Cooperstown og Target verslunarferð

Eins og plön höfðu ráð fyrir gert var ferðinni heitið til Cooperstown. Smábærinn Cooperstown hefur sér það til frægðar unnið að vera ,,The birthplace of Baseball". Hafnabolta frægðarhöllin "The Baseball hall of fame" er staðsett í bænum, hvar annarsstaðar? og baseball minjagripasjoppur eru út um allt í bænum.
Það verður að viðurkennast að ekki er gífurlegum áhuga á hafnabolta að þakka að bærinn var heimsóttur, enda var krókur tekinn framhjá fyrrnefndri höll, heldur á bærinn að búa yfir miklum smábæjarþokka. Það stóðst, fullt af fallegum, vel viðhöldnum og sjarmerandi ,,New England húsum".
Splæst var í hádegismat á veitingastaðnum Alex's & Ikas. Ikas er líklega sænsk þar sem margir réttir á matseðlinum kenndu sig við Svíþjóð. Maturinn sem menn pöntuðu var misgóður en hvítvínið var að sjálfsögðu fínt. Síðan var ómeðvituð ákvörðun tekin um að labba að Farmers Museum sem er í enda bæjarins en menn rönkuðu við sér á miðri leið, sneru snarlega við og ákváðu að fá sér frekar ís. :) Splæst var í ísskápsmerki með mynd af hafnaboltakappa að slá bolta og nafni bæjarins fyrir neðan en síðan var stefnan tekin á bílinn og í Target þar sem nauðsynlegt þótti að hita aðeins upp fyrir ,,outlet" ferðina sem stendur fyrir dyrum á morgun.
Þessa stundina er svipuð sviðsetning á hlutunum og var í gærkveldi þegar ég skrifaði. Ég sit með tölvuna við stóru eyjuna, Eiður og ömmurnar eru eins og stormsveipir í eldhúsinu og eru að töfra fram spaghettí með skelfiski (uppskrift úr ítölsku hagkaupsbókinni), Birkir er á facebook og youtube og stelpurnar eru í sundlauginni.
Yndislegt að horfa á :)
Svo ég upplýsi varðandi matarvenjur í heimilisskiptum þá höfum við Eiður haft það sem venju undanfarin ár að taka með okkur að heiman mataruppskriftir sem innihalda hráefni sem er annað hvort mjög dýrt eða jafnvel ófáanlegt á Íslandi. Okkur finnst mikið skemmtilegra að elda góðan mat, drekka gott vín á meðan og með matnum heldur en að fara út að borða :) Að fara út að borða er bara spari :) Á miðvikudag stendur til að elda Osso Bucco, nammi namm.
En varðandi morgundaginn þá er eins og áður hefur komið fram stefnan tekin á verslunarferð. Farið verður í outlet sem er í um tveggja tíma fjarlægð og markmiðið er að vera allan daginn og borða kvöldmat þar (það er nauðsynlegt að fara út að borða í svoleiðis ferðum). Búið er að þurrka rykið af innkaupalistunum og að sjálfsögðu eru nokkur skópör að finna á honum.
Fengum fréttir af bandaríska lögfræðingnum okkar, hann sveimar um á rósrauðu skýi. Búinn að smakka hvalkjöt, fara á Austur-Indíafjélagið, labba út um alla Reykjavík og labba að Glymi í Hvalfirði. Þar fór hann yfir drumbinn í byrjun og óð yfir ána líka. Ef þið sjáið pínulítinn mann á vappi og þá meina ég nánast dvergvaxinn mann með bleikt ský fyrir ofan sig, þá er það líklega hann :)

Að lokum: Við höfum fengið nokkur neikvæð viðbrögð vegna HM gláps. Okkur til varnaðar verðum við að segja að fyrstu leikir eru sýndir hér kl. 7:30 á morgnana og síðasti leikur kl. 13:30. Sumir fjölskyldumeðlimur eru ekki enn búnir að jafna sig á tímamismuninum og eru að vakna kl. 6 á morgnana, upplagt er fyrir þá að horfa á fyrsta og jafnvel annan leik:) síðan er rest sleppt en mögulega horft á einhverja umfjöllun á kvöldin á ESPN.

Ljóst er að bátavígslan verður að bíða fram til á miðvikudag og við munum heyrast líklega þá

Bless í bili

Ástarkveðja frá Cazenovia í New-York fylki
Íris


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa þetta elsku Íris mín.  Líði ykkur vel og ég bið að heilsa öllum!  Er sjálf að fara til Parísar með mömmu næsta mánudagskvöld og eftir nokkra daga þar á frönsku rivíeruna í viku til að samgleðjast Atla á fertugsafmælinu hans.  Við verðum þar í góðu yfirlæti fjölskyldan.  Heyrumst þegar þú kemur heim :)  Knús og kram, Olga.

Olga (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 09:03

2 identicon

Ætli litli kallinn hafi verið á Austur-Indíafjélaginu á laugardagskvöldinu? Við Becky vorum einmitt þar á þeim tíma. Það var annar lítill kall á næsta borði en það var Magnús Scheving sem sötraði Pepsi úr glerflösku og notaði rör til þess (smáatriði skipta máli!). Við sáum ekki lögfræðinginn á djamminu sama kvöld en það var reyndar annar lítill karlkyns útlendingur sem dillaði sér fyrir framan okkur þar sem við sátum. Það var ekki eins skemmtilegt og að horfa á Íþróttaálfinn sötra pepsí úr glerflösku.

Ester (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 15:11

3 identicon

Takk fyrir þetta. Frábært að fá fréttir með þessum hætti. Þú verður að halda þér við bloggið meðan hin elda. Fínt að frétta héðan. Ég Ævar og Freyja vorum í Arvika í Svíþjóð síðustu helgi á fótboltamóti. Liðið hennar Freyju gerði sér lítið fyrir og vann í sinum flokki. Mjög skemmtilegt. Her er liðið: http://www.fet-j97.com/?page_id=56

María var heima með bíl, hús og Dominó og ég held henni hafi ekki leiðst það.

Hlakka til a lesa meira og hlakka til að sjá ykkur sunnudaginn 18. júli.

Bestu kveðjur til allra,
Rúna

Rúna (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 15:50

4 identicon

Frábært að fá svona beinar lýsingar frá ferðalaginu. Íris, þú ert svona David Attenborough ferðarinnar, segir okkur frá innrásarferð víkingana til vínlandsins góða og hvernig gerð var atlaga að vígi nágrannans á stóra víkingaskipinu og bryggjan hjá honum var lögð í rúst.
Þið eruð yndisleg. Gaman að heyra að það gangi vel.

P.S ekki taka þetta HM áhorfs-skot alvarlega, ég er bara abbó :)

Allir biðja kærlega að heilsa.

Kveðja
Ingó

Ingólfur (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 20:18

5 Smámynd: Íris Bjargmundsdóttir

Takk fyrir kveðjurnar.

Elsku Olga, þetta á eftir að verða alveg frábær ferð hjá ykkur til Frakkalands. Við vorum á sviðupuð slóðum í fyrra sumar og áttum mjög eftirminnilegan tíma. Ég lánaði Hildu og Skúla bækur sem innihalda m.a. gönguleiðir um svæðið, sem ég vona að komi ykkur að notum. Bið að heilsa öllum.

Elsku Ester systir: Ég held að litli lögfræðingurinn sé ekki mikið að djamma, hann er of upptekin af því að klífa fjöll :) Bið að heilsa Becky

Elsku Rúna, ég lofa að vera ekki að óhreinka puttana of mikið í eldamennsku og láta aðra um slíkt meðan ég blogga. Hlakka mikið til að sjá ykkur í sumar. Verðum að plana eitthvað mjög skemmtilegt garðpartý :)

Já Ingó minn, þetta er náttlega í blóðinu að skemma bryggjur, gaman að heyra í þér. Við erum hófleg í HM-inu :)

Íris Bjargmundsdóttir, 28.6.2010 kl. 02:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband