20.8.2015 | 04:42
San Francisco, rappmamma, Brooklyn og brúðkaupsafmæli.
Fjölskyldan er komin til Brooklyn í New York. Mikið er þetta nú dásamlegur staður, allt bara algjörlega yndislegt. Við erum í frábæru húsi, þriggja hæða mjóu húsi, (Townhouse), hátt til lofts, frábært eldhús og garður. Dýralífið er í blóma, kötturinn Esme beið okkar (að knúsa og klappa lifandi loðnu dýri er eitthvað sem við höfum virkilega saknað að heiman), íkornar hlaupandi á girðingunni í kringum garðinni ásamt forvitnum þvottabirni sem við hittum í gærkveldi. Svo er hér einnig dýrategund sem lifir góðu lífi og er ekki eins velkomin, þ.e. frú Moskító. Hún virðist ekki vera eins algeng á vesturströnd BNA, a.m.k. höfum við lítið orðið vör við hana fram að þessu, en hér á austurströndinni virðist hún lifa góðu lífi og vera í fantaformi. Eins og oft áður er Eiður minn í eldhúsinu eitthvað að fást við mat, en frúin situr við eldhúsborðið og skrifar þessar línur. Byrjum nú frá því er síðast var horfið.
Þegar við kvöddum Ashland vorum við á leið til Willows í Kaliforníu. Sá bær reyndist vera frekar lítill klassískur BNA bær. Hlutverk hans í ferðalaginu var nú bara hugsaður sem viðkomustaður á löngu ferðalagi frá A (Ashland) til B (San Francisco). Við hótelið var sundlaug sem við nýttum okkur aðeins. Að öðru leyti mun nú líklegast lítið standa upp úr nema að þarna gistu slökkviliðsmenn sem unnu við að ráða niðurlögum skógareldanna sem voru ekki langt undan og einnig það að við urðum aðeins vör við frú Moskító.
Daginn eftir var ferðinni heitið til San Francisco. Þar sem borgin er fimmta dýrasta borg í heimi, að okkur skilst, var gist í öðrum bæ sem er rétt fyrir utan San Francisco, Almeda. Reglulegar almenningssamgöngur ganga á milli bæjarins og San Francisco, bæði lest og bátur og var því lítið mál að fara þarna á milli. Við höfðum tvo daga til að skoða San Francisco sem við nýttum okkur til fullnustu. Við byrjuðum fyrsta daginn á að fara í Kínahverfið sem er mjög þekkt hverfi. Einnig fengum við okkur far með sporvagni upp brekkurnar (við erum sko að tala um mjög brattar brekkur) og fórum að Fisherman´s Wharf sem er hafnarhverfi borgarinnar.
Borgin er mjög skemmtileg, mjög lífleg og mikil stemning það væri því frábært að koma þarna aftur síðar. Seinna kvöldið í San Francisco áttum við Eydís miða á Nicki Minaj tónleika sem voru haldnir í Concord Pavillion í um klukkutíma akstursfjarlægð frá San Francisco. Restin af fjölskyldunni skutlaði okkur mæðgum á staðinn og fór í bíó á meðan við horfðum á frábæra tónleika með New York/Trinidad rapparanum geðþekka (NB. ég var ekki elst á tónleikunum).
Daginn eftir, eldsnemma, var förinni heitið til New York, sex tíma flug með millilendingu og 1 ½ tíma bið í Chicago. Ferðalagið var langt en gekk mjög vel og við vorum komin í Brooklyn húsið seinni part sl. laugardags. Eins og áður segir beið okkar þessi yndislega kisa sem heitir Esme og þetta líka frábæra New York hús. Hér höfum við haft það alveg dásamlegt undanfarna daga. Hverfið er alveg ofsalega líflegt, veitingastaðir og verslanir á hverju horni í bland við íbúðarhús með oft á tíðum skrautlega íbúa, bara eins og í Woody Allen bíómynd. Hér er hins vegar mjög heitt og rakt enda hefur maður s.s. oft heyrt í bíómyndum að New York sé nánast óbærileg á sumrin vegna hita og raka. Hér eru moskító flugurnar líka frekar árásargjarnar sem fjölskyldan hefur nú aðeins fengið að kynnast.
