24.6.2010 | 03:51
Verslunarferðir og bíó
Verslunabakterían hefur náð yfirhöndinni hjá fjölskyldunni góðu í Ameríkunni. Í gærmorgun var ferðinni heitið í Outlet-ið en það vill svo skemmtilega til að það er staðsett í bæ sem heitir Waterloo. Skemmtileg staðarnöfn verða á vegi okkar daglega, í dag fórum við t.d. í gegnum bæ sem heitir Liverpool. Töluverð seinkun varð á brottför frá húsinu en það kom ekki að sök þar sem fyrirheitni staðurinn var staðsettur í klukkutíma fjarlægð frá húsinu en ekki í tveggja tíma fjarlægð eins og skipstjórinn hafði fengið upplýsingar um. Seinkunin var tilkomin vegna almenns skipulagsleysis eða þess að verið var að prenta út kúpóna sem hægt er að sýna til að fá enn meiri afslætti og eitthvað voru lykilorð að tölvupóstum að flækjast fyrir fólki.
Þegar komið var á staðinn þá splittaði hópurinn sér upp og marseraði af stað í innkaupin. Afrakstur dagsins er ekkert á við 2007-ferðina en sérstaklega er áberandi að um er að ræða heldur færri skópör og engin ryksuga er í farteskinu, ennþá. Fólk var almennt ánægt með afrakstur dagsins. Annars er skipstjórinn farinn að kvarta sáran yfir kynjaójafnvægi í hópnum og skorti á stuðningi, sérstaklega finnst honum þörf á að hafa karlkyns félaga þegar búð eins og Best Buy er heimsótt. Ég skora því á alla karlmenn sem þetta lesa að íhuga það alvarlega að fara með okkur í næstu ferð :). Fyrstur kemur, fyrstur fær :)
Dagurinn í dag byrjaði á góðri 1 1/2 tíma gönguferð um Chittenango Falls State Park sem er garður ekki langt frá okkur. Míni-útgáfa af Dynjanda er þar og þegar búið var að kanna fossinn nánar lá leið okkar um ýmsar blautar ófærur og einnig urðu á vegi okkar ýmis dýr sem við eigum ekki að venjast á Íslandi, eins og appelsínugulir, pínulitlir froskar og lítill snákur.
Eftir að búið var að þvo af sér skítinn eftir gönguferðina var ferðinni heitið í Carousel Mall. Fjárfest var í hlaupaskóm á Birki og göngustöfum fyrir aðra ömmuna en einnig var þétt aðeins á fatakaupum fjölskyldunnar í H&M og Gap. Að síðustu var farið í bíó. Bíóferðina var Birkir búinn að plana í nokkra mánuði og að sjálfsögðu var Toy Story 3 fyrir valinu. Ég mæli með myndinni, hún er alveg frábær. Í mallinu var einnig þétt á raftækjaeigninni. Nú aumkuðu kvenkynsfjölskyldumeðlimir sig yfir skipstjórann og fóru með honum í Best buy, til að sína smá stuðning. Í þessum skrifuðu orðum er klukkan orðin 23:30 og fjölskyldan er nýbúin að borða hamborgara með frönskum (heimaeldað að sjálfsögðu). Tímasetning kvöldmatar á heimilinu verður alltaf ókristilegri með hverju kvöldinu sem líður. Á morgun er síðasti dagur hjá ömmunum og stefnt er á rólegan dag heima við en það er í fyrsta skiptið frá því að við komum að stefnan er ekki tekin eitthvað út í buskann. Farið verður út á bátinn og vonandi endar sú för ekki bara á bryggju nágrannans, eins og síðast. Hægt er að sigla vatnið á enda og fara í land í bænum og borða nesti þar. Einnig er stefnt að að ná sér í smá brúnku ef sú gula ákveður að sína sig og á kvöldið að enda á Osso bucco og góðu rauðvíni.Bless í bilikær kveðja frá stóra húsinu við E-Lake Road.Íris
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 04:21 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki málið að taka með sér svolítið af dýralífinu heim. Það er nú búið að skapast fordæmi eftir Frakklandsferðina ekki satt!
Annars er ég meira en tilbúinn að koma með ykkur út næst og jafnvel taka Hildi og afleggjarana með :)
Kveðja
Ingó
Ingólfur (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 18:36
Ég er mikið að pæla í hvaða sýnishorn ég eigi að taka til landsins næst. Kannski það verði snákur, Erling hjá Náttúrufræðistofnun yrði a.m.k. mjög ánægður :)
kv.
Íris
Íris Bjargmundsdóttir, 28.6.2010 kl. 02:59
Mikið yrðum við ánægt ef þið sæjuð ykkur fært að fara með okkur í eitthvert skiptið. Hildur og afleggjarnir yrðu sko ekki fyrir, það væri ábyggilega hægt að nýtu þau í eitthvað :)
Bið voða vel að heilsa þeim.
kveðja
Íris
Íris Bjargmundsdóttir, 28.6.2010 kl. 03:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.