Heimilisskipti sumarið 2010

Jæja, fögrubrekkufjölskyldan er aftur komin af stað.... Ekki stendur til að taka árið 2007 á heimilisskiptum í þetta sinn, ,,aðeins" verður skipt við tvær fjölskyldur á norð-austur strönd BNA og ferðalagið mun standa yfir í 23 daga. Eiður er að sjálfsögðu búinn að bera allan hitann og þungann af skipulagningunni sem hefur staðið yfir nánast samfleytt í níu mánuði. Skipulagið er eftirfarandi: fyrstu 14 dögunum á að verja í dreifbýli New York fylkis þ.e. við lítið vatn sem heitir Lake Cazenovia staðsett rétt fyrir utan bæinn Cazenovia í Madison county (ekki yfirbyggðu-brúar sýslunni). Næstu níu dögum á eftir stendur til að eyða á kunnulegum nótum í smábænum Montague í vestur Massachusetts en þar erum við að skipta við sama fólkið aftur og við skiptum við árið 2007, gamalt loforð sem verið er að efna. Það er nú meiri íslandsáhuginn sem þetta fólk hefur W00t Ömmurnar verð að sjálfsögðu í för og í þetta skipti ætla þær að eyða 1. vikunni með okkur og vera okkur samferða út.

En svo byrjað sé á byrjuninni þá var 17. júní ekki eytt í skrúðgöngur og ættjaðrasöngva heldur í þrif þar sem stefnan var tekin á New-York morgunflugið morguninn eftir og von var á fyrsta fjölskyldumeðlimi að gista í okkar húsi seint um kvöld þess 17. Um er að ræða rúmlega 50 ára pínulítinn lögfræðing sem yfirleitt getur ekki farið með konu sinni og börnum i heimilisskipti á sumrin vegna anna í vinnu en hafði svo mikinn áhuga á að arka um Ísland að hann sló vinnunni á frest og skellti sér yfir Atlantshafið. Konan hans og strákarnir þeirra tveir, ásamt vinahjónum, eru væntanleg til Íslands um næstu helgi. Eftir töluverða seinkun að morgni þess 18., sem má kenna almennu tímavanmati og skipulagsleysi, var lagt að stað út á flugvöll. Ester, systir, aumkaði sig yfir okkur og skutlaði helmingi ferðalanganna út á flugvöll og Valdi, vinur ömmu Maju, skutlaði hinum helmingnum. Flugið var fremur tíðindalaust ef frá er talið að illa gekk að koma afþreyingarkerfi Icelandair í gang, en það hafðist þó að lokum við mikinn fögnuð.

Við komuna til New York vorum við fljót að finna bílinn okkar á bílastæðinu. Um er að ræða 7 manna mjög nýlegan Chrysler Town and Country bíl og mun bíllinn verða okkar fararskjóti næstu tvær vikur. Ferðalagið gekk vel, stoppað var á Applebees (alltaf dettur manni í hug sagan af litla barninu og áfenginu) og borðað. Birkir fékk loksins það sem hann var búinn að bíða eftir frá því að hann var síðast í BNA, þ.e. í tvö ár, chicken fingers, djúpsteika og næringarríka, með frönskum LoL

img_9743_1002314.jpg

Við vorum mætt í stóra húsið við litla vatnið um kl. 8 um kvöldið og á móti okkur tók yndisleg, mjög lítil í stíl við eiginmanninn, amerísk kona sem er eigandi hússins, 15 ára sonur hennar og tveir PUK hundar. Hún vísaði okkur á ísskápinn sem innihélt vínber, New York fylkis salami (það besta sem ég hef smakkað), New York cheddar ost (ljósan), hvítlauksbrauð og baguett brauð ásamt ísköldu hvítvíni.

Morguninn eftir var húsið skoðað nánar en það er stórkostlegt :) Það er um 550 fm stórt með ótrúlega mörgum gluggum. Öll herbergi eru risastór, flygill er ásamt innisundlaug og er staðsetningin stórkostleg. 

 

img_9730.jpg

Bakgarðurinn er vatnið en húsinu fylgja tveir mótorbátar og tveir kajakar. Stór pallur er við bryggjuna sem hægt er að sitja á og njóta útsýnisins. Fyrsta deginum, þ.e. deginum í gær, var eytt í að skoða húsið, kíkja á HM, fara í búðarleiðangur til að birgja sig upp af mat og prófa stóra bátinn. Það gekk nú ekki áfallalaust fyrir sig, kvenfólkið var að sjálfsögðu búið var að birgja sig upp af hvítvíni til að taka með á bátinn en þar sem skipstjórinn gaf bátnum aðeins of mikið inn var ekki hægt að ræsa hann upp á nýtt og endaði ferðin á að bátinn rak stjórnlaust á bryggju hjá læknishjónunum í næsta húsi. Eftir nokkrar tilraunir til að ræsa bátinn var ákveðið að binda hann við bryggjuna og halda fótgangandi heim.

img_9795.jpg

Í dag var deginum eytt í HM gláp og gönguferðir til að hrista af sér allt rauðvínið og hvítvínið og mynda pláss fyrir meira. Fyrst var stefnan tekið á Fillmore Glenn State Park þar sem tekinn var tveggja tíma hringur í skóginum en síðan var keyrt í hálftíma að Skaneateles Conservation Area þar sem annar hálftíma göngutúr var tekinn. Þegar heim var komið var læknirinn kominn heim úr golfinu og búinn að redda bátnum á sinn stað.

 

 Núna sit ég við risastóru eyjuna og blogga meðan Eiður og ömmurnar þeytast til og redda kvöldmatnum. Búið er að ákveða að borða úti á pallinum við bryggjuna og leyfa krökkunum að grilla sykurpúða á eftir. Á morgun er stefnt á að vakna kl. 7:00 og horfa á HM leik og fara síðan í Cooperstown sem er lítill fallegur bær í um klukkutíma fjarlægð. Sennilega verður taka tvö tekin á bátinn en passað upp á að bensínfótur skipstjórans verði ekki kitlaður of mikið.  Kveðja frá BNA

Íris


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég glöð að lesa um dvöl ykkar og ferðalag....og alsæl fyrir Birkis hönd með kjúklingaputtana :) Þetta verður ævintýri. Knús á línuna frá okkur í Sjávargrundinni.

Elín R. Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 17:02

2 identicon

Gaman að lesa um ferðina ykkar - og þetta virkar ekkert smá æðislegt hús með frábærri staðsetningu.  Smá ósk.... þar sem þið eruð nú eitthvað "smá" að versla fyrir okkur, ef þið rekist á leggings á Heklu (svona með tölum neðst) þá langar hana svakalega í þannig - svartar í stærð 116 eða 6 ára - hún var að biðja um það rétt í þessu.... þannig að ef þið rekist á þá megið þig grípa eitt stk. eða svo :)

gaman væri að fylgjast með ykkur hérna og sjá myndir og svo smá skilaboð frá Ingó þá varð hann ekkert smá hneikslaður að sjá að þið væru virkilega komin til USA í frí og væruð að eyða tíma ykkar í að horfa á HM hehe

góða skemmtun

 kv. Hildur

Hildur Helgadottir (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband