Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
1.7.2011 | 21:32
Santorini
Aldrei þessu vant er það gráhærði bassaleikarinn sem bloggar. Það kom að því... eða hvað. Það er nú óvíst að hann fái að klára óáreittur. Það kemur í ljós í undirskirft bloggsins.
Eftir sex viðburðaríka daga í Aþenu var haldið til Santorini. Íris á sér tvö fyrirheitin lönd; H&M og Santorini. Annað er alls staðar nema á Íslandi en hitt er bara hér. Íslenskar konur þurfa ekki skýringu á ástæðu þess hvers vegna H&M telst fyrirheitna landið (eru ekki hvort eð er bara konur sem lesa þetta blogg?) og í raun þurfa þær ekki á ústkýringu á fyrirheitum Santorini, þegar búið er að nefna hana; Mamma Mia! var kvikmynduð hér. Eða svo hélt Íris. Við rúntuðum nebblega um alla eyjuna í dag á handónýtri Nissan Micra (ljósblárri) og sáum ekki eitt kunnuglegt kennileiti úr meistarverkinu. Kannski þarf maður að vera hvítvínsleginn og í Háskólabíói í huganum til að þekkja kennileitin en altént fundust þau ekki. Við smá gúgglun kom í ljós að myndin var kannski ekkert kvikmynduð hér. Tíhí... :-) Það verður eflaust kannað nánar. Margt fallegt sást samt. Við gengum til dæmis upp að hinni fornu borg Thira sem var byggð fyrir ca 2000 árum uppi á fjallstindi sunnarlega á eyjunni. Micran var ekki mjög hrifin af akstursleiðinni sem var, eðli málsins samkvæmt öll upp í móti og vel brött, hún hóstaði ítrekað en komst þó á leiðarenda.
Þaðan var haldið á "Red Beach". Glöggir lesendur sjá að þetta er ekki grískt heiti. Hvergi á leiðinni sáum við annað en enska heitið á ströndinni. Jæja. Þetta var ansi sérstök strönd. Vestmannaeyingar skilja þegar ég segi að þetta hafi verið blanda af Costa del Klauf, Ræningjatanga, Stafsnesi og Rauðhólum. Mjög fínt. Eftir daginn er ég kominn með áfastan eldrauðan trefil um hálsinn og Íris eitthvað svipað en í öðru formi. Sólbrunnin sem sagt enda mjög nálægt sólinni löngum stundum uppi á fjallinu.
Aðeins um Santorini. Þetta er eyjaklasi á gríska eyjahafinu. Sunnarlega. Heitir opinberlega Thira en gengur undir hinu nafninu Santorini í daglegu tali. Fyrir 3700 árum var þetta ein eyja en hún sprakk í eldgosi og við það myndaðist þessi litli og ofsalega fallegi eyjaklasi. Sjá kortið hér við hliðina. Hann lagðist í eyði í kjölfarið en sumir telja að goðsögnin um Atlantis sé í raun um Santorini. Við sprengigosið myndaðist líka flóðbylgja sem ku kannski hafa kaffært Krít og stútað mannlífinu sem þá var uppi á Krít. Það er óstaðfest. Ég er óvirkur sögu- og landafræðinörd. Hvað um það. Svæðið er fáránlega fallegt.
Og aðeins um Grikki. Maður þarf ekki að biðja um öskubakka hér. Hann er "default". (Mamma og tengdó, hafið ekki áhyggjur - við erum ekki byrjuð að reykja aftur :-). Samt reykja ekkert voðalega margir hér. Grikkir eru kurteisir og hjálplegir. Maturinn er bara voða fínn. Einfaldur, lítið brasaður og pínu íslenskur á köflum. Lambakjötið er amk jafngott og það íslenska. Jógúrt (grísk jógúrt) er æðisleg og grískt salat líka. Við erum að verða ofalin af góðum grískum mat. Raunar erum við komin með nokkra grikkja í fæði. Þrír grískir kettir eru búnir að spotta mótstöðuleysi Írisar þegar kemur að svöngum dýrum og eru komnir í fast fæði hjá henni. Við erum beinlínis búin að kaupa kattamat í hverfisbúðinni og hann er að verða búinn! Enda biðu kettirnir okkar þegar við komum heim úr skoðunarferð dagsins. Og í þessum töluðum (skrifuðum) orðum bættist sá fjórði við. Þeir bera greinilega saman bækur blessaðir.
... Fórum út að borða og nú er gráhærði sestur aftur við að klára bloggið. Maturinn var verulega góður eins og áður. Kartöflur með lauk og ólífum í forrétt og Músaka (Íris) og lamba-Tavas (Eiður). Við gistum í bæ á norðurenda eyjarinnar sem heiri Oía (borið fram Ía) og hann er sjúklega fallegur. Endalaus Kodak móment út um allt. Sigling um nærliggjandi eyjar á morgun, sundsprettur í hitapolli á leiðinni (eitthvað eldfjallaeitthvað) og vínbar um borð. Úff. Maður lætur sig hafa það. Tilneyddur :-)
Eiður (fékk að klára óáreittur að mestu)
29.6.2011 | 22:36
Viðburðarríkur dagur í Hellenska lýðveldinu Grikklandi
Hjónin vöknuðu frekar seint í morgun enda var dagurinn í gær frekar viðburðarríkur og ekki veitti af að hvíla lúin bein með því að sofa vel fram eftir. Eins og kemur fram í færslunni hér að neðan var stefnan í dag tekin á HM, í Plaka, skoðunarferðir og mögulega bíó. Þegar við skriðum loksins út af hótelinu um hádegi og lögðum af stað í áttina til HM búðanna þá mætti okkur fleira og fleira fólk með gasgrímur, hvíta málingu í framan og kröfuspjöld og eitthvað var því lítið af opnum búðum til þess að kíkja í. Athyglinni var því fljótt beint frá búðunum og við örkuðum með Special Olympics merkispjöldin framan á okkur (sem var nú gert að ásettu ráði þar sem viðmótið er aðeins annað þegar spjöldin eru til staðar) meðfram mótmælaröðinni sem var mjög löng. Við fundum fljótlega fyrir afleiðingum tárasprengja þ.e. sviða í augum, koki og tárum í augum og flýttum okkur því í gegnum mannfjöldann. Loksins fundum við HM búðina en þá var hún lokuð og reyndar voru flestar búðir og veitingastaðir á þessu svæði lokað, sennilega mjög skynsamlegt. Sama staða var ekki inn í Plaka hverfinu þó að greinilega væru mun færri þar á ferli en um helgina. Þar gátum við keypt ísskápsmerki (það er einfaldlega skylda) og smá glingur og síðan fengum við okkur ágætan hádegismat. Eftir matinn var ákveðið að leita enn frekar að opnum HM búðum. Í staðinn fyrir slík verðmæti vorum við skyndilega lent inn í miðju óeirðanna og á hlaupum undan lögregunni sem var á mótorhjólum og henti sprengjum út í eitt með tilheyrandi látum tókst okkur að komast að hótelinu okkar með sviða í hálsi og tár í augum. Á leiðinni sáum við að flestar búðir, veitingastaðir og jafnvel hótel voru búin að víggirðast, þ.e. að loka járnhliðum. Einnig hittum við aðgerðarsinna sem voru með grímur fyrir andlitinu og hvítir í framan en þeir voru að vara okkur við því að fara nær miðbænum og voru að leiðbeina okkur um að komast á hótelið okkar. Það var nú samt ekki endilega það sem gráhærði helmingurinn vildi gera enda vita það allir sem vilja vita að uppreisnarandi fylgir gráu hári. Ljóshærði helmingurinn hefur auðvitað engin grá hár og þ.a.l. engar uppreisnarkenndir :)
Eftir smá hvíld á hótelinu var ákveðið að ganga á fjall sem er 270 m hátt og er í miðri Aþenu. Uppgangan gekk mjög vel enda fólk í ágætri þjálfun. Mikið útsýni er af fjallinu og var því stoppað þar smá stund. Ekki fannst hjónunum þessi uppganga nægilega átakamikil og því var arkað inn almenningsgarð og tekið smá hlaup í 30 mín. Gráhærða helmingnum tókst að lenda í hundi á leiðinni sem beit hann í lærið en án þess þó að mikið sjái á honum sem betur fer. Eftir gott bað á hótelinu var farið í að leita að opnum veitingastað en þeir eru orðnir fáir og götur sem voru virkilega líflegar fyrir þremur dögum síðar eru nánast tómar enda mátti heyra sprengjuregnið í fimm mínútna fjarlægð frá hótelinu okkar. Veitingastaður fannst þó og ekki förum við svöng í rúmið. Ekki er þó hægt að finna opinn hraðbanka sem virkar og það er því greinilegt að verkfallið nær líka til þeirra.
Á morgun er stefnan tekin á Santorini í fjóra daga og ætlum við að taka flug snemma í fyrramálið kl. 10:30. Ekki er vitað hvort að lestir muni ganga á morgun en við ætlum að gera tilraun í fyrramálið en annars er það bara leigubíll út á flugvöll. Meira vonandi á morgun, kv. Íris.
28.6.2011 | 22:28
Keppnisdagur í fimleikum á Special Olympics í Aþenu
Viðurðarríkur dagur að kveldi kominn en í dag fylgdumst við með einkasyninum keppa í fimleikum á Special Olympics hér í Aþenu enda var megin tilgangur ferðarinnar einmitt sá að fylgjast með þeirri keppni. Þrátt fyrir að um tíma stefndi í að við gætum ekki fylgst með keppninni vegna allsherjarverkfalls.
Gærdeginum var eytt í verslunarmiðstöð þar sem ljóshærði helmingurinn eyddi m.a. 1 klst og 10 mín í H&M sem ekki þykir nú átakanlega langur tími í augum hans (hennar) þrátt fyrir að gráhærði helmingurinn haldi öðru fram. Seint í gærkveldi komumst við að því að tveggja daga allsherjarverkfall væri að skella á í dag og á morgun og fyrirheitna lestin, sem til stóð að notast við til að koma okkur á milli svæða til að horfa á Birki, yrði ekki starfrækt þessa tvo daga. Með hjálp hótelsins tókst okkur að panta leigubíl sem átti að sækja okkur kl. 10 í morgun og skutla okkur á staðinn sem er töluvert fyrir utan borgina. Þetta stóðst allt saman, bílinn kom og skilaði okkur á réttan stað fyrir tiltekinn tíma. Á leiðinni varð bíllinn þó að stoppa í um 10 mínútur á meðan kröfugangan gekk eftir veginum fyrir framan bíllinn og stoppaði alla umferð.
Deginum eyddum við í Helliniki höllinni sem er skylmingahöllin frá Ólympíuleikunum 2004 og fór fimleikakeppnin þar fram. Strákarnir sem kepptu fyrir íÍslands hönd í fimleikum eru þrír og gekk öllum mjög vel. Birkir vann tvö gull, fyrir bogahest og tvíslá, silfur fyrir gólfæfingar, brons fyrir hringi og fjórða sæti fyrir stökk. Foreldrarnir eru auðvitað alveg í skýjunum og Birkir einnig en nú fær hann nokkurra daga tímabært frí til afslöppunar áður en haldið verður heim á leið.
Á morgun er síðasti heili dagurinn okkar Eiðs hér í Aþenu. Verkfall verður einnig á morgun en samt verður stefnan tekin á aðra H&M búð sem er nálægt hótelinu, stefnt er á heimsókn í Plaka hverfið til að kaupa glingur og svo langar okkur mikið að borga okkur í bíltúr um borgina þar sem við getur hoppað að vild í og úr tveggja hæða stætó. Óskin er síðan að enda daginn á að fara út að borða og á bíóferð í útibíói sem eru nokkuð algeng hér um slóðir. Kveðja í bili, Íris
Vinir og fjölskylda | Breytt 29.6.2011 kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við Eiður erum stödd í Aþenu í Grikkandi (ekki í BNA) í 10 daga til að fylgjast með einkasyninum keppa í fimleikum. Þetta er önnur ferð okkar hjóna á Special Olympics á einu ári en eins og sjá má hér að neðan heimsóttum við Varsjá í Póllandi síðasta haust þar sem Birkir keppti í frjálsum íþróttum á Evrópuleikum Special Olympics. Við hjónin höfum sem sagt breyst í alræmdar grúppíur, þ.e. eltum soninn á milli landa til að horfa á hann keppa - frekar þreytandi foreldrar.
