26.6.2010 | 01:50
Rólegur dagur heima, Landon Donovan og ömmur á heimleið
Nú hefur betri helmingur ferðalanganna yfirgefið svæðið. Þeim var í dag pakkað snyrtilega í flugvél frá Syracuse til New York og erum við, sem eftir sitjum, að treysta á að þær rati sjálfar um borð í Icelandair vél á leið til Keflavíkur.
Síðasti dagur ammanna var nýttur í rólegheit, að mestu leiti. Fyrst var horft á leik Ítala og Slóvaka, bráðskemmtilegan leik sem þandi taugarnar hjá þeim sem eru hallir undir Ítalíu.

En fyrst ég er farin að tala um fótbolta þá er ekki annað hægt en að minnast á áhuga BNA-manna á HM. Sigurmark Donovan í leik BNA og Alsír er endursýnt svona 20 sinnum á dag ásamt tveggja snýtiklútaviðtali við Donovan, þar sem hann brestur í grát yfir öllum erfiðleikunum sem hann er búinn að ganga í gegnum á árinu, sem er endursýnt álíka oft. BNA halda ekki vatni yfir árangrinum án þess þó að við verðum vör við mikinn gleðibankafíling. Eitthvað fyrir íslendinga að læra af þ.e. að halda sig niðri á jörðinni.
En áfram með smjörið. Eftir leikinn var arkað af stað (keyrt) í Bed, Bath & Beyond til að festa kaup á ryksugu. Það er eins og engin útlandaferð hjá fjölskyldunni geti verið án þess að fest séu kaup á ryksugu Önnur ammanna sá fyrirbærið á heimilinu og fékk sýnikennslu í notkun tækisins frá litla eiganda hússins og fannst þar með upplagt að fjárfesta í einu slíku. Þegar heim var komið úr búðaferðunum var horft á HM leiki sem ekki voru eins dramatískir og morgunleikurinn góði.

Þegar leikurinn var búinn var skipstjórinn loks orðinn viðræðuhæfur og ákveðið var að meðan Osso bucco-ið mallaði í ofninum skyldi tekin bátsferð. Að sjálfsögðu var fordrykkur á bátnum, en í för var hvítvínskýr, glös og kók fyrir börnin. Þessi bátsferð hófst og endaði án vandræða ólíkt þeirri fyrri. Vatnið og svæðið í kringum er alveg dásamlegt og við sáum á leiðinni tvö til þrjú hús auglýst til sölu :) það er mjög freistandi fjárfesting fyrir vel stæða Íslendinga


