Niagara Falls, miðbær Syracuse og BBQ

p1000257.jpg

Samkvæmt áætlun var gærdeginum eytt í Niagara falls, Kanada megin. Lagt var af stað um morguninn kl. 9:15 og stoppað var einu sinni á leiðinni í hádegisnæringu á amerískum diner í litlum bæ við hraðbrautina. Frekar skítugur en stílhreinn veitingastaður og í anda ferðarinnar.

 

 

img_9951.jpg

Farið var yfir landamærin til Kanada en þau liggja um miðja Niagara ána og á milli fossanna tveggja. Stærri fossinn, sem er kallaður Horseshoe falls (skeifufossinn), er Kanada megin en minni fossinn, kallaður American falls (ameríski fossinn), er BNA megin.

 

 

img_9958.jpg

Útsýnið yfir fossana er mun betra Kanada megin og var búið að ráðleggja okkar að eyða deginum frekar þar en BNA megin. Þessi bær er ólíkur því sem ég var búin að gera mér í hugalund. Ég sá fyrir mér svona saklausa Gullfoss og Geysir kósý stemningu en ónei, að koma þarna er eins og að vera komin á brjálaða sólarströnd. Mikið er af hótelháhýsum frá öllum mögulegum hótelkeðjum, þar sem allt gengur út á að selja útsýni. Gífurlegur túrismi, mikið líf og verðlagið framkallaði nokkur auka hjartaslög hjá verðbólgnum, gengisþjáðum og vaxtapíndum Íslendingum. 

p1000293.jpg

Við skelltum okkur að sjálfsögðu í ferð með ,,Maid of the mist" sem er bátur sem siglir alveg að skeifufossinum. Við fengur afhendar skærbláar regnslár en urðum samt rennandi blaut og sáum ekki út úr augum þegar við vorum staðsett í mesta úðanum af fossinum, stórskemmtileg bátsferð.

 

 

Einnig fórum við á stutta bíósýningu í 4D um uppruna fossanna, fengum á okkur snjóflyksur, vind og rigningu en annars var lítið varið í þetta, sérstaklega þegar sýningin er borin saman við sýningar sem við fórum á í Disney görðunum í 2007 ferðinni. Búið var að ákveða að fara á brasilískan steikarstað og borða en þar sem við áttum ekki til fleiri auka hjartaslög á lager var ákveðið að skella sér frekar á einn ítalskan í staðinn, þó ekki væri hann nú beint hjartastyrkjandi.

p1000327.jpg

Eftir matinn var rölt um svæðið og kíkt á mannlífið en auðvelt væri að eyða heilli viku þarna og hafa nóg við að vera allan tímann. Við vorum staðráðin í að sjá fossana eftir sólarlag, þar sem þeir eru upplýstir, og biðum við í dágóðan tíma eftir að ljósin væru kveikt, sumum var orðið verulega kalt. Eftir ljósasýninguna tók við þriggja tíma akstur í húsið og voru menn orðnir vel lúnir þegar heim var komið.

Í morgun fengu allir að sofa út. Skipstjórinn og Eydís hafa ekki alveg sagt skilið við íslenska tímann og vakna alltaf á undan öðrum en við hin náðum að kúra lengur. Ferðatöskurnar voru aðeins mátaðar í dag og stelpurnar eyddu tveimur klst. í sundlauginni. Seinni partinn ákváðu gamlingjarnir að kíkja aðeins inn í Syracuse og leita að miðbænum. Vísir af honum fannst á Armory Square með dyggri aðstoð GPS konunnar. Ekki var bærinn neitt sérstaklega líflegur, meira eins og Austurstrætið í 15 ms. og 5 stiga frosti. Víða er þó hægt að sjá veitingastaði og bari sem bjóða upp á borð og stóla úti sem er nú meira en hægt er að segja um flestar aðrar borgir BNA sem við höfum komið til. Við mátuðum aðeins stólana og borðið á einum staðnum áður en við lögðum í hann heim aftur.

p1000334_1005473.jpg

Við áttum deit við litla lögfræðinginn í kvöld en hann var svo rausnarlegur að bjóða okkur út að borða á BBQ stað sem heitir Dinosaur Barbecue. Staðurinn er mjög sérstakur, ,,mótorhjólatöffarastaður" enda um gamalt mótorhjólaverkstæði að ræða. Mennirnir sem áttu verkstæðið stofnuðu veitingastaðinn og seldu hann síðan til annars ríkasta manns heims (við erum svo púkó að við þekktum ekki nafnið en hann heitir Zorro eitthvað...) og eru sjálfir milljónamæringar í dag. Fullt var út úr dyrum, mikil stemning og maturinn alveg frábær. Við áttum mjög skemmtilegt kvöld, enda er litli lögfræðingurinn mjög viðkunnalegur og skemmtilegur maður.

Á morgun er síðasti dagurinn okkar hér og er stefnt á að leggja af stað til Montague eftir fyrri HM leik á laugardag en áætlaður ferðatími er 4 klst. Dagurinn á morgun fer í pökkun og þrif en síðan á að enda daginn með stæl. Elda á Fruits de Mer á la Provencale (hörpudisk og rækjur í hvítlauk) og eftir kvöldmat er stefnt á bátsferð inn í bæ til að kaupa ís.

Fremur kalt hefur verið í veðri hér undanfarið, lítil sól og frekar vindasamt. Hitinn í dag hefur líkleg ekki verið hærri en 17-18 stig sem er eins og 10-12 stig heima, en spáð er hlýnandi veðri á laugardag og í næstu viku er gert ráð fyrir 32-36 stiga hita í Montague. Stefnan er tekin á að nota a.m.k. einn dag í sólbað í næstu viku. Það er nú hálf leiðinlegt að koma heim frá útlöndum jafn hvít og þegar við fórum út. 

290647_image.jpg

Þessi færsla var gerð undir áhrifum af glasi af hvítvíni sem ber það virðulega nafn Rex-Goliath - Giant 47 Pound Rooster Chardonnay en næsta bloggfærsla verður að öllum líkindum framkvæmd í Montague, undir áhrifum hvers verður svo bara að ráðast af úrvalinu.

Kveðja frá N.Y 

Íris 

 


1000 eyjarnar, bátsferð og fyrsta skóparið

Nú er ég aftur mætt fyrir framan tölvuna. Við stóru eyjuna, í stóra eldhúsinu, í stóra húsinu í stóra landinu og í þetta skiptið er bloggað við undirspil Bob Marley. Skipstjórinn sýnir ævintýralega takta í eldhúsinu við marineringar-gerð og er búinn að galla sig upp í þykkan fatnað, þannig að ekki sést í hvítt, og herðir sig nú upp í að mæta örlagavaldi sínum við grillið úti, þ.e. moskítóflugunni. Öll erum við bitin í klessu og má útganginn rekja til gönguferðarinnar um stöðuvatn bjóranna, að við höldum. Búið er að reyna nokkrar tegundir af moskítóvörnum og inntöku ofnæmislyfja en ekkert virðist virka.

img_9878.jpg

Deginum í gær var eytt á svæði sem ber nafnið The Thousand Islands (nú er gátan um 1000 eyja sósuna leyst, en hún er upprunin þaðan) og er staðsett út frá austurhluta Lake Ontario. Um tveggja tíma akstur er til Alexandria Bay, þangað sem ferðinni var heitið, en þar fórum við um borð í bát og við tók rúmlega tveggja tíma dýrðleg bátsferð um eyjasvæðið með leiðsögn. Hér á eftir fer fram stutt endursögn, færð í stílinn að sjálfsögðu.

img_9876.jpg

Um er að ræða ca. 1800 eyjar (BNA og Kanada eru búin að telja þær) af öllum stærðum og gerðum og eru stærstu byggðu eyjarnar um 4x Heimaey en sú minnsta um 15 m2. Á flestum minni eyjunum er eitt til þrjú hús að finna, fremur stór, og á minnstu byggðu eyjunni er aðeins eitt hús sem tekur alla eyjuna og heitir eyjan því viðeigandi nafni ,,Just Big Enough".  

img_9888.jpg

Eðli málsins samkvæmt er aðeins hægt að komast á eyjarnar á báti og menn verða sjálfir að sjá sér fyrir rafmagni og vatni og við það eru ýmsar aðferðir notaðar. Aðal uppgangstími svæðisins var seint á 19 öld og fram til um 1930, þegar kreppan skall á. Þarna keyptu milljónamæringar sér eyjur og byggðu stór hús sem þeir nýttu hluta af ári, en aðeins er hægt að búa þarna í um þrjá mánuði á ári (hljómar kunnuglega). Frostið fer niður í um 50 stig, vatnið leggur og fólk sem á peninga hefur víst ekki áhuga á að eyða tíma sínum í slíkar aðstæður Smile Einnig má nefna að svæðið er á landamærum BNA og Kanada og strangt til tekið fórum við inn í Kanada þegar við sigldum á bátnum, þó ekki fengjum við stimpil í passann. Úr því verður þó bætt á morgun.

img_9895.jpg

Eftir að bátsferðinni lauk, sem Diljá stýrði að hluta (sjá mynd,) var rölt um bæinn sem er mjög skemmtilegur og keypt var ísskápsmerki, að sjálfsögðu. Á leiðinni heim var komið við í pínulitlum bæ sem heitir Sackets Harbor en þar var stærsta skipasmíðastöð BNA í stríðinu við Englendinga árið 1812. Við sáum svo sem ekki mikil merki stríðs í þessum bæ en gengum fram á veitingastað sem staðsettur var við vatnið og skv. matseðli, sem auglýstur var fyrir utan, bauð hann upp á íslenska ýsu. Ákveðið var að slá frekar í ísveislu en ýsuveislu og síðan var keyrt heim. Á leiðinni var komið við í búðinni sem við höfum verslað við frá fyrsta degi, Wegmans, alveg frábær verslun. Ákveðið var að kýla á Sushi sem menn átu með bestu lyst þegar heim var komið. Kvöldið endaði síðan á endursýndum leik Brasilíu og Chile og voru úrslitin mikil gleðiefni fyrir húsmóðirina sem hefur verið dyggur stuðningsmaður Brasilíu undanfarin 20 ár.

p1000247_1004818.jpg

Í dag var ákveðið að taka daginn fremur rólega framan af. Eftir að skipstjórinn var búinn að horfa á fyrri HM-fótboltaleikinn var farið í rúmlega klukkutíma göngu um Highland Forest Park. Raunar var fyrri HM leikurinn svo leiðinlegur að lagt var í ferðina þegar framlenging var að hefjast og úrslit vítaspyrnukeppni fengin með boltavaktinni. Garðurinn er mjög fallegur og vel skipulagður (fyrirmynd annarra garða varðandi skipulag, en okkur tókst samt að villast aðeins en það erum bara við) og eftir það var farið heim og horft á síðari leik dagsins milli Íberíuskagararisanna. Eftir leikinn var haldið í mollið og mér tókst loksins að festa kaup á mínu fyrsta skópari í ferðinni Smile, mikil gleði.