Fyrsti dagurinn hér í Brooklyn fór að mestu í afslöppun er frá er talið að annar leikur Arsenal á tímabilinu á móti Crystal Palace átti að fara fram kl. 8:30 að New York tíma. Þar sem ekki er hægt að horfa á slíkar gersemar í sjónvarpinu á heimilinu þá verður maður bara að aðlagast. Undirrituð var því búin að spotta út fótboltabar í nágrenninu sem opnaði nógu snemma til hægt væri að horfa á leiki sem sýndir eru á svona ókristilegum tíma. Dagurinn var því tekinn frekar snemma og undirrituð og gráa viðhengið röltu hálftíma gang á pöbbinn sem reyndist svo vera algjört Arsenal vígi, Arsenal fánar og læti, fullur af fólki klæddum í Arsenal peysum frá ýmsum tímum og viðkunnanlegur eigandi í Arsenal peysu. Undirrituð var sko ekki eini kvenmaðurinn á svæðinu heldur voru þarna nokkrar stelpur og þetta reyndist hin besta skemmtun. Þarna lifði fólk sig svo sannarlega inn í leikinn með hrópum og köllum. Eftir leikinn, þegar heim var komið, voru börnin vakin og í morgunmat voru beyglur, New York Style, sem eigendur hússins höfðu skilið eftir sig. Mismunandi beyglur voru hitaðar í ofni og borðaðar með rjómaosti. Þetta á að vera mjög New York-legt og ekki urðum við fyrir vonbrigðum því þetta er svooo gott á bragðið.
Á mánudaginn var stefnan tekin á Manhattan en aðeins tekur um 20 mín að ferðast þangað með lestinni. Þar var byrjað á að rölta um Chinatown og Little Italy en síðan var stefnan tekin á High Line sem er alveg frábær göngugata, ef hægt er að orða hlutina þannig. Um er að ræða lestarspor sem liggja yfir borginni og voru notuð til að flytja aðföng á aðal matarmarkað Manhattan hér áður fyrr en voru aflögð árið 1980. Brautarteinarnir voru í algjörri niðurníðslu í nokkur ár þar til einhverjir fengu þá snilldarhugmynd að gera þarna göngusvæði sem hefur heppnast alveg frábærlega.
Um kvöldið fór gamla settið á hafnaboltaleik í glæpahverfinu The Bronx, hvar New York Yankees og Minnesota Twins háðu kappi langtímum saman. Það var afskaplega skemmtileg, en um leið, afskaplega löng upplifun. Stemningin æðisleg og líka yfirgengilega amerísk þar sem í einu af óteljandi leikhléum var dreginn fram aldraður hermaður, honum í hælt í hástert, allir gestir og leikmenn dregnir á fætur ásamt því að fáninn blakti við hún. Og þá brustu allir í söng, leikmenn og áhorfendur - og góluðu slagarann GOD BLESS AMERICA. Í miðjum leik! Stórundarleg afleiðing 9/11 að okkur skilst.
Í gær rann upp brúðkaupsafmælisdagur okkar hjóna. Dagurinn hófst á amerískum bröns þ.e. pönnukökum með sírópi og smjöri, eggjum og beikoni. Eftir það var ferðinni heitið í Downtown Brooklyn þar sem kíkt var í nokkrar búðir eins og H&M og fleiri. Um kvöldið fórum við hjónakornin út að borða í nágrenninu á því miður ekki nógu góðan stað. Búið er því að ákveða að taka annan í brúðkaupsafmæli á betri stað áður en haldið verður heim á leið. Kvöldið skyldi því miður líka eftir sig fjölmörg bit á hinum ólíklegustu stöðum á hjónakornunum.
Í dag var tekið smá Brooklyn þema. Deginum var s.s. eytt í að ganga um Prospect Park sem er risastór garður (samt bara 1/10 hluti af Central Park). Í honum er Brooklyn Zoo sem er lítill dýragarður sem við heimsóttum og var bara mjög skemmtilegur. Á eftir var ferðinni heitið í bestu ísbúð New York borgar (að sögn Brooklyn búa) áður er ferðinni var heitið heim í húsið. Á morgun er stefnan tekin á outlet ferð í New Jersey þar sem verður væntanlega sjoppað út í eitt.