Dagurinn í dag hófst á HM leik, hundleiðinlegum leik brassa og portúgala, síðan var ömmunum skilað í flug eins og áður hefur komið fram. Komið var við í nokkrum búðum á leiðinni heim enda var stefnan tekin á aðra bátsferð með rækjum, brauði og majónesi ásamt hvítvíni. Ég og skærbleika OPI naglalakk yngri dóttur minnar höfum átt notalega stund á pallinum við bryggjuna í dag á meðan Eiður skrapp í sundlaugina með stelpunum. Báturinn er eitthvað að stríða okkur og fer ekki í gang þannig að við örvæntum ekki, við stefnum að sjálfsögðu á bryggjupallinn með rækjurnar, hvítvínið og moskítóúðann. Á morgun er stefnan tekin á Albany, NY til að hitta Justin og Michelle, fólkið sem við skiptum við í Massachusetts og við rífum af þeim sjálfrennireið sem við hyggjumst aka frá Cazenovia til Montague, MA þegar sá tími kemur.
Moskítókveðjur frá Cazenovia-vatni, upstate New York
Íris
ES. Takk fyrir allar kveðjurnar, sérstaklega Ingólfur. Gaman væri að fá fleiri kveðjur.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég verð að standa mig betur i að kommentara. Verð samt að taka það fram að þó það hafi ekki heyrst mikið frá mér (bara eitt komment) þá kíki ég daglega og bíð spent eftir nýjum fréttum. Mjög skemmtilegar frásagnir.
Varðadi flugnabit. Ævar færði konu sinni úrvalsgrip sem hann keypti í Clas Olsen í Norge (örugglega eitthvað í áttina við BestBuy). Þetta kemur ekki í veg fyrir bitin, enn notast eftir á til að senda smá rafmagnspúlsa í bitið. Lítill stautur sem semsagt gefur smá stuð (maðurinn kaupir ekkert nema það sé eitthvað sem notar eða framleiðir straum). Enn ....þetta semsagt svínvirkar. Handhægt lítið tæki sem slær alveg á kláðann í nokkra klukkutíma.
Hlakka til að heyra nýjar fréttir. Við erum á leið í sólarhringsútilegu með íslenskum vinahjónum enn við kíkjum aftur við á morgun.
Rúna
Rúna (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 07:54
Obs....ætlaði að nefna eitt i viðbót varðandi flugnaágang. Í fyrra keypti Ævar handa frúnni rafmagnsflugnaspaða, líka í Clas Ohlson. Hann notast á flugurnar og ekki flugnabitin. Mjög skemtilegt að slá flugurnar með honum. Það heyrist hljóð sem má líkist mjög háværu flugnasuði, og svo kemur mild sviðalykt á eftir. Ef þið skaffið ykkur einn svona fyrir kvöldið eruð þið búin að hafa ofan af fyrir krökkunum í fleiri klukkutíma. Góða skemtun alla vega á bryggjuni. Rúna
Rúna (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 08:03
Leitt að heyra af dyntóttum bát og ágengum flugum en veit að allt hitt er frábært. Ömmurnar örkuðu í gegn um JFK eins og þær hefðu hannað þetta ógnarstóra svæði sjálfar. Sáu m.a.s. við ungum manni sem reyndi að afvegaleiða þær og vísaði á rangan Terminal. Borðuðum ítalskt á frekar fínum stað og drukkum hvítvín með - mjög hægt enda kostaði glasið 1500 ISK ...
Þúsund þakkir fyrir frábæra viku. Knús og kossar til allra.
Amma Maja
Amma Maja (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 14:15
Sælir ferðalangar.
Þetta er geggjað, mikið vildi að ég að við Ommi og co værum með ykkur. Vona að boðið standi enn frá um árið að djóna með ykkur. Sé fressin okkar í anda valsa um kallabúð og við tvær í okkar búðum :) og yndisbörnin okkar í sínum búðum. Matarlýsingar þínar Iris eru yndi, ooohhhhh.....Við nebbnilega elskum að malla góðan mat og drekka gott vín með...... er með ykkur í anda.
Kærar kveðjur
Elín R. Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 19:20
Elsku Rúna. Þessi athugasemd varðandi tækin hafði þau áhrif að skipstjórinn var strax farinn að leita á amazon.com að tækjum sem hegða sér eins og þau sem þú lýstir, en án árangurs. Því miður, ég held að slíkur fundur hefði þótt mikill fjársjóður í mörgum skilningi á þessu heimili.
Takk sömuleiðis Maja mín, frábært að hafa ykkur hérna hjá okkur. Við höfðum svo sem ekki alvöru áhyggjur af því að þið villtust, þið eruð orðnar svo sjóaðar í þessum flugferðum. Ég vona að kvefið lagist sem fyrst.
Elsku Elín. Takk fyrir kveðjuna og einnig fyrri kveðju. Við erum sko ekki búin að gleyma boðinu og bíðum spennt eftir tækifæri til að framfylgja því. Lýsingin nær algjörlega yfir það sem ég sé fyrir mér. Birkir er sáttur við matinn og vatnið, sem er það sem skiptir að sjálfsögðu öllu máli :)
kveðja
Íris
Íris Bjargmundsdóttir, 28.6.2010 kl. 03:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.