28.6.2010 | 02:42
Ferð til Albany, ganga um stöðuvatn bjóranna og bátsferð með smáréttum
Takk fyrir kveðjurnar, það er mjög gaman að lesa þær
Dagurinn í gær fór að mestu í ferð til Albany, sem er höfuðborg New York fylkis, en þangað er tveggja klukkustunda akstur á hraðbrautum. Tilgangur ferðarinnar var sambland af praktík og skemmtun þar sem við áttum stefnumót við Montague fólkið, sem við skiptum við árið 2007, en við höfum haldið sambandi við þau síðan. Við hittum þau á amerískum diner og áttum með þeim tveggja klukkustunda mjög skemmtilegan og ánægjulegan hádegisverð. Þau eiga tvo bíla og afhendu þau okkur annan þeirra en það sparar okkur bílaleigubíl þegar við förum í seinni skiptin til þeirra. Ég keyrði sveitabílinn (Chrysler Town and Country) heim en skipstjórinn fékk það hlutverk að keyra Subaruinn heim.

Þegar heim var komið eldaði skipstjórinn hið dásamlega góða og holla kotasælu-grænmetis lasagna en annars var kvöldinu eytt í að horfa á endursýndan leik BNA og Ghana á HM. Úrslitin voru svolítil vonbrigði, við erum nú nett farin að halda með BNA, ekki annað hægt en að hrífast með, enda dásamlegt að fylgjast með í sjónvarpinu þegar sýnt er frá stöðum þar sem fólk er að safnast saman á til að horfa á leikinn. Svipað og þegar Ísland er að keppa til úrslita í handbolta á stórmóti.
Í morgun var að sjálfsögðu horft á slátrun Þýskalands á Englandi á HM og vöktu úrslitin netta gleðitilfinningu meðal eldri heimilismanna. Einnig fengum við heimsókn frá litla lögfræðingnum sem er kominn heim frá Íslandi, á rósrauðu skýi. Hann hjálpaði okkur við að laga það sem að er á bátnum og gera hann siglingahæfan en einnig tók hann hluta af fjölskyldunni út á vatrnið á hraðbátnum.

Þegar hann yfirgaf svæðið lögðum við af stað í göngu en ferðinni var heitið til Beaver lake nature center sem er um 30 mínútna akstur frá okkur. Þar löbbuðum við stíga sem mælast samtals 4 mílur sem er um 6,4 km og tók það okkur um 1 1/2 km að labba þetta. Þetta reyndist vera yndisleg gönguferð. Við vorum nánast allan tímann í trjágöngum og sáum froska, snáka, Hannesa (íkorna) og fleiri skemmtileg dýr á leiðinni.
Þegar heim var komið var ákveðið að þar sem búið væri að laga bátinn væri upplagt að skella sér í bátsferð og borða kvöldmat á vatninu. Við vorum í miklu kappi við tímann þar sem veðurspáin sagði að von væri á þrumuveðri kl. 20:30. Voru Mikka mús regnslárnar frá Disney 2007 teknar með til að vera við öllu búin, en þær hafa fylgt okkur í allar ferðir síðan 2007, en sjaldan þurft notkunar við. Við áttum yndislega stund á vatninu sem var einstaklega stillt og einnig var mjög hlýtt, 28 stiga hiti. Allt gekk vel þar til skipstjórafrúin krafðist þess að skipstjórinn dræpi á bátunum og sæti til borðs með heimilismönnum meðan kvöldmatur væri snæddur, sem er nú bara eðlileg krafa. Skipstjórinn lét undan eftir nokkrar fortölur en það stóðst að þegar setja átti bátinn í gang var hann rafmagnslaus. Við höfðum nú sem betur fer tekið með okkur árar í bátinn og sáum fyrir okkur að við myndum róa í land. Skipstjórinn tók þá upp úr pússi sínu fagurblátt tæki sem innihélt galdraklær og sáu þær um að gefa vélinni rafstuð, eins og með hjartastuðtæki. Þetta svínvirkaði, sem betur fer, því að í sama mund byrjuðu dropar að falla. Regndroparnir urðu þó aldrei fleiri en tveir og veðspáin á netinu, sem búið er að styðjast við undanfarna daga, sannaði endanlega gildi sitt sem algjörlega ónothæf. Við sigldum því rólega í land, þurr og södd.
Þessa stundina sit ég í yndislega hlýju veðri á bryggjupallinum með moskítókertið góða, sem ég keypti í Yankee Candle, og skrifa þetta blogg ásamt fullt af flugum sem laðast að björtum tölvuskjánum. Horfi á eldflugur sveima, heyri brak í kvistum og trjágreinum og það er aldrei að vita nema að dádýr séu á ferðinni niður að vatninu til að fá sér vatn að drekka, eða Hannesar eða Snar og Snöggur, það er nóg af þeim hérna. Niðamyrkur er, aðeins er um að ræða ljósglampa á vatninu frá húsunum hinum megin við vatnið. Þetta er yndislegt.
Á morgun er stefnan tekin á Thousand Islands sem er við Alexandria Bay.
Meira síðar
Knús og kossar frá bryggjupalli við Cazenovia Lake
Íris
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:24 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta. Mjög skemmtileg lesning. Mér þykir með ólíkindum hversu vel bróðir minn er útbúinn fyrir svona bátsferðir. Voru klærnar kanski eitthvað sem hann fanst fyrir um borð? Reyndar þekki ég annan sem gæti hafa tekið upp á því að hafa með sér svoldið af rafmagnssnúrum í farteskinu.
Helgin hjá okkur var yndisleg. Freyja er lukkulegust af öllum. Hún prófaði Wakeboard og náði að láta draga sig heila hring á vatninu sem við vorum við. Hún gat reyndar ekki hreyft hedurnar daginn eftir og var komin með hálsbólgu eftir að hafa gleyft nokkra lítra af ísköldu vatni enn var södd og sæl. Nú vill hún að við fjárfestum í hraðskreiðari bát svo við getum dregið hana á eftir okkur um Oyeren.
Farin í vinnunna,
Bið kærlega að heilsa og hlakka til að heyra meira,´
Rúna
Rúna (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 05:29
Mikið virðist þetta yndislegur staður; ekki leiðinlegt að sitja við skjáinn við svona aðstæður:-) knús og kram af norðurlandi til ykkar allra.
Embla (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 09:07
Takk fyrir skemmtilegt blogg og flottar myndir. Greinilegt að að vefst ekki fyrir skipstjóranum að bregðast við smá dyntum í skipinu. Hér er allt með rólegasta móti, ég er síhóstandi en þó heldur skárri. Fáum bílinn ekki fyrr en á föstudag enda hefði ég tæpast farið af stað fyrr. Hjónin í Trönuhjallanum láta vel af sér, hef verið í lítils háttar e-póstsamskiptum við þau vegna nettengingar og hún sendi mér m.a.s. eina setningu á íslensku.
Njótið áfram sem allra best.
Knús og kossar.
Maja
Amma Maja (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 14:16
Elsku þið öll, takk fyrir vikuna frábæru, þéttsetna af viðburðum og skemmtilegheitum. Ömmuferðalagið gekk ljómandi vel að vísu hátt í klukkutíma seinnkun á Syracuse flugvellinum og smá athugasemdir um þyngd töskunnar minnar, en við settum upp ljóskusvipinn og starfsmenn þar á bæ móttækilegir fyrir slíku.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir JFK-starfmanna að afvegaleiða okkur í leitinni að Icelandair-terminalnum fundum við hann, héldum andlitunum og okkar striki og eftir töskudrátt á löngum göngum, í lyftum, rúllustigum, færiböndum og lestum fundum við á endanum innritunina og allt í standi þar og ekki minnst á þunga tösku.
Fundum okkur svo dýran veitingastað og borðuðum svona alltílagi mat, í ágætis fílíng............
Icelandair vélin var á tíma þrátt fyrir að 17 vélar væru á undan okkur í flugtakinu.
Er að fara á flugvöllin að sækja Montacue hjónin.
Hlakka til að lesa næsta blogg
Kossar og knús
m-amma A.
p.s birtist nú, tveggja daga gamalt, vegna tæknilegra örðugleika
amma Aðalbjörg (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 18:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.