Við mættum þreytt og slæpt til Aþenu föstudagskvöldið síðastliðið og nú er kominn mánudagsmorgunn þannig að bloggið okkar fer nokkuð seint af stað að þessu sinni.
Til þess að byrja á byrjuninni þá lagði Birkir af stað í þennan langa leiðangur aðfaranótt mánudagsins 20. júní ásamt 36 öðrum keppendum auk þjálfara og fararstjóra til Aþenu. Kastljós var mætt á staðinn um morguninn og tók fyrstu skref ferðalagsins upp á filmu og sýndi í sjónvarpinu sama kvöld. Það voru stoltir foreldrar sem horfðu á viðtal við einkasoninn í Kastljósinu. Sem betur fer var búið að fræða hann örlítið um Grikkland sem fólst aðallega í því að sýna honum myndir af rústum, sem honum fannst ekki spennandi. Það varð þó til þess að hann gat svarað spurningu Margrétar Macksómasamlega um hvað væri að sjá í Aþenu :)Sjá hér: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4545126/2011/06/20/1/
Við foreldrarnir lögðum af stað til Aþenu aðfaranótt föstudagsins síðastliðinn. Í sama flugi voru Ósk og Kristján ásamt tveimur börnum sínum en þau eru á sömu leið og við að horfa á son sinn sem heitir Jóhann Fannar keppa í fimleikum. Við hófum ferðalagið á að fljúga næturflug til Parísar þar sem við þurftum að bíða í 6 tíma og er sá tími í móðu. Næst flugum við til Aþenu en í því flugi fengum við heitan mat með hnífapörum sem minnti okkur svolítið á gamla Icelandair, ótrúlegt hvað svona litlir hlutir geta skipt mann miklu máli. Við vorum komin upp á hótel í Aþenu kl. 19 á grískum tíma, gjörsamlega ósofin. Ekki voru þó hjónin til í að leggjast til svefns þegar þangað var komið heldur var drifið í því að fara út að borða og ágætur grískur matur borðaður og með því var drukkið ágætt grískt vín. Sofnað var um miðnætti á grískum tíma (um kl. 21 heima) eftir 38 tíma vöku, hjúkk.
Deginum í fyrradag var eytt í að sækja gögnin okkar í Family center og fara á opnunarhátíð Special Olympics. Að sækja gögnin reyndist þegar uppi var staðið heilmikið ferðalag. Við vorum búin að staðsetja afhendingarstað gagnanna á kort hjá okkur en sá staður reyndist vera í töluverðri fjarlægð frá miðbænum þar sem við gistum. Við skelltum okkur í lestina og fundum á korti heimilisfangið þar sem átti að afhenda gögnin. Til stóð að afhenda þau á Kifissias götu nr. 39 en húsnúmer á götunni þar sem við fórum úr lestinni var Kifissias nr. 295. Við lögðum því að stað enda ómögulegt að vita hversu langt er á milli húsa í fjarlægum borgum. Eftir tæplega klukkutíma göngu, í 36 stiga hita, vorum við að sjá húsnúmer nr. 260 og þá tók minn maður til sinna ráða og ákvað að hóa í leigubíl til að keyra okkur á leiðarenda. Sem betur fer segi ég núna þar sem ferðalagið í leigubílnum tók um 10 mín í viðbót á ógnarökuhraða. Á áfangastað, hjá Family center, fengum við gögnin okkar sem innihéldu m.a. miða á opnunarhátíðina, passa sem gefur okkur aðgang inn á keppnissvæðin, ókeypis í allar lestir og strætó og inn á söfn. Einnig fengum við afsláttarmiða í hinar ýmsu verslanir, sem mun nýtast vel, og grískt símakort.
Um kvöldið var svo haldið á opnunarhátíð Special Olympics sem fram fór á Kallimarmaro Panathinaiko Stadiums íþróttavellinum, elsta íþróttaleikvangi heims. Það væri örugglega mjög gaman að fara á fótboltaleik þar. Grikkir höfðu skipulagt mjög flotta opnunarhátíð þar sem við m.a. horfðum á öll keppnisliðin á leikunum, sem eru frá 180 löndum, ganga inn (tók tæplega tvo tíma). Nokkrir þekktir einstaklingar tóku þátt í hátíðinni eins og knattspyrnugoðið Zico sem leiddi landslið Brasilíu áður fyrr og Christian Karembeu (heimsmeistaraliði Frakka á HM 1998 í fótbolta) sem leiddi lið Frakka. Vanessa Williams (úr Desperate housewives, söng einnig ,,Save the best for last" í gamla daga) var ,,host" kvöldsins og Stevie Wonder hélt þrusu ræðu og tók svo nokkra slagara með hljómsveit sinni (gráhærða helmingnum til ómældrar ánægju þar sem draumur hefur ræsts, hann brosir ennþá). Ekki má svo gleyma að nokkrum friðardúfum var sleppt í tilefni dagsins en ég gat ekki betur séð en að þær væru hálf tjúllaðar af hræðslu, greyin.
Í gær var stefnan tekin á Plaka hverfið en þar er sko hægt að gera góð kaup í alls konar glingri og síðan var haldið á Akropolis til að skoða rústirnar og komu passarnir sér vel þar sem við fengum ókeypis inn á Akropolis svæðið. í gærkvelldi fengum við loks tímasetningu á hvenær Birkir keppir í fimleikunum en það verður á morgun. líklega verður deginum í dag eytt í að mæla út búðir og kannski að kíkja á söfn en meira um það síðar, kveðja Íris
PS Reynum að setja inn myndir næst, það er eitthvað vesen núna...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2010 | 22:17
Síðasti dagur Póllandsferðar
Jæja núna er síðasti heili dagurinn okkar hér í Varsjá að kvöldi kominn. Á morgun verður haldið heim en við eigum pantað beint flug frá Varsjá til Keflavíkur með Iceland Express. Lagt verður af stað kl. 21:30 og verðum við því lent um miðnætti að íslenskum tíma.
Við hittum Birki ekki í dag eins og til hafði staðið þar sem hópurinn var svo þreyttur að ákveðið var að vera um kyrrt þar sem þau gista og hvíla sig. Við eigum von á að heyra frá þjálfaranum hans um nákvæma tímasetningu úrslitakeppninnar og vonum við að a.m.k. önnur hvor greinin verði á morgun þannig að við náum að sjá hann.
