diljá stýrði að hluta (sjá mynd,) var rölt um bæinn sem er mjög skemmtilegur og keypt var ísskápsmerki, að sjálfsögðu. Á leiðinni heim var komið við í pínulitlum bæ sem heitir Sackets Harbor en þar var stærsta skipasmíðastöð BNA í stríðinu við Englendinga árið 1812. Við sáum svo sem ekki mikil merki stríðs í þessum bæ en gengum fram á veitingastað sem staðsettur var við vatnið og skv. matseðli, sem auglýstur var fyrir utan, bauð hann upp á íslenska ýsu. Ákveðið var að slá frekar í ísveislu en ýsuveislu og síðan var keyrt heim. Á leiðinni var komið við í búðinni sem við höfum verslað við frá fyrsta degi, Wegmans, alveg frábær verslun. Ákveðið var að kýla á Sushi sem menn átu með bestu lyst þegar heim var komið. Kvöldið endaði síðan á endursýndum leik Brasilíu og Chile og voru úrslitin mikil gleðiefni fyrir húsmóðirina sem hefur verið dyggur stuðningsmaður Brasilíu undanfarin 20 ár.
Í dag var ákveðið að taka daginn fremur rólega framan af. Eftir að skipstjórinn var búinn að horfa á fyrri HM-fótboltaleikinn var farið í rúmlega klukkutíma göngu um Highland Forest Park. Raunar var fyrri HM leikurinn svo leiðinlegur að lagt var í ferðina þegar framlenging var að hefjast og úrslit vítaspyrnukeppni fengin með boltavaktinni. Garðurinn er mjög fallegur og vel skipulagður (fyrirmynd annarra garða varðandi skipulag, en okkur tókst samt að villast aðeins en það erum bara við) og eftir það var farið heim og horft á síðari leik dagsins milli Íberíuskagararisanna. Eftir leikinn var haldið í mollið og mér tókst loksins að festa kaup á mínu fyrsta skópari í ferðinni , mikil gleði.
Búið var að ákveða að hafa Coq au Vin (gamlan seigan hana/kjúkling eldaðan upp úr víni) í kvöldmatinn en sú eldamennska klikkaði aðeins á tíma enda ég ekki búin að klára skókaupin fyrr en klukkan 19:30. Fjárfest var í pítsu handa yngri kynslóðinni en sú eldri ætlar að grilla nautasteik, sæta kartöflu, ferskan aspas og grænmeti og að sjálfsögðu að drekka rautt með því. Á eftir verður svo dýrindis eftirréttur, einnig keyptur í Wegmans.
Á morgun er ráðgert að fara í dagsferð til Niagara Falls. Stefnt er á að kíkja aðeins á fossana, fara út að borða á brasilískum stað og aka síðan heim, en rúmlega þriggja tíma akstur er til fossanna héðan. Litli lögfræðingurinn vill endilega fara með okkur út að borða á Barbeque stað og eigum við deit við hann á einn slíkan n.k. fimmtudagskvöld.
Farið er að síga á seinni hluta fyrri hluta ferðarinnar en margt er ennþá á dagskrá hjá fjölskyldunni og mun ég áfram blogga um það sem fyrir augu ber.
ES. Takk fyrir kveðjurnar, alveg frábært að lesa þær. Fengum póst frá litlu konunni sem nú er stödd í húsinu okkar á Íslandi. Hún sagðist hafa hitt konu í bænum sem þekkti okkur og hafði séð mynd af húsinu hennar á Facebook-síðunni okkar (kannski á blogginu), hún var gjörsamlega hlessa
Knús og kreist frá 5059 E. Lake Road, Cazenovia
Íris
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 04:31 | Facebook
Athugasemdir
Hæ elskurnar.
Alltaf jafn gaman að lesa Ameríkubloggið hennar Irisar og frábært hvað þið eruð útsjónarsöm í að finna skemmtilega afþreyingu. Ótrúleg tilviljun þetta með konuna sem litla konan hitti. Ég er t.d. búin að setja myndasafn inn á Facebook, Ameríka 2010, og þar er mynd af stóra húsinu. Hver veit? Annars erum við Valdi enn í Mosó, bíllinn á verkstæðinu og ég hundveik enn. Er að spá í læknavaktina eftir kl. 17.00 og reyna að herja út sýklalyf.
Ég hlakka til að heyra af ferðinni til Niagarafossa.
Knús. Maja
Amma Maja (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 09:53
Sæl verið þið
Mikið er gaman að heyra af ykkur og þessari ferð sem er greinilega stórkostlegt ævintýri! Höldum áfram að fylgjast með.
Kær kveðja
Máni & co.
Máni Svavarsson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 17:13
Mikið er gaman að lesa bloggið ykkar. Þú ert svo góður penni Íris. Ætluðum að skella okkur á Iceland Inspires tónleikana við Seljalandsfoss en það er búið að færa þá í bæinn vegna veðurs.
Ef Eiður er skipstjórinn hvaða titil hefur þú Íris? Stýrimaður(kona) eða vélstjóri(stýra)? :o)
Bið að heilsa skipstjóranum og messaguttunum.
Bestur kveðjur frá Blankanesi.
Ingó
Ingólfur (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 11:23
Eiður minn, ég sá að þú varst að reyna að hringja. Ég var að fá nýjan síma í dag og hann er svo flottur að ég veit ekki einu sinni hvernig ég að svara þegar hann hringir. Þú verður að prófa hringja aftur, ég held ég sé búni að ná þessu :) Væntanlega viltu tala við mig út af kettlingafullu lauslátu unglingslæðunni sem ég tek að mér um helgina... nú eða að fá leiðbeiningar um hvernig þú kemst í næstu raftækjaverslun þarna í nágrenninu. Ég get reddað hvoru tveggja.
Ester (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 20:40
Elsku bitna og ferðaglaða fjölskylda, dásamlegar lýsingar á frábærum dögum hjá ykkur, verst að flugurnar skuli ekki geta séð ykkur í friði. Búin að læra á iPodinn (sko þá gömlu! þetta gat hún) hann stendur undir öllum væntingum og vel það. Michelle og Justin eru á Grænlandi bíllinn var kominn á heimaslóðir með góðum gjöfum og miklu þakklæti, þegar ég kom heim úr vinnunni síðdegis, en ég er í e-mail sambandi við þau ágætu hjón.Ástarkveðja og faðmlög til ykkar í stóra, flotta húsinu í Cazanovia.
ykkar m-amma Aðalbjörg
ps. ég fer og kíki á kattabúskapinn í Fögrubrekku annað kvöld, en þarf ekki að gefa fiskunum líka? - hvað mörg korn á fisk??
amma Aðalbjörg (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 22:44
Elsku Maja mín, takk fyrir kveðjurnar, við vonum að þú farir að lagast. Batakveðjur
Takk fyrir kveðjuna Máni og fjölskylda, það er virkilega gaman að heyra í ykkur :)
Elsku Ingó, Hildur og afleggjarar :) takk fyrir kveðjuna. Ef einhver ber titilinn -stjóri eitthvað þá er það að sjálfsögðu ég. Ég sá á mbl.is að von væri á leiðinlegu veðri en að sjálfsögðu nær það ekki til Álftaness :) Ástarkveðja.
Ester mín, það var ég sem gerði tilraun að ná í þig, greinilega vonlaust frá upphafi, miðað við aðstæður. Þú hefur samt rétt fyrir þér varðandi erindið, það er kettlingafulla lausláta unglingslæðan sem er málið, ekki Best Buy :). Hringi á morgun.
Takk fyrir kveðjuna elsku mamma mín. Ég hef fulla trú á tækni þekkingu þinni og efaðist ekki nokkra einustu mínútu að þú kæmist fljótt upp á lag með iPod-inn :) Ekki er erfitt að gera Justin og Michelle til hæfis, þau eru mjög þakklát fyrir allt sem gert er fyrir þau og þau eru einnig mjög pottþétt. Varðandi fiskana þá er maturinn staðsettur í neðsta skápnum, vinstra megin í hægri skápa einingunni við tölvuna, í grænum poka- skýrt. Gefa 2 tsk., skeiðin ætti að vera ofan í pokanum. Annars er þetta nýtt fóður sem við höfum enga reynslu af.
Kær kveðja
Íris
Íris Bjargmundsdóttir, 2.7.2010 kl. 05:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.