Búið var að ákveða að hafa Coq au Vin (gamlan seigan hana/kjúkling eldaðan upp úr víni) í kvöldmatinn en sú eldamennska klikkaði aðeins á tíma enda ég ekki búin að klára skókaupin fyrr en klukkan 19:30. Fjárfest var í pítsu handa yngri kynslóðinni en sú eldri ætlar að grilla nautasteik, sæta kartöflu, ferskan aspas og grænmeti og að sjálfsögðu að drekka rautt með því. Á eftir verður svo dýrindis eftirréttur, einnig keyptur í Wegmans.

Á morgun er ráðgert að fara í dagsferð til Niagara Falls. Stefnt er á að kíkja aðeins á fossana, fara út að borða á brasilískum stað og aka síðan heim, en rúmlega þriggja tíma akstur er til fossanna héðan. Litli lögfræðingurinn vill endilega fara með okkur út að borða á Barbeque stað og eigum við deit við hann á einn slíkan n.k. fimmtudagskvöld.

Farið er að síga á seinni hluta fyrri hluta ferðarinnar en margt er ennþá á dagskrá hjá fjölskyldunni og mun ég áfram blogga um það sem fyrir augu ber.

ES. Takk fyrir kveðjurnar, alveg frábært að lesa þær. Fengum póst frá litlu konunni sem nú er stödd í húsinu okkar á Íslandi. Hún sagðist hafa hitt konu í bænum sem þekkti okkur og hafði séð mynd af húsinu hennar á Facebook-síðunni okkar (kannski á blogginu), hún var gjörsamlega hlessa Smile

Knús og kreist frá 5059 E. Lake Road, Cazenovia

Íris 


Ferð til Albany, ganga um stöðuvatn bjóranna og bátsferð með smáréttum

Takk fyrir kveðjurnar, það er mjög gaman að lesa þær Smile 

Dagurinn í gær fór að mestu í ferð til Albany, sem er höfuðborg New York fylkis, en þangað er tveggja klukkustunda akstur á hraðbrautum. Tilgangur ferðarinnar var sambland af praktík og skemmtun þar sem við áttum stefnumót við Montague fólkið, sem við skiptum við árið 2007, en við höfum haldið sambandi við þau síðan. Við hittum þau á amerískum diner og áttum með þeim tveggja klukkustunda mjög skemmtilegan og ánægjulegan hádegisverð. Þau eiga tvo bíla og afhendu þau okkur annan þeirra en það sparar okkur bílaleigubíl þegar við förum í seinni skiptin til þeirra. Ég keyrði sveitabílinn (Chrysler Town and Country) heim en skipstjórinn fékk það hlutverk að keyra Subaruinn heim.

p1000152.jpg

Þegar heim var komið eldaði skipstjórinn hið dásamlega góða og holla kotasælu-grænmetis lasagna en annars var kvöldinu eytt í að horfa á endursýndan leik BNA og Ghana á HM. Úrslitin voru svolítil vonbrigði, við erum nú nett farin að halda með BNA, ekki annað hægt en að hrífast með, enda dásamlegt að fylgjast með í sjónvarpinu þegar sýnt er frá stöðum þar sem fólk er að safnast saman á til að horfa á leikinn. Svipað og þegar Ísland er að keppa til úrslita í handbolta á stórmóti.

Í morgun var að sjálfsögðu horft á slátrun Þýskalands á Englandi á HM og vöktu úrslitin netta gleðitilfinningu meðal eldri heimilismanna. Einnig fengum við heimsókn frá litla lögfræðingnum sem er kominn heim frá Íslandi, á rósrauðu skýi. Hann hjálpaði okkur við að laga það sem að er á bátnum og gera hann siglingahæfan en einnig tók hann hluta af fjölskyldunni út á vatrnið á hraðbátnum.

p1000158.jpg

Þegar hann yfirgaf svæðið lögðum við af stað í göngu en ferðinni var heitið til Beaver lake nature center sem er um 30 mínútna akstur frá okkur. Þar löbbuðum við stíga sem mælast samtals 4 mílur sem er um 6,4 km og tók það okkur um 1 1/2 km að labba þetta. Þetta reyndist vera yndisleg gönguferð. Við vorum nánast allan tímann í trjágöngum og sáum froska, snáka, Hannesa (íkorna) og fleiri skemmtileg dýr á leiðinni.

p1000198.jpgÞegar heim var komið var ákveðið að þar sem búið væri að laga bátinn væri upplagt að skella sér í bátsferð og borða kvöldmat á vatninu. Við vorum í miklu kappi við tímann þar sem veðurspáin sagði að von væri á þrumuveðri kl. 20:30. Voru Mikka mús regnslárnar frá Disney 2007 teknar með til að vera við öllu búin, en þær hafa fylgt okkur í allar ferðir síðan 2007, en sjaldan þurft notkunar við. Við áttum yndislega stund á vatninu sem var einstaklega stillt og einnig var mjög hlýtt, 28 stiga hiti. Allt gekk vel þar til skipstjórafrúin krafðist þess að skipstjórinn dræpi á bátunum og sæti til borðs með heimilismönnum meðan kvöldmatur væri snæddur, sem er nú bara eðlileg krafa. Skipstjórinn lét undan eftir nokkrar fortölur en það stóðst að þegar setja átti bátinn í gang var hann rafmagnslaus. Við höfðum nú sem betur fer tekið með okkur árar í bátinn og sáum fyrir okkur að við myndum róa í land. Skipstjórinn tók þá upp úr pússi sínu fagurblátt tæki sem innihélt galdraklær og sáu þær um að gefa vélinni rafstuð, eins og með hjartastuðtæki. Þetta svínvirkaði, sem betur fer, því að í sama mund byrjuðu dropar að falla. Regndroparnir urðu þó aldrei fleiri en tveir og veðspáin á netinu, sem búið er að styðjast við undanfarna daga, sannaði endanlega gildi sitt sem algjörlega ónothæf. Við sigldum því rólega í land, þurr og södd.

p1000214_1004070.jpg

Þessa stundina sit ég í yndislega hlýju veðri á bryggjupallinum með moskítókertið góða, sem ég keypti í Yankee Candle, og skrifa þetta blogg ásamt fullt af flugum sem laðast að björtum tölvuskjánum. Horfi á eldflugur sveima, heyri brak í kvistum og trjágreinum og það er aldrei að vita nema að dádýr séu á ferðinni niður að vatninu til að fá sér vatn að drekka, eða Hannesar eða Snar og Snöggur, það er nóg af þeim hérna. Niðamyrkur er, aðeins er um að ræða ljósglampa á vatninu frá húsunum hinum megin við vatnið. Þetta er yndislegt.

Á morgun er stefnan tekin á Thousand Islands sem er við Alexandria Bay.

Meira síðar

Knús og kossar frá bryggjupalli við Cazenovia Lake

Íris 


Rólegur dagur heima, Landon Donovan og ömmur á heimleið

Nú hefur betri helmingur ferðalanganna yfirgefið svæðið. Þeim var í dag pakkað snyrtilega í flugvél frá Syracuse til New York og erum við, sem eftir sitjum, að treysta á að þær rati sjálfar um borð í Icelandair vél á leið til Keflavíkur.

Síðasti dagur ammanna var nýttur í rólegheit, að mestu leiti. Fyrst var horft á leik Ítala og Slóvaka, bráðskemmtilegan leik sem þandi taugarnar hjá þeim sem eru hallir undir Ítalíu.

landondonvan415_1003411.jpg

En fyrst ég er farin að tala um fótbolta þá er ekki annað hægt en að minnast á áhuga BNA-manna á HM. Sigurmark Donovan í leik BNA og Alsír er endursýnt svona 20 sinnum á dag ásamt tveggja snýtiklútaviðtali við Donovan, þar sem hann brestur í grát yfir öllum erfiðleikunum sem hann er búinn að ganga í gegnum á árinu, sem er endursýnt álíka oft. BNA halda ekki vatni yfir árangrinum án þess þó að við verðum vör við mikinn gleðibankafíling. Eitthvað fyrir íslendinga að læra af þ.e. að halda sig niðri á jörðinni. 

En áfram með smjörið. Eftir leikinn var arkað af stað (keyrt) í Bed, Bath & Beyond til að festa kaup á ryksugu. Það er eins og engin útlandaferð hjá fjölskyldunni geti verið án þess að fest séu kaup á ryksugu Smile Önnur ammanna sá fyrirbærið á heimilinu og fékk sýnikennslu í notkun tækisins frá litla eiganda hússins og fannst þar með upplagt að fjárfesta í einu slíku. Þegar heim var komið úr búðaferðunum var horft á HM leiki sem ekki voru eins dramatískir og morgunleikurinn góði. 

p1000063_1003408.jpg

Þegar leikurinn var búinn var skipstjórinn loks orðinn viðræðuhæfur og ákveðið var að meðan Osso bucco-ið mallaði í ofninum skyldi tekin bátsferð. Að sjálfsögðu var fordrykkur á bátnum, en í för var hvítvínskýr, glös og kók fyrir börnin. Þessi bátsferð hófst og endaði án vandræða ólíkt þeirri fyrri. Vatnið og svæðið í kringum er alveg dásamlegt og við sáum á leiðinni tvö til þrjú hús auglýst til sölu :) það er mjög freistandi fjárfesting fyrir vel stæða Íslendinga Wink

p1000143.jpgEftir bátsferðina var Osso-ið tilbúið og það snætt á pallinum við bryggjuna ásamt franskri hvítlaukskartöflumús (heimagerðri að sjálfsögðu) og góðu rauðvíni. Kveiktur var eldur í útiarninum, sem er staðsettur á pallinum góða og börnin og Birkir (hann er ekkert barn lengur að eigin sögn) grilluðu sykurpúða. Kvöldmaturinn endaði á súkkulaði-pæi og kaffi og súkkulaði smákökum fyrir Birki. Kvöldið endaði síðan á Scene-it spili sem er Disney spil sem Diljá gróf upp hér á heimilinu og er samblanda af borðspili og DVD spili. Skipt var upp í lið og stal lið Diljáar sigrinum á lokametrunum. Eitthvað fór rauðvínið í svefntaugar sumra og þátttaka ammanna hafði ekki úrslitaáhrif þetta kvöld. Stefnan er tekin á annan slag síðar Happy

Dagurinn í dag hófst á HM leik, hundleiðinlegum leik brassa og portúgala, síðan var ömmunum skilað í flug eins og áður hefur komið fram. Komið var við í nokkrum búðum á leiðinni heim enda var stefnan tekin á aðra bátsferð með rækjum, brauði og majónesi ásamt hvítvíni. Ég og skærbleika OPI naglalakk yngri dóttur minnar höfum átt notalega stund á pallinum við bryggjuna í dag á meðan Eiður skrapp í sundlaugina með stelpunum. Báturinn er eitthvað að stríða okkur og fer ekki í gang þannig að við örvæntum ekki, við stefnum að sjálfsögðu á bryggjupallinn með rækjurnar, hvítvínið og moskítóúðann. Á morgun er stefnan tekin á Albany, NY til að hitta Justin og Michelle, fólkið sem við skiptum við í Massachusetts og við rífum af þeim sjálfrennireið sem við hyggjumst aka frá Cazenovia til Montague, MA þegar sá tími kemur.

Moskítókveðjur frá Cazenovia-vatni, upstate New York

Íris

ES. Takk fyrir allar kveðjurnar, sérstaklega Ingólfur. Gaman væri að fá fleiri kveðjur.


Verslunarferðir og bíó

Verslunabakterían hefur náð yfirhöndinni hjá fjölskyldunni góðu í Ameríkunni. Í gærmorgun var ferðinni heitið í Outlet-ið en það vill svo skemmtilega til að það er staðsett í bæ sem heitir Waterloo. Skemmtileg staðarnöfn verða á vegi okkar daglega, í dag fórum við t.d. í gegnum bæ sem heitir Liverpool. Töluverð seinkun varð á brottför frá húsinu en það kom ekki að sök þar sem fyrirheitni staðurinn var staðsettur í klukkutíma fjarlægð frá húsinu en ekki í tveggja tíma fjarlægð eins og skipstjórinn hafði fengið upplýsingar um. Seinkunin var tilkomin vegna almenns skipulagsleysis eða þess að verið var að prenta út kúpóna sem hægt er að sýna til að fá enn meiri afslætti og eitthvað voru lykilorð að tölvupóstum að flækjast fyrir fólki.

p1000027_1003015.jpg

Þegar komið var á staðinn þá splittaði hópurinn sér upp og marseraði af stað í innkaupin. Afrakstur dagsins er ekkert á við 2007-ferðina en sérstaklega er áberandi að um er að ræða heldur færri skópör og engin ryksuga er í farteskinu, ennþá. Fólk var almennt ánægt með afrakstur dagsins. Annars er skipstjórinn farinn að kvarta sáran yfir kynjaójafnvægi í hópnum og skorti á stuðningi, sérstaklega finnst honum þörf á að hafa karlkyns félaga þegar búð eins og Best Buy er heimsótt. Ég skora því á alla karlmenn sem þetta lesa að íhuga það alvarlega að fara með okkur í næstu ferð :). Fyrstur kemur, fyrstur fær :)

 

p1000037.jpgDagurinn í dag byrjaði á góðri 1 1/2 tíma gönguferð um Chittenango Falls State Park sem er garður ekki langt frá okkur. Míni-útgáfa af Dynjanda er þar og þegar búið var að kanna fossinn nánar lá leið okkar um ýmsar blautar ófærur og einnig urðu á vegi okkar ýmis dýr sem við eigum ekki að venjast á Íslandi, eins og appelsínugulir, pínulitlir froskar og lítill snákur.

 

 

 

 

Eftir að búið var að þvo af sér skítinn eftir gönguferðina var ferðinni heitið í Carousel Mall. Fjárfest var í hlaupaskóm á Birki og göngustöfum fyrir aðra ömmuna en einnig var þétt aðeins á fatakaupum fjölskyldunnar í H&M og Gap. Að síðustu var farið í bíó. Bíóferðina var Birkir búinn að plana í nokkra mánuði og að sjálfsögðu var Toy Story 3 fyrir valinu. Ég mæli með myndinni, hún er alveg frábær. Í mallinu var einnig þétt á raftækjaeigninni. Nú aumkuðu kvenkynsfjölskyldumeðlimir sig yfir skipstjórann og fóru með honum í Best buy, til að sína smá stuðning. Í þessum skrifuðu orðum er klukkan orðin 23:30 og fjölskyldan er nýbúin að borða hamborgara með frönskum (heimaeldað að sjálfsögðu). Tímasetning kvöldmatar á heimilinu verður alltaf ókristilegri með hverju kvöldinu sem líður. Á morgun er síðasti dagur hjá ömmunum og stefnt er á rólegan dag heima við en það er í fyrsta skiptið frá því að við komum að stefnan er ekki tekin eitthvað út í buskann. Farið verður út á bátinn og vonandi endar sú för ekki bara á bryggju nágrannans, eins og síðast. Hægt er að sigla vatnið á enda og fara í land í bænum og borða nesti þar. Einnig er stefnt að að ná sér í smá brúnku ef sú gula ákveður að sína sig og á kvöldið að enda á Osso bucco og góðu rauðvíni.Bless í bilikær kveðja frá stóra húsinu við E-Lake Road.Íris


Cooperstown og Target verslunarferð

Eins og plön höfðu ráð fyrir gert var ferðinni heitið til Cooperstown. Smábærinn Cooperstown hefur sér það til frægðar unnið að vera ,,The birthplace of Baseball". Hafnabolta frægðarhöllin "The Baseball hall of fame" er staðsett í bænum, hvar annarsstaðar? og baseball minjagripasjoppur eru út um allt í bænum.
Það verður að viðurkennast að ekki er gífurlegum áhuga á hafnabolta að þakka að bærinn var heimsóttur, enda var krókur tekinn framhjá fyrrnefndri höll, heldur á bærinn að búa yfir miklum smábæjarþokka. Það stóðst, fullt af fallegum, vel viðhöldnum og sjarmerandi ,,New England húsum".
Splæst var í hádegismat á veitingastaðnum Alex's & Ikas. Ikas er líklega sænsk þar sem margir réttir á matseðlinum kenndu sig við Svíþjóð. Maturinn sem menn pöntuðu var misgóður en hvítvínið var að sjálfsögðu fínt. Síðan var ómeðvituð ákvörðun tekin um að labba að Farmers Museum sem er í enda bæjarins en menn rönkuðu við sér á miðri leið, sneru snarlega við og ákváðu að fá sér frekar ís. :) Splæst var í ísskápsmerki með mynd af hafnaboltakappa að slá bolta og nafni bæjarins fyrir neðan en síðan var stefnan tekin á bílinn og í Target þar sem nauðsynlegt þótti að hita aðeins upp fyrir ,,outlet" ferðina sem stendur fyrir dyrum á morgun.
Þessa stundina er svipuð sviðsetning á hlutunum og var í gærkveldi þegar ég skrifaði. Ég sit með tölvuna við stóru eyjuna, Eiður og ömmurnar eru eins og stormsveipir í eldhúsinu og eru að töfra fram spaghettí með skelfiski (uppskrift úr ítölsku hagkaupsbókinni), Birkir er á facebook og youtube og stelpurnar eru í sundlauginni.
Yndislegt að horfa á :)
Svo ég upplýsi varðandi matarvenjur í heimilisskiptum þá höfum við Eiður haft það sem venju undanfarin ár að taka með okkur að heiman mataruppskriftir sem innihalda hráefni sem er annað hvort mjög dýrt eða jafnvel ófáanlegt á Íslandi. Okkur finnst mikið skemmtilegra að elda góðan mat, drekka gott vín á meðan og með matnum heldur en að fara út að borða :) Að fara út að borða er bara spari :) Á miðvikudag stendur til að elda Osso Bucco, nammi namm.
En varðandi morgundaginn þá er eins og áður hefur komið fram stefnan tekin á verslunarferð. Farið verður í outlet sem er í um tveggja tíma fjarlægð og markmiðið er að vera allan daginn og borða kvöldmat þar (það er nauðsynlegt að fara út að borða í svoleiðis ferðum). Búið er að þurrka rykið af innkaupalistunum og að sjálfsögðu eru nokkur skópör að finna á honum.
Fengum fréttir af bandaríska lögfræðingnum okkar, hann sveimar um á rósrauðu skýi. Búinn að smakka hvalkjöt, fara á Austur-Indíafjélagið, labba út um alla Reykjavík og labba að Glymi í Hvalfirði. Þar fór hann yfir drumbinn í byrjun og óð yfir ána líka. Ef þið sjáið pínulítinn mann á vappi og þá meina ég nánast dvergvaxinn mann með bleikt ský fyrir ofan sig, þá er það líklega hann :)

Að lokum: Við höfum fengið nokkur neikvæð viðbrögð vegna HM gláps. Okkur til varnaðar verðum við að segja að fyrstu leikir eru sýndir hér kl. 7:30 á morgnana og síðasti leikur kl. 13:30. Sumir fjölskyldumeðlimur eru ekki enn búnir að jafna sig á tímamismuninum og eru að vakna kl. 6 á morgnana, upplagt er fyrir þá að horfa á fyrsta og jafnvel annan leik:) síðan er rest sleppt en mögulega horft á einhverja umfjöllun á kvöldin á ESPN.

Ljóst er að bátavígslan verður að bíða fram til á miðvikudag og við munum heyrast líklega þá

Bless í bili

Ástarkveðja frá Cazenovia í New-York fylki
Íris


Heimilisskipti sumarið 2010

Jæja, fögrubrekkufjölskyldan er aftur komin af stað.... Ekki stendur til að taka árið 2007 á heimilisskiptum í þetta sinn, ,,aðeins" verður skipt við tvær fjölskyldur á norð-austur strönd BNA og ferðalagið mun standa yfir í 23 daga. Eiður er að sjálfsögðu búinn að bera allan hitann og þungann af skipulagningunni sem hefur staðið yfir nánast samfleytt í níu mánuði. Skipulagið er eftirfarandi: fyrstu 14 dögunum á að verja í dreifbýli New York fylkis þ.e. við lítið vatn sem heitir Lake Cazenovia staðsett rétt fyrir utan bæinn Cazenovia í Madison county (ekki yfirbyggðu-brúar sýslunni). Næstu níu dögum á eftir stendur til að eyða á kunnulegum nótum í smábænum Montague í vestur Massachusetts en þar erum við að skipta við sama fólkið aftur og við skiptum við árið 2007, gamalt loforð sem verið er að efna. Það er nú meiri íslandsáhuginn sem þetta fólk hefur W00t Ömmurnar verð að sjálfsögðu í för og í þetta skipti ætla þær að eyða 1. vikunni með okkur og vera okkur samferða út.