Annars byrjaði dagurinn á því að við sváfum lengur. Þegar við vorum orðin nægjanlega hvíld ákváðum við að gerast menningarleg og skoðuðum safn sem heitir á ensku Warszawa rising. Safnið snýst að mestu leyti um nokkra daga í ágúst 1944 þegar íbúar Varsjár gerðu uppreisn gegn þjóðverjum en einnig er á safninu fjölmargir munir úr seinna stríði og frá tíma kalda stríðsins. Mjög flott og áhrifamikið safn.
Eftir safnið var púlsinn tekinn á einni af verslunarmiðstöðvum Varsjár. Við vorum margoft búin að ganga framhjá þessu risastóra húsi án þess að hafa hugmynd um að í því leyndust þessar fínu búðir, alveg ótrúlegt. Við rákum aðeins inn nefið og kíktum á búðirnar og þar fannst þessi glæsilegi jakki á Eið sem ákveðið hafði verið að fjárfesta í. Á heimleið upp á hótel stoppuðum við á ítölskum stað til að borða en kvöldinu var síðan eytt í að horfa á heimabíó hótelsins og var kvikmyndin Shutter Island fyrir valinu.
Á morgun verður ferðinni vonandi heitið til að sjá hetjuna okkar keppa og sennilega verður einhverjum tíma eytt í verslanir og kvöldmatur snæddur áður en haldið verður út á flugvöll.
Annars er þessi ferð búin að vera mjög skemmtileg og það er alveg óhætt að mæla með ferð til Varsjá. Varsjá er ekki fallegasta borgin sem við höfum komið til (enda er 80% af henni byggð á síðustu 60 árum) en hér er margt að skoða, góða veitingastaði er að finna á hverju horni og verðlag er hagstætt, meira segja fyrir gengispínda íslendinga.
Bestu kveðjur frá Warzsawa
Íris og Eiður
19.9.2010 | 22:34
Polska Blogwzsky
Opnunarhátíðin var á dagskrá kl. 20 og okkur hafði verið ráðlagt að mæta snemma, sem við og gerðum. Á leiðinn á hátíðina var komið við á hamborgarabúllu einni sem seldi örbylgjuhitaða kjötfarshamborgara með fersku salati og sósu. Að sjálfsögðu var Prins póló í eftirrétt. Skemmtilegast hefði verið að snæða prinsið ofan á húddinu á pólskum Fíat en hann var ekki við höndina og því bíður það betri tíma. Opnunarhátíðin var í einu orði sagt frábær. Okkur íslendingunum var plantað snyrtilega í stafrófsröð milli Ungverja (hungary) og Íra og á bekknum fyrir ofan okkur mátti heyra yfirgnæfandi færeysku enda færeyingar fjölmennir á pólskum áhorfendapöllum eins og alkunna er. Fulltrúar hverrar þjóðar gengu hring á vellinum eins og gert er á öðrum ólympíuleikum og fengu sér svo sæti á miðjum vellinum og þá hófst skemmtidagskrá og ræður voru fluttar.
Forseti Póllands, borgarstjóri Varsjár og Timothy Shriver, sonur stofnanda Special Olympics, Eunice Shriver (systir John F. og Roberts Kennedy), hélt þrusu ræðu þar sem hann minntist einnig á að Solidarnosc (Samstaða) væri 30 ára á árinu. Mick Hucknall (Simply Red) rölti hringinn með bresku keppendunum og flutti einnig eitt lag, something got me started, við mikinn fögnuð áhorfenda ekki síst foreldra sem hafa örugglega flestir kannast við kauða og lagið. Eftir að dagskránni lauk biðum við eins og grúppíur baksviðs eftir íslenska hópnum og hittum þar loks son okkar sem bókstaflega ljómaði af hamingju.
Bewztju kzwedjur fra Polska
Yrisz og Eydwzur
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.9.2010 | 09:48
Fyrsti dagur Póllandsferðar
Ástæða þess að rykið hefur verið þurrkað af bloggþræðinum er ferð okkar hjóna til Póllands. Að fara til Póllands ereitthvað sem við áttum ekki von á að yrði að veruleika, ekki það aðPóllandsferð hafi verið sérstakur draumur hjá okkur, við erum bara einfaldlegaað elta 17 ára einhverfan son okkar landa á milli. Birkir er þátttakandi íSpecial Olympics sem haldnir eru í Varsjá í ár og það var ómögulegt annað en aðfara og fylgjast með, enda krakkinn að fara í fyrsta skiptið til útlanda ánmömmu og pabba. Betra að fylgjast með úr fjarlægð heldur en yfirhöfuð ekki.
Birkir lagðiaf stað til Póllands aðfaranótt miðvikudagsins 15. september og stefnirhópurinn á heimferð þann 23. september nk. Dætrum okkar, Eydísi og Diljá, tilmikillar gleði ákváðum við að skilja þær eftir í höndum ammanna og skella okkurmeð til Póllands. Planið er að ná hluta af leikunum, fara út að morgni 17.september og koma heim að kvöldi 21. september. Áætlað var að fljúga meðIcelandair til Noregs, bíða þar í um sjö klst., fljúga svo með Norwegianairlines til Varsjá. Þessa sjö tíma ætluðum við að nota til að heimsækja Rúnuog fjölskyldu, systur Eiðs, sem býr í Fetsund sem er ekki langt fráflugvellinum í Noregi. Þar var að sjálfsögðu búið að bjóða okkur í rækjudinner,nammi namm. Við ætlum svo að nýta okkur þjónustu Iceland Express á leiðinniheim en þeir fljúga á milli Varsjá og Keflavíkur nokkuð reglulega.
Þegar þetta erskrifað er komin nótt að pólskum tíma. Þessi fyrsti dagur Póllandsferðar okkarhjóna er að lokum kominn og er búinn að vera vægast sagt viðburðarríkur ognokkuð skrautlegur á köflum.
Stefnan vartekin á að vakna kl. 4 síðastliðna nótt þar sem flugvélin átti að fara í loftiðkl. 7:50 en það gaf okkur klukkutíma til að fara í sturtu og borða morgunmat.Við áttum aðeins eftir að henda nokkrum hlutum af snúrunni í tösku og þvílögðumst við lítið stressuð til svefns, kannski aðeins of lítið.
Um morguninnvaknaði ég við eitthvað og sá í gegnum hálflokuð svefnklesst augun tvær óljósarverur standa yfir rúminu okkar sem voru að ræða saman, þekkti ég þar dæturokkar. Það flaug í gegnum huga mér að ég væri stödd á líkvöku og ég sjálf værilíkið en komst fljótlega til vitundar um að ég væri nú sennilega ekki dauð.Næsta hugsun sem fór í gegnum huga mér var að ég eða Eiður ættum afmæli og tilstæði að vekja okkur með afmælissöng en það hringdi heldur ekki neinum bjöllum.Augun hvörfluðu loks upp í loft þar sem endurskinið af vekjaraklukkunni hansEiðs sýndi að klukkan væri 07:07. Þessi sýn kippti mér inn í raunveruleikann ogég gargaði á Eið, enn með svefnklesst augun, klukkan er orðin sjö við höfumsofið yfir okkur. Við hentumst út úr rúminu og á einhvern ótrúlegan hátt náðumvið að hendast í fötin, taka draslið og rjúka út í bíl á þremur mínútum. Áleiðinni út á flugvöll reiknaðistokkur til að við hefðum um 50 mínútur til að ná fluginu og byrjuðum við aðplana hvernig við færum að því að fá flugfélagið til að bíða eftir okkur. Okkurtókst eftir nokkrar tilraunir og símhringingar í 118 að hringja á flugvöllinnog þar svaraði lokst einhver kona sem sagði mér þá ótrúlegu frétt að fluginuseinkaði og vélin færi ekki í loftið fyrr en kl. 10. Þvílíkar fréttir, það ernú ekki eins og flugi sé seinkað um rúma tvo tíma á hverjum degi og að það hafihist akkúrat á þegar við þurftun á seinkun að halda er ótrúlegt. Þettta er einsog að vinna í happadrætti og við sem vinnum aldrei neitt og þá meina ég aldreineitt.
Við erum búinað vera með áskrift að einni röð í Lottó síðan árið 2003 og eru tölurnarafmælisdagar fjölskyldumeðlima. Við unnum til að byrja með 2-3 sinnum þrjárétta en ekki hefur komið vinningur á röðina í ca fimm ár. Ótrúlega lélegartölur en áskriftinni er að sjálfsögðu ekki hægt að segja upp þar sem tölurnarmyndust örugglega breytast mjög snögglega í vinningstölur eftir að við segðum uppáskriftinni.
En aftur aðaðalatriðinu. Við komst á flugvöllinn og það stóðst sem bjargvætturinn hafðisagt, seinkun til kl. 10. Mér tókst að kjafta mig inn á konuna í Saga Lounge ogherja út að komast í sturtu og síðan fengum við okkur morgunverð. Eftir það tókvið bið til kl. 10:15 og síðan aðrir tveir tímar í viðbót inn í flugvélinni þarsem ástæða seinkunar var sú að beðið var eftir farþegum frá New York semskiluðu sér seint og illa. Það var víst brjálað veður í NY sem orsakaði seinkuná ameríkufluginu sem hafði líka þessi fínu dominóáhrif á flugið til Noregs.Vélin fór loksins í loftið kl. 11:45, við hefðum svo sannarlega getað fengiðokkur sturtu og morgunmat heima og haft fínan tíma.
Þessi miklaseinkun varð þess þó valdandi að við höfðum minni tíma til að eyða í Noregi oghöfðum ekki tíma til að skreppa í heimsókn í Fetsund. Rúna kom til okkar einsog ákveðið hafði verið en í staðinn fyrir að fara heim til hennar settumst viðá ágætan hótelbar sem var aðeins í nokkra mínútna fjarlægð frá flugvellinum ogspjölluðum þar til tími var fyrir okkur Eið að taka vélina til Varsjá.
Flugið gekkágætlega, að vísu vorum við eins og í sardínudós, ég gat ekki sett niður borðiðhjá mér nema að reka hjarirnar á því í hnén á Eiði, þvílík þrengsli. Vélin vartroðfull og mest áberandi af farþegum voru meðlimir norskrar lúðrasveitar semer að fara að halda tónleika í Varsjá annað kvöld. Fransk-horn leikarinn sateinmitt við hliðina á mér og laumaðist reglulega til að staupa sig á flösku afGammel Dansk. Í lok flugsins tók hún um axlirnar á mér og drafaði að ég værihendes islandske venner J
Ferðin áhótelið gekk mjög vel og hótelið er nú nett ævintýri. Við erum upp á 17. hæð ogí stað útsýnis á steinvegg (það er nú venjan hjá okkur að enda inn á einhverjumsvoleiðis cheap herbergjum) erum við með frábært útsýni yfir borgina. Sloppurog inniskór, vatn, ávextir og konfekt biðu upp á herbergi, að vísu bara fyrireinn, spurning hvort að það hafi orðið einhver mistök við bókunina á hótelinu,veit ekki alveg hvort ég á að kvarta eða halda áfram að vera laumufarþegi.
Við fórum útað borða í kvöld á stað sem heitir því netta nafni 99. Þar fengum við mjöggóðan mat, ef maturinn verður svona það sem eftir er ferðar erum við í góðummálum.
Opnunarhátíðleikanna er ekki fyrr en annað kvöld og því ætlum við að túristast á morgun eneinnig hef ég fengið það verðuga verkefni að hjálpa eiginmanninum að kaupahanda sér jakka. Að sjálfsögðu veit ég um búð sem er kjörin í verkefnið, en þaðer H&M, sem passar að sjálfsögðu mjög vel inn í mín plön. Hvað hefði maðurað gera í útlöndum ef ekki væri H&M.
Meira ámorgun.
Pólskarkveðjur
Íris, skrifaðá föstudagskvöldi.
PS. Heyrðum í Birki áðan og allter að sjálfsögðu gott að frétta af honum.
Vantar myndir hér inn sem skýristaf því að engar myndir hafa ennþá verið teknar J
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.7.2010 | 05:03
Ferð á ströndina, BBQ og Boston
Eins og oft áður sit ég úti á palli í myrkrinu með tölvuna og blogga. Klukkan er 22:10 og hitamælirinn sýnir 80 á Farenheit úti, sem mér reiknast til að séu 26,67 á Celsíus en inni í húsinu er hitastigið 86 á Farenheit sem er 30 á Celsíus.
Það heyrist óvenju mikið af smellum, suði og tísti hér úti en ég sé ekki hvað er um að vera þar sem aðeins er birta frá tölvuskjánum og moskítókertinu. Ég held að það sé best að vera ekkert að kveikja ljósin. Einnig heyrast þrumur í fjarlægð, búið var að spá þrumuveðri hér í dag en það lætur bíða eftir sér. Að sjálfsögðu er rauðvínsglasið ekki langt undan enda verðum við Eiður að standa okkur í rauðvínsdrykkjunni ef við eigum að ná að klára Bota boxið áður en ferðin er á enda. Við erum nýkomin heim frá Boston en þar átti fjölskyldan mjög ánægjulegan dag. Þessa stundina erum ég og örverpið einar í húsinu fyrir utan tvo ketti, sem eru svo feimnir að þeir hafa varla sést, og nokkra fiska. Eiður, Birkir og Eydís fóru í búðina að kaupa síðkvöldssnakk og morgunmat.
En svo haldið sé áfram þar sem frá var horfið þá eyddu þrír fjölskyldumeðlimir aðfaranótt miðvikudagsins í kjallaranum, þ.e.a.s. þeir sem sofið hafa á efri og um leið heitari hæð hússins. Í kjallaranum er hitastigið aðeins ,,eðlilegra". Við fundum dýnu sem hægt er að blása upp ásamt rafmagnspumpu og á henni sváfum við Eiður um nóttina. Birkir svaf á nokkrum pullum úr sófunum í stofunni sem við lögðum á tjalddýnu sem við fundum líka í kjallaranum. Nóttin varð bærilegri fyrir vikið. Þegar við vöknuðum kom í ljós að flugukvikindin höfðu ekki alveg getað séð okkur í friði. Við erum útbitin sem má líklega rekja til gönguferðarinnar deginum áður en ég er þó sýnu verst. Eiður taldi um 20 bit bara á bakinum á mér svo er annað eins annarsstaðar á líkamanum, sum á vægast sagt mjög undarlegum stöðum.
Í gær hafði aðeins dregið úr hitanum og hann fór ekki upp í nema 95 á Fahrenheit (35 á okkar ástkæra og ylhýra selsíus). Við ákváðum að fara til Lake Wyola sem er í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá húsinu okkar og kom staðurinn okkur skemmtilega á óvart. Um er að ræða vatn sem er sennilega aðeins stærra en vatnið í Cazenovia og eins og þar eru hús við vatnið allan hringinn. Húsin eru þó aðeins minni og ekki eins ríkmannleg. Við vatnið er lítil skeljasandsströnd (örugglega manngerð) þar sem við komum okkur vel fyrir með strandstóla og handklæði. Afkvæmin fóru út í vatnið sem er eins heitt og sjórinn í Daytona Beach, að þeirra sögn, og þar eyddu þau næstu þremur klukkutímum. Eiður og ég sátum í okkar stólum og lásum bækurnar okkar á milli þess að við hlupum út í vatnið til að kæla okkur. Yndislegt
En fyrst verið er að minnast á bækur þá verð ég að segja frá því að við komuna hingað vantaði mig eitthvað að lesa. Í húsinu er til fullt af spennandi bókum og fljótlega rakst ég á bókina The Notebook. Ég er að sjálfsögðu búin að sjá myndina oftar en einu sinni en hef aldrei lesið bókina. Hún veldur ekki vonbrigðum, er í einu orði sagt yndisleg. Ég hef margoft verið komin að því að skæla hressilega yfir henni, alveg eins og yfir myndinni.
Úr því ég er farin að fara út í ,,detail" verð ég víst að minnast á bókina sem Eiður er að lesa. Hann pantaði hana á Amazon og það er saga Led Zeppelin, örugglega mjög áhugaverð en að öllum líkindum gjörsamlega laus við snýtiklúta.
En áfram með smjörið. Eftir strandferðina var farið á BBQ stað sem búið var að mæla með. Staðurinn sveik ekki, maturinn frábær og allt umhverfi staðarins skemmtilega hrátt og sjarmerandi. Menn sjá um sig sjálfir að mestu, fá matinn á pappadiskum og setja glös og hnífapör í þar til gerða bakka eftir notkun. Á staðunum var 9 holu míni golf þar sem fjölskyldumeðlimir gátu spreytt sig á meðan maturinn sjatnaði í mallanum.
Í morgun var ferðinni heitið til Boston. Þangað er rétt tæplega tveggja tíma akstur og var tíminn á leiðinni notaður í að blaða í gegnum Boston-kafla ferðabókar um New England. Til að skerpa aðeins á söguþekkingu manna var ég með húslestur á leiðinni og las upp úr vel völdum köflum bókarinnar þar sem farið var í gegnum sögu Boston. Þrátt fyrir að við Eiður höfum margoft komið til Boston höfum við aldrei komið til Cambridge og ákváðum við að löngu tímabært væri að skoða þann hluta Boston og því var ferðin hafin þar. Í Cambridge er mjög gaman að koma, svæðið er eins og míní útgáfa af Boston, mjög líflegt. Mjög heitt var í veðri, örugglega vel yfir 90 á Fahrenheit. Við fórum inn á Harvard svæðið, inn í Harvard Book Store, röltum aðeins um svæðið og fengum okkur að borða. Síðan lá leiðin inn í Boston, það hafðist þó ekki fyrr en eftir nokkrar tilraunir þar sem GPS frúin var ekki alveg tímanlega í að segja hvort beygja ætti til hægri eða vinstri. Eftir nokkrar vitlausar beygjur með tilheyrandi bölvi og ragni hafðist þetta allt saman.
Boston var yndisleg að venju. Þar var byrjað á að rölta um Washington Street og síðan farið niður á Fenueil Hall svæðið. Þar var rölt um svæðið, horft á götulistamenn, sem stelpunum fannst sérstaklega skemmtilegir, borðað inni í Quincy Market og að lokum lá leiðin í Borders bókabúðina við School Street þar sem fjárfest var í matreiðslubók og nokkrum tímaritum skellt í pokann í leiðinni. Á leiðinni í bílinn var komið við í eld-, eld gamla kirkjugarðinum á Tremont street sem er frá 17. öld.
Nú er Eiður kominn heim, með ítalskt brauð í farteskinu og ólífur af ólífubarnum og verður þessu skolað niður með ofangreindu rauðvíni. Hér er einnig mættur Cooper köttur en hann er nágrannaköttur sem hefur komið reglulega í heimsókn til okkar. Hann er mjög flottur, mjög loðinn og ljónslegur.
Í þessum skrifuðum orðum er byrjað að dropa. Langþráð rigning er mætt á svæðið og viðbrögðin láta ekki á sér standa, rekið er upp indjána gleðiöskur. Ég get þó trúað því að af rigningunni eigum við eftir að fá nóg þegar heim verður komið.
Síðasti heili dagurinn okkar hér verður á morgun. Deginum verður eytt í pökkun og þrif og spennandi verður að sjá hvort að allt kemst í töskurnar eða hvort að ferðinni verður heitið í næsta moll til að bæta úr töskuleysi. Einnig stendur til að fara í alvöru mínígolf annað kvöld.
Líklega er þetta síðasta bloggfærslan sem færð verður í þessari ferð en smá möguleiki er á að tími verði til að skella inn smá texta annað kvöld. Ef ekki þá sjáumst við á klakanum.
Knús og kram frá Montague, MA, BNA.
Íris
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 05:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.7.2010 | 03:12
Við suðumark í Montague
Hér er það helst að frétta af fjölskyldumeðlimum að þeir eru komnir að suðumarki, íslensku skilningarvitin þola vart meir. Við erum stödd í hitabylgju og það í húsi sem ekki er með lúxus eins og loftkælingu og sundlaug. Hitinn í gær fór í 101,8 á Fahrenheit sem mér skilst, eftir mjög áreiðanlegum heimildum, að sé 38,778 á Celsíus. Hitinn í dag var skömminni skárri ekki nema 99,2 á Fahrenheit sem er 37,333 á Celcíus. Eins og sjá má eru fjölskyldumeðlimir orðnir mjög lunknir við að breyta úr Fahrenheit yfir í Celsíus með mörgum aukastöfum.
Eins og gefur að skilja hefur allur þessi hiti hægt mjög á viðbrögðum og rökréttum hugsunum fjölskyldumeðlima enda er hitinn inn í húsinu enn hærri en úti. Þetta hefur haft áhrif á margt eins og t.d fjölda bloggfærslna undanfarið. Eitt af því sem enn er verið að rembast við er að elda heima. Eftirfarandi er ágæt lýsing á því ferli: kjarki er safnað, farið inn í eldhús, kveikt á gasinu, peppeintal hefst með orðunum ,,þú getur þetta" (eins og Vala Flosa í Sidney), einhverju matarkyns hent á pönnuna og það steikt, slökkt á gasinu, hlaupið út með svitadropana hangandi á nefinu, kjarki safnað og sami hringurinn byrjar aftur. Ætt er aftur inn í eldhús, kveikt á gasinu, meira steikt á pönnu, tekið úr ofninum, sagt upphátt: ,, ég get ekki meir", hlaupið út og kjarki safnað á ný.
Þessa stundina stendur yfir eldamennska á dýrindis HM- túnfiski þ.e. túnfiski frá Suður Afríku sem borinn verður fram með chilli og fennel sósu og skolað niður með dýrindis Shiraz Bota Box rauðvíni. Ég sit, eins og prinsessa, andstætt mínum ektamanni, úti að sjálfsögðu, og horfi á hann svitna við að skera chilli pipar og fennel og kreista sítrónur. Yngstu fjölskyldumeðlimirnir fussa og sveia yfir matseðlinum og fengu því pizzu í staðinn.
En svo rifjaðir séu upp síðustu þrír dagar. Á mánudag var ferðinni heitið í outletið í Wrentham, eins og til hafði staðið. Við vorum mætt á staðinn um háegi og við okkur blasti raðir af bílum og örtröð af fólki enda var síðasti dagur í 4th of July sale sem er stór útsöluhelgi hér í BNA. Við versluðum slatta og að íslenskum sið vorum við með þeim síðustu sem yfirgáfu svæðið þetta kvöld. Á leiðinni heim stoppuðum við í bæ við hraðbrautina sem heitir Franklin og skelltum okkur í kvöldmat á mexíkóskum stað, þar sem ég var titluð senjora og Eiður amígó.
Nóttin var rétt bærileg í húsinu með hjálp nokkurra misgóðra vifta sem fundust í kjallaranum. Næsta degi var eytt í rólegheit, ekki annað hægt vegna hitans. Horft var á leik Úrúgvæ og Hollands vopnuð viftum og voru niðurstöður leiksins húsmóðurinni mikil vonbrigði.
Eftir leikinn brettu menn upp ermar, skelltu sér í föt og út í bíl. Var ferðinni heitið í Holyoke mollið. Þar var stefnt á að klára innkaup ferðarinnar og hafðist það, nánast. Það er alveg ótrúlegt hvað listinn lengist alltaf. Að sjálfsögðu var kvöldmatur snæddur heimavið og í þetta sinn voru eldaðir dýrindis hamborgarar að hætti Yesmine, mjög hollt og gott
Eftir ögn skárri nætursvefn í nótt en síðustu nótt, sem má þakka örlítið lægra hitastigi, voru gönguskórnir reimaðir og ferðinni heitið til Wendell State Forest. Þar var farið í klukkustunda langa skógargöngu í kringum vatn.
Eftir gönguna smelltu menn sér í sundföt og skelltu sér í sund á vatninu, sem var í líkamshita, alveg dásamlegt. Eftir sundið var stefnan tekin heim, horft var á leik Spánar og Þýskalands en niðurstöður þess leiks urðu húsmóðurinni mikil vonbrigði. Tveir vonbrigðadagar í röð, eins gott að við verðum í flugvél þegar úrslitaleikur HM fer fram, ekki víst að hjartað þoli meira.
Þau ánægjulegu tíðindi bárust okkur í morgun að Salka, ólétta unglingslæðan okkar, er orðin mamma. Það, að sjálfsögðu, gerir okkur Eið að afa og ömmu. Ester, systir, var tilbúin með heita vatnið og handklæðin og tók á móti kettlingunum þremur og stóð sig eins og hetja, eins og henni er von og vísa. Nú er kattafjöldinn á heimilinu orðinn sex stykki, úff. Næstu mánuðir ættu að verða býsna skrautlegir og skemmtilegir í Fögrubrekku.
Ekki er búið að ákveða dagskrá morgundagsins enda hefur hitinn gjörsamlega sett strik í öll plön fjölskyldunnar. Engin heil brú er í ákvörðunum og vonast er eftir að þrumuveður í kvöld eða á morgun muni bjarga geðheilsu manna en þessa stundina heyrist í þrumum í fjarlægð. Nema að það sé bara einhver maður á ferð með mjög stuttan kveikiþráð, vegna hitans, að skella hurðum, hver veit. Hitastigið á Íslandi er farið að hljóma mjög aðlaðandi.
Suðukveðjur frá Montague, MA, BNA
Íris
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Við erum aftur mætt í litla kósý húsið á 48 Randall Wood Drive í Montague, MA. Klukkan er 21:30 og ég sit sveitt út á palli (hiti 29 stig) í þessum yndislega garði við bjarmann af moskító kertinu mínu góða, með rauðvín í glasi (hvað annað), horfi/heyri í flugeldasýningu, horfi á elduflugurnar og á meðan mallar coq au vin á eldavélinni inn í eldhúsi.
Eins og sjá má á fyrri færslu http://www.fagrabrekka.blog.is/blog/fagrabrekka/entry/252512/ eyddi fjölskyldan og ömmur níu dögum hér í þessu húsi í ferð okkar um BNA árið 2007. Þetta hús er alveg frábært. Í fyrri heimilisskiptum höfum við gist í höllum en þetta hús er ekki þannig en það sýnir manni að það er ekki stærðin sem skiptir máli heldur andinn í húsinu og í þessu tilfelli er hann virkilega notalegur. Hér er virkilega kósý og okkur líður svolítið eins og að vera komin heim.
Síðasta deginum í Cazenovia var eytt í algjörum rólegheitum. Eiður horfið á báða leiki HM, stelpurnar voru í sundlauginni, ég lá í sólbaði og kláraði að lesa bókina mína, enda hafði veðrið heldur betur tekið við sér, sól og 25 stigi hiti. Við tókum síðan stuttar rispur í þ og þ (þrif og þvott) á milli. Stefnt hafði verið á bátsferð eftir mat en það klikkaði vegna kunnuglegs vandamáls þ.e. rafmagnsleysis. Flotta bláa græjan dugði heldur ekki til þar sem hún var rafmagnslaus, skipstjórinn hafði greinilega gleymt að hlaða stuðtækið. Fólk hafði því ofan af sér þetta kvöld með ýmsu móti, mest var þó horft á sjónvarp og internetið kannað.Daginn eftir var klárað að pakka og þrífa og horft á hinn frábæra leik Þýskalands og Argentínu. Eftir að hafa horft upp á tap Brasilíu fyrir Hollendingum ákvað ég að halda með Þjóðverjum og svo var planið að halda með Úrúgvæ ef/þegar Þjóðverjar dyttu út. En hvað veit maður, Þjóðverjar unnu virkilega ánægjulegan sigur.
Lokaverkið var að telja fermetra, rúður, flugnanet, rennihurðir og sæti í húsinu og hér á eftir fara niðurstöður þeirrar talningar:
Rúður = 435 - Þar af rennihurðir = 21
Flugnanet = 134
Sæti = 69 (sætin í Daytona-húsinu 2007 voru 97 en það var minna hús)
Fermetrar hússins = 700 !
Lagt var af stað til Montague um kl. 14:30 en komið var við í Kimberly's ice cream og fengið sér mjög góðan heimagerðan ís sem mikið var búið að mæla með. Ísinn stóðst væntingar og við tók fjögurra tíma akstur til Montague sem gekk mjög vel. Við vorum mætt í húsið í Montague um kl. 20 eftir nokkur stopp.
Í dag er 4. júlí sem er þjóðhátiðardagur BNA. Þetta er í þriðja skiptið á fjórum árum sem við erum í BNA á þessum degi. Í fyrsta skiptið, þ.e. 2007, fóru hátíðarhöldin algjörlega framhjá okkur sem er nú ekki eingöngu að kenna okkar sjóndepru heldur halda bæirnir upp á 4. júlí á misjöfnum dögum. Sumir eru með skrúðgöngur og flugeldasýningar 2. og 3. júlí. Þetta er gert, skv. því sem Michelle segir, (húsfreyjan í húsinu), til þess að bæirnir séu ekki í samkeppni, samráð á mörkuðum, hm hm. Árið 2008 áttið fjölskyldan frábæran dag með sannkallaðri þjóðhátíðarstemningu hjá Ómari Karvelssyni og fjölskyldu í Houston, Texas.
Í dag var ferðinni heitið til Amherst, sem er nokkuð stór háskólabær hér sunnan megin við okkur. Justin, sem er húsbóndi heimilisins og íslandsáhugamaður nr. 1, er með doktorsgráðu í efnafræði og kennir við University of Massachusetts í Amherst. Við sáum ekta BNA skrúðgöngu sem gengur út á að bílalest, að mestu leyti, (inn í henni eru allskonar bílar, fornbílar, trukkar og vinnuvélar) keyrir eftir Aðalstræti (Main Street- sem allir bæir í BNA virðast hafa) og þenur flauturnar og hendir sælgæti og kleinuhringjum til áhorfenda við mikinn fögnuð þeirra. Diljá tók þátt í safna saman sælgætinu sem var hent úr bílunum en Eydís segist vera orðin of gömul. Diljá náði að safna svo mörgum kleinuhringjum að eftirréttur kvöldsins er í boði hennar. Eftir skrúðgönguna var farið á stórt opið svæði þar sem fólk safnaðist saman og tók þátt í ýmsum leikjum. Svolítið íslenskt.
Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á veðrið. Aðeins eitt orð er fært um að lýsa þeim aðstæðum; HEITT. Hitinn fór í 32 stig í dag, en það sem bjargaði okkur var að það var hálfskýjað. Hitastigið er aðeins of hátt fyrir kulþolna íslendinga , sem eru góðu vanir. Í húsinu er engin loftkæling og hitastigið inni er þessa stundina 27 stig. En við bítum bara á jaxlinn og tökum pollýönnu á þetta.
Á morgun er stefnan tekin á verslunarferð til Wrentham en þangað höfum við margoft komið og stefnt er á að klára verslunina á þriðjudag með ferð til Holyoke mollsins. Það moll var einnig heimsótt árið 2007 með góðum árangri
Knús og kossar frá Montague, MA
Íris