Meira síðar ..
Kveðja út hitanum og rakanum í New York.
Íris og co.
13.8.2015 | 06:05
Rólegir dagar í Ashland, Oregon
Fjölskyldan hefur nú kvatt Ashland í Oregon þar sem hún hefur dvalið undanfarna sex daga. Við erum á leið til San Francisco með viðkomu eina nótt í smábænum Willows í norður Kaliforníu. Við höfum haft það mjög náðugt undanfarna daga í Ashland. Sem betur fer hefur bærinn verið að mestu reykfrír frá því á laugardaginn sl. sem hefur væntanlega mátt þakka hagstæðum vindáttum frekar en endilega því að það hafi dregið úr skógareldunum.
Þrátt fyrir að í heiti þessarar færslu sé tilvísun í rólega daga þá þýðir það ekki að fjölskyldan hafi alveg setið auðum höndum í Ashland. Dagarnir fóru í að kanna umhverfi bæjarins sem er mjög fallegt, og bæinn sjálfan sem hefur bæði fjölbreytt mannlíf og dýralíf. Hvað varðar mannlífið þá virðist Ashland vera mikill hippabær, bæði gamlir og ungir hippar sitjandi á gangstéttum með gítar að spila og syngja. Einnig virtist okkur við sjá fleiri furðufugla í Oregon en við höfum séð annarsstaðar í BNA. Við fengum þá tilfinningu eiginlega staðfesta af bensínafgreiðslustarfsmanni (NB: Skv. lögum hér í Oregon mega aðeins starfsmenn bensínstöðva dæla bensíni á bíla á bensínstöðvunum) sem sagði að í Portland vildu menn aðeins fá að lifa saman í sátt og samlyndi og fá að vera svolítið skrýtnir í friði. Okkur sýnist sú hugmyndafræði eigi einnig við hér í Ashland. Ef maður vill fá mannlíf og menningu hvers staðar beint í æð þá er oft besti staðurinn til þess matvöruverslun staðarins. Í einni búðarferðinni var m.a. hægt að sjá konu með kviknakið 4-5 ára gamalt barn í fanginu án þess að nokkur væri að kippa sér upp við það. Willy Nelson lúkkið er ekki óalgengt hér hjá báðum kynjum og dude er ávarp sem heyrist oft í röðinni að kassanum.
Hvað varðar dýralífið þá er það einnig mjög fjölbreytt. Í Ashland rákumst við á ófáa íkornana, sem er kannski ekki fréttnæmt. Það sem er óvenjulegt er að hér er fjöldi dádýra á vappi í bænum, þau er hægt að sjá á beit í görðum fólks. Þau kippa sér lítið upp við mannfólkið og það er greinilegt að þessi afslöppuðu lifnaðarhættir Oregon fólks ná einnig til dýralífsins.
Fyrsti dagurinn okkar í Ashland var svolítið ónýtur út af mengun frá skógareldunum. Við létum það þó ekki trufla okkur mikið heldur keyrðum um nágrennið, kíktum í búðir og tókum púlsinn á mannlífinu í miðbænum. Á laugardeginum var kíkt á farmers market þar sem keyptur var ótrúlega góður geitaostur og frábær kirsuberja-rabbarbarasulta og súrdeigsbrauð í morgunmat. Eftir hádegi var keyrt til nágrannabæjar sem er í um 30 mín fjarlægð frá Ashland og heitir Gold Hill. Rétt fyrir utan bæinn er að finna svæði sem hefur verið kallað The Oregon Vortex sem þýðir Oregon hringiðan. Um er að ræða mjög vinsælan ferðamannastað sem hefur fengið heitið House of Mistery.
Þar fengum við klukkutíma leiðsögn um staðinn sem er mjög sérstakur. Talið er að segulsvið jarðarinnar virki á ólíkan hátt á svæðinu en annarsstaðar. Indjánar vildu ekki koma nálægt þessum stað og sögðu að á honum væri eitthvað skrýtið í gangi. Villt dýr finnast varla á svæðinu og bannað er að taka gæludýr með sér þangað. Þekkt er að leiðsöguhundar eða önnur þjálfuð dýr hafi sýnt af sér mjög undarlega hegðun á staðnum, þ.e. orðið skyndilega mjög óþekk. Á gullgrafaratímanum var ekki hægt að mæla gull á réttan hátt innan þessa litla skika. Svæðið er þannig að í raun brenglast öll sjónræn skynjun þar bæði hjá mönnum og dýrum. Hlutir eða fólk virðast til dæmis hækka með því að færast örstutta vegalengd. Magnaður staður.
Á sunnudeginum var lagt snemma af stað og stefnan tekin á vesturströnd Oregon en strandlengjan þar þykir einstaklega falleg. Ekki urðum við fyrir vonbrigðum, frábær útsýnisakstur. Stoppað var í litlum bæ sem heitir Brookings og smá pikknikk haldið í garði sem þar er að finna. Einnig var keyrt í gegnum drive through tree og síðan keyrðum við nokkra kílómetra leið í gegnum þéttan rauðviðsskóg með alveg ótrúlega stórum og breiðum trjám.
Á mánudaginn var slappað af þ.e. stelpurnar fóru í bíó, Birkir fór í göngutúr og ég og Eiður ákváðum að taka labb í garði bæjarins, Lithia park. Þar hittum við nokkur dádýr á vappi m.a. móður með þrjá litla kálfa, fullt af íkornunum og kalkúna. Á eftir settumst við á Caldera brugghúsið og smökkuðum á bjórnum þeirra sem var mjög góður.
Í gær var síðan farið á stað sem heitir Crater Lake með viðkomu í gömlum gullgrafarabæ sem heitir Jacksonville. Bærinn, sem var stofnaður um 1850, þykir ótrúlega vel varðveittur og mörg hús bæjarins líktust þeim húsum sem hægt var að sjá í gömlu vestrunum. Við gengum aðeins um þennan gamla hluta bæjarins og komum við í gömlum kirkjugarði sem þar var að finna. Eftir Jacksonville var haldið til Crater Lake sem er risastór gígur fullur af vatni. Fyrir 7.700 árum hafði verið þarna stórt eldfjall, Mt. Mazama sem sprakk og skyldi eftir sig stóran gíg sem með tímanum fylltist af vatni. Vatnið er fagurblátt á litinn og staðurinn er ofsalega fallegur. Þessum síðasta degi okkar í Ashland lauk síðan á að húsið var þrifið og pizza borðuð út á palli.
Eins og að framan segir er fjölskyldan á leiðinni til San Francisco með viðkomu í Willows en þangað er fjögurra tíma akstur. Farartækið er bílaleigubíll eða rúta réttara sagt þar sem Avis bílaleigunni fannst greinilega ekkert duga minna en 10 sæta Ford Transit til að ferja hópinn til San Francisco.
Tveimur nóttum ætlum við svo að eyða í San Francisco sem er örugglega allt of stuttur tími en við eigum pantað flug til New York á laugardagsmorgun þar sem síðasti hluti þessa ferðalags mun hefjast.
Meira síðar .
Kveðjur frá I-5 North í Kaliforníu.
Íris, Eiður og co.
8.8.2015 | 07:50
Úr ofninum í eldinn
Fjölskyldan er mætt til Ashland sem er lítil sætur bær alveg syðst í Oregon fylki. Fyrsti heili dagurinn er að kveldi kominn og ég sit út í garði að skrifa þessa færslu og Eiður er staddur, þar sem honum ber, þ.e.a.s við eldavélina. Í matinn er líbanskur kjúklinga- og grænmetisréttur.
Fjölskyldan er hér við heldur óvenjulegar aðstæður því hér í Oregon og norður Kaliforníu geysa töluverðir skógareldar og er fjölskyldan að fá smá nasasjón af þeim í orðsins fyllstu merkingu. Brunalyktin hangir yfir bænum og þegar við komum hingað seinni partinn í gær var skyggni lítið sem ekkert vegna reyks. Það er s.s. ekki öskuský sem hangið yfir okkur hér í Oregon, eins og við höfum upplifað heima á Íslandi, heldur reykský. Reykurinn veldur sviða í augum og hálsi og er frekar óhollur til innöndunar. Mörg þúsund slökkviliðsmenn eru að berjast við skógareldana sem hafa kviknað á nokkrum dögum. Ástæða þeirra er okkur ókunn en ég sá á vefsíðu í dag að búist er við þrumum og eldingum í austur Oregon og þá er mikil hætta á íkveikju þar sem eldingu getur slegið niður í þurran gróðurinn þ.e.a.s. þar sem rigning fylgir ekki þrumuveðrinu. Dagurinn í dag var þó örlítið skárri en í gærdagurinn og við höfum meira getað verið úti við í dag og skoðað umhverfið heldur en í gær. Vonandi verða vindáttirnar okkur hagstæðar næstu daga þannig að við getum notið betur þeirrar fallegu náttúru sem hér er að finna.
Síðustu dagar hafa verið mjög bissí. Þegar við yfirgáfum yndislega húsið í LA tók við hin ljósum prýdda borg Las Vegas. Bílferðin til borgarinnar tók um 4 klukkutíma og voru nokkur stopp tekin á leiðinni m.a. í hamborgara á Arbys, sem bættist þar með við hamborgaralistann. Einnig var stoppað í mjög skemmtilegri geimverubúð og nokkrum minjagripum bættum í safnið. Svæðið þar sem búðina var að finna er við Area 51 sem er mjög þekkt geimverumóttökustöð hér í BNA. Klikkaður hiti mætti okkur svo í Las Vegas, þar var hitinn 105 (41 á selsíus) sem þykir reyndar frekar lítið að sögn leigubílstjóra sem ég hitti, eðlilegt hitastig er 110-115 í ágúst. Okkur rauðnefjuðu Íslendingunum fannst þetta hins vegar alveg nóg og fjölskyldan datt í hægt tempó þann tíma sem hún dvaldi í borginni. Í Las Vegas gistum við á íbúðahóteli sem var staðsett aðeins í burtu frá aðalgötunni The Strip.
Á móti kom að hótelið og íbúðin sem við gistum í var mjög vel búið. Flottar sundlaugar, garðsvæði, líkamsræktaraðstaða og það sem hitti beint í mark við komuna á hótelið var Margarita Mondays. Sú uppákoma er aðeins á mánudögum, eins og nafnið gefur til kynna, milli kl. 17 og 18. Við komum því rétt tímanlega til þess að miðaldra lögfræðingurinn, sem getur þefað uppi frítt áfengi í boði, gæti skroppið í margarítu og tortillasnakk ásamt sterkri salsasósu, algjörlega í boði hótelsins. Síðar um kvöldið var hótelskutlan tekin á strippið og það mælt út ásamt því að farið var út að borða á mjög góðum ítölskum stað.
Daginn eftir voru nokkur sundtök tekin á sundlaugabakka einnar sundlaugar hótelsins ásamt því að sólbekkirnir voru mátaðir mjög ítarlega. Um kvöldið var rölt á nálægan veitingastað og á meðan beðið var eftir borði var spilavítið skoðað. Þar var farið í spilakassa (eins og í bíómyndunum) og heildartap fjölskyldunnar eftir kvöldið taldist ca. 1 dollari enda voru mjög lágar upphæðir lagðar undir. Eftir þetta var stefnan tekin á strippið á ný og endapunktur kvöldsins var síðan tekinn í KISS-minigolfinu, gráhærða fjölskyldumeðliminum til mikillar gleði.
Næsta dag var stefnan tekin á flugvöllin í Las Vegas þar sem flogið var til Portland í Oregon. Í Portland var hitastigið ekki nema um 24 gráður á selsíus og nýttu rauðnefjuðu Íslendingarnir sér það til fullnustu. Eftir tékk inn á hótel var stefnan tekin á miðbæ Portland sem er alveg dásamleg borg. Oregon er þekkt fyrir mikla bjórframleiðslu og einnig vínframleiðslu. Við fullorðna fólkið þefuðum uppi, að sjálfsögðu, brugghús þar sem hægt var að smakka á framleiðslunni sem var, vægt til orða tekið, mjög góð. Einnig var litið við í stærstu bókabúð BNA sem er ekkert smá stór og flott. Þar var aðeins verslað áður en stefnan var tekin heim á hótel.
Daginn þar á eftir var ferðinni heitið á bílaleigubíl til Ashland en það ferðalag tók u.þ.b. fjóra klukkutíma. Eins og að framan segir tók á móti okkur reykur og lítið skyggni en einnig yndisleg eldri hjón sem ætla að lána okkur húsið sitt næstu sex daga hér í Ashland (sem er sennilega réttnefni). Þau eru nýkomin heim frá Íslandi, m.a. gistu þau í húsinu okkar í nokkra daga en einnig keyrðu þau hringveginn. Þau eru alsæl með ferðina og langar að fara aftur til Íslands, að sjálfsögðu J
Hér ætlum við litla fimm manna fjölskyldan að vera í sex daga, vonandi munum við sjá út úr reykmekkinum næstu daga og hafa tækifæri til að skoða þetta fallega svæði áður en stefnan verður tekin á San Francisco og síðan til Brooklyn í New York borg. Meira síðar .
Reykmettuð kveðja frá Ashland í Oregon,
Íris og Co.
4.8.2015 | 08:49
Gull, brons og Las Vegas í Mini-van
Þá eru Special Olympics leikarnir að baki og fjölskyldan búin að fá fimleikasnillinginn í hendur. Hefst þá næsti hluti ferðalagsins sem er ferð til eyðimerkurborgarinnar Las Vegas. Þar ætlar fjölskyldan að láta ljós sitt skína í tvær nætur, kíkja í spilavítin og skoða mannlífið. Þar er víst 40 stiga hiti þannig að kannski bráðnum við bara. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er farartæki fjölskyldunnar til Vegas Mini-van eða strumpastrætó eins og margir kalla slíka bíla. Ferðalagið frá LA til Las Vegas tekur u.þ.b. 5 klukkutíma og landslagið er þannig að auðvelt er að láta sér líða eins og persónu í amerískri bíómynd með því að sitja í bíl á hraðbraut í steikjandi hita, og þá erum við að tala um 110 á Fahrenheit, með U2 og Aerosmith í útvarpinu og útsýni sem er ekkert nema eyðimörk og Joshua tré.
Dvöl fjölskyldunnar í LA var mjög skemmtileg. Við vorum búin að heyra að LA væri frekar óspennandi borg en upplifun okkar er á annan veg, eftir að hafa varið þar síðustu 10 dögum. LA er mjög víðfem borg og þ.a.l. mjög fjölbreytt. Margt að sjá og margt hægt að gera til afþreyingar. Ekki skemmir fyrir að við gistum í svo flottu húsi með allar aðstæður eins og best verður á kosið. Takk Atli, Anna, Hildur Svava og Arnar
Frá því að síðast var skrifað þá hefur Birkir lokið keppni í fimleikunum. Um tveggja daga keppni var að ræða og skiptust dagarnir annars vegar í flokkun og hins vegar í aðalkeppni. Flokkun fór fram á föstudaginn sl. en hún gilti 25% af heildareinkunn keppenda. Á laugardaginn sl. fór síðan fram aðalkeppni. Birkir stóð sig frábærlega báða dagana, gerði allar æfingar fullkomlega ef frá er talið að hann gleymdi smá snúningi seinni daginn á gólfinu, en það gerist nánast aldrei að hann gleymi að gera hluta af æfingu. Stökkin hjá honum voru nánast fullkomin t.d. fékk hann 19.2 af 20.0 mögulegum fyrir stökk fyrri daginn og 19.0 síðari daginn. Einnig stóð hann sig frábærlega í hringjunum og á tvíslánni.
Þegar kemur að því að raða í sæti þá er Special Olympics kerfið svolítið sérstakt, okkur hefur verið sagt að þríhyrningurinn sé í reynd öfugur í