En svo byrjað sé á byrjuninni þá var 17. júní ekki eytt í skrúðgöngur og ættjaðrasöngva heldur í þrif þar sem stefnan var tekin á New-York morgunflugið morguninn eftir og von var á fyrsta fjölskyldumeðlimi að gista í okkar húsi seint um kvöld þess 17. Um er að ræða rúmlega 50 ára pínulítinn lögfræðing sem yfirleitt getur ekki farið með konu sinni og börnum i heimilisskipti á sumrin vegna anna í vinnu en hafði svo mikinn áhuga á að arka um Ísland að hann sló vinnunni á frest og skellti sér yfir Atlantshafið. Konan hans og strákarnir þeirra tveir, ásamt vinahjónum, eru væntanleg til Íslands um næstu helgi. Eftir töluverða seinkun að morgni þess 18., sem má kenna almennu tímavanmati og skipulagsleysi, var lagt að stað út á flugvöll. Ester, systir, aumkaði sig yfir okkur og skutlaði helmingi ferðalanganna út á flugvöll og Valdi, vinur ömmu Maju, skutlaði hinum helmingnum. Flugið var fremur tíðindalaust ef frá er talið að illa gekk að koma afþreyingarkerfi Icelandair í gang, en það hafðist þó að lokum við mikinn fögnuð.

Við komuna til New York vorum við fljót að finna bílinn okkar á bílastæðinu. Um er að ræða 7 manna mjög nýlegan Chrysler Town and Country bíl og mun bíllinn verða okkar fararskjóti næstu tvær vikur. Ferðalagið gekk vel, stoppað var á Applebees (alltaf dettur manni í hug sagan af litla barninu og áfenginu) og borðað. Birkir fékk loksins það sem hann var búinn að bíða eftir frá því að hann var síðast í BNA, þ.e. í tvö ár, chicken fingers, djúpsteika og næringarríka, með frönskum LoL

img_9743_1002314.jpg

Við vorum mætt í stóra húsið við litla vatnið um kl. 8 um kvöldið og á móti okkur tók yndisleg, mjög lítil í stíl við eiginmanninn, amerísk kona sem er eigandi hússins, 15 ára sonur hennar og tveir PUK hundar. Hún vísaði okkur á ísskápinn sem innihélt vínber, New York fylkis salami (það besta sem ég hef smakkað), New York cheddar ost (ljósan), hvítlauksbrauð og baguett brauð ásamt ísköldu hvítvíni.

Morguninn eftir var húsið skoðað nánar en það er stórkostlegt :) Það er um 550 fm stórt með ótrúlega mörgum gluggum. Öll herbergi eru risastór, flygill er ásamt innisundlaug og er staðsetningin stórkostleg. 

 

img_9730.jpg

Bakgarðurinn er vatnið en húsinu fylgja tveir mótorbátar og tveir kajakar. Stór pallur er við bryggjuna sem hægt er að sitja á og njóta útsýnisins. Fyrsta deginum, þ.e. deginum í gær, var eytt í að skoða húsið, kíkja á HM, fara í búðarleiðangur til að birgja sig upp af mat og prófa stóra bátinn. Það gekk nú ekki áfallalaust fyrir sig, kvenfólkið var að sjálfsögðu búið var að birgja sig upp af hvítvíni til að taka með á bátinn en þar sem skipstjórinn gaf bátnum aðeins of mikið inn var ekki hægt að ræsa hann upp á nýtt og endaði ferðin á að bátinn rak stjórnlaust á bryggju hjá læknishjónunum í næsta húsi. Eftir nokkrar tilraunir til að ræsa bátinn var ákveðið að binda hann við bryggjuna og halda fótgangandi heim.

img_9795.jpg

Í dag var deginum eytt í HM gláp og gönguferðir til að hrista af sér allt rauðvínið og hvítvínið og mynda pláss fyrir meira. Fyrst var stefnan tekið á Fillmore Glenn State Park þar sem tekinn var tveggja tíma hringur í skóginum en síðan var keyrt í hálftíma að Skaneateles Conservation Area þar sem annar hálftíma göngutúr var tekinn. Þegar heim var komið var læknirinn kominn heim úr golfinu og búinn að redda bátnum á sinn stað.

 

 Núna sit ég við risastóru eyjuna og blogga meðan Eiður og ömmurnar þeytast til og redda kvöldmatnum. Búið er að ákveða að borða úti á pallinum við bryggjuna og leyfa krökkunum að grilla sykurpúða á eftir. Á morgun er stefnt á að vakna kl. 7:00 og horfa á HM leik og fara síðan í Cooperstown sem er lítill fallegur bær í um klukkutíma fjarlægð. Sennilega verður taka tvö tekin á bátinn en passað upp á að bensínfótur skipstjórans verði ekki kitlaður of mikið.  Kveðja frá BNA

Íris


Kveðjufærsla frá BNA

Jæja síðasti dagur ferðarinnar að kvöldi kominn og þeir fullorðnu sitja sveittir við borðstofuborðið og gæða sér á írsku kaffi. Svitann má rekja til rakans og einnig til kappsins við að klára nú vískíið sem ömmurnar komu með til nýja heimsins. Dagurinn hefur verið notaður í sólbað, tiltekt og ferð í verslunarmiðstöð að bæta við enn einni töskunni, skórnir taka náttlega heilmikið pláss. Flestir eru sáttir við að halda heim og heyrist manni íslenska vatnið toga töluvert í fólk en einnig verður rosalega gott að komast í íslenska matinn. Sumum hefur þótt erfitt að venjast þeim ameríska. 

Þetta verður síðasta færsla ferðarinnar því að lagt verður af stað í fyrramálið til Boston. Í Boston verður ömmunum skilað strax á flugvöllinn og Eiðsson fjölskyldan (eins og Birkir kallar okkur) eyðir deginum í Boston og á svo flug heim um kvöldið.

Allir biðja að heilsa og við sjáumst hress á klakanum

kveðja

IrisHeart


New York og fleira

Mikið ferðalag hefur verið á fjölskyldu og ömmum undanfarna daga þannig að enginn tími hefur verið til að setjast niður við tölvu fyrr en núna en klukkan er hálf tólf að kvöldi til og ömmurnar eru í eldhúsinu að fást við mat, pabbinn að horfa á Roy Orbison í sjónvarpinu, börnin í tölvunni og mamman er í annarri tölvu að blogga, allt mjög nútímalegt. New York ferðin er afstaðin en lagt var eldsnemma af stað á fimmtudagsmorgni og bílnum ekið inn á Manhattan um hádegi þar sem hótelið fannst án mikillar fyrirhafnar. Farið var í tveggja tíma skoðunarferð um borgina á tveggja hæða strætisvagni og kvöldmatur var borðaður á góðum ítölskum stað. Dagskráin var þéttskipuð daginn eftir og því var dagurinn tekinn snemma og lestin tekin á American Museum of Natural History. Krakkarnir höfðu beðið með mikilli eftirvæntingu eftir að komast á safnið sem er í Hollywoodmyndinni ,,Night at the museum" og sjá uppáhaldsfígúrurnar sem koma fram í þeirri mynd. Það kom í ljós að myndin er trú uppruna sínum og sumar fígúrurnar sem eru í myndinni eru einfaldlega uppspuni og/eða eru staðsettar á öðrum söfnum. Dum Dum var þó mættur á svæðið og safnið er mjög flott og STÓRT. Eftir safnið var rölt í Central Park og litli dýragarðurinn þar skoðaður og á eftir var farið í ferð fram og tilbaka með Staten Island Ferry. Siglt er framhjá Frelsisstyttunni og Ellis Island og Manhattan sést frá aðeins öðru sjónarhorni. Eftir ferjuferðina var farið á indverskan veitingastað og klukkan 10 um kvöldin var lagt af stað til Montague.
Fólk fékk að sofa út í morgun en eins og berlega hefur komið í ljós þá á þessi fjölskylda erfitt með að sitja á rassinum og strax eftir hádegi var ákveðið að fara til Old Sturbridge Village sem er eins og Árbæjarsafn okkar Íslendinga. Þar komumst við í kynni við sögunarmyllu, leirkerasmíði, tinsmíði og fleira. Eftir alla þessa fræðslu var komið við í stórri verslunarmiðstöð og þar sem sumum fannst þeir ekki eiga nóg af skóm og töskum var ákveðið að þétta aðeins á og einnig var fjárfest í ferðatösku ásamt fleiru.
En verið er að reka mig í burtu af borðstofuborðinu, klukkan alveg að verða tólf á miðnætti og síðbúinn kvöldverður tilbúinn sem verður skolað niður með rauðu víni.
Allir biðja að heilsa í bili

Kveðja frá Montague, Massachusetts,
Iris


Ömmur mættar ?

Jú, Ömmurnar eru mættar og það hefur einfaldlega verið svo mikið að gera hjá okkur að bloggið hefur setið á hakanum. Úr því verður nú bætt snarlega:
Ömmurnar skiluðu sér á réttum tíma og stað á flugvellinum í Boston og keyrt var til Montague, slegið var upp veislu með nautasteik, rauðvíni og Boston cream cake í eftirrétt. Daginn eftir (þ.e. í gær) var svo lagt í verslunaroutletferðina ógurlegu sem búið var að plana. Lagt var snemma af stað í gærmorgun, sem veitti ekki af vegna þess að tveggja tíma akstur er á staðinn. Rallið hófst kl. 11 um morgunin og því lauk kl. 9 í gærkveldi, geri aðrir betur, við erum mjög stolt af okkur. Bíllinn var fullur af pokum sem innihéldu óvenjumörg skópör (sumir keyptu sér 5 pör), sjálfvirka ryksugu (þið vitið nú örugglega hver á þar í hlut), nokkur veski, fatnað og leikföng. Heimkoma var um kl. 11 í gærkveldi og stelpurnar sváfu mest alla leiðina heim. Reyndar var hluti af verslunardegi ammana eytt á útibarnum á Ruby Tusday við hvítvínsdrykkju en það er önnur saga.
Dagurinn í dag hefur að mestu leyti farið í það að taka upp úr pokum og velta fyrir sér hvernig eigi að koma dýrðinni heim til Íslands og hvernig eigi að losa sig við allar umbúðirnar án þess að Kaninn taki eftir því ;) (fólk er jú svolítið skömmustulegt yfir kaupkasti gærdagsins). Ömmunum hefur nú tekist að breyta þeim í öreindir og er vandamálið líklega úr sögunni. Á morgun verður farið til New York og Eiður hefur notað tímann í dag til að finna handa okkur hótel á Manhattan sem ekki er á syndsamlegu verði, það er náttlega vita vonlaust og því verður kreditkortaheimildin nýtt til hins ýtrasta.
Í dag er 4 júlí og við verðum ekki mikið vör við þjóðhátíðarstemningu hér í BNA, einhver flugeldasýning verður víst á föstudaginn næsta hér og kannski verðum við komin nógu snemma frá New York til að sjá hana, kemur í ljós, okkur finnst þetta nú hálf lélegt, bjuggumst við skrúðgöngum að amerískum hætti.
Núna stendur til að fara út í göngutúr og týnast að hætti ammanna, þannig að þetta verður látið duga í bili í blogginu.
Frábært að sjá hversu veðrið er gott heima, það er nú ekki upp á marga fiska hér, 24 stiga hiti, sem virkar eins og 13 stig heima, vonandi bíður góða veðrið eftir okkur.

Allir biðja að heilsa héðan frá ameríkunni
bless í bili
Iris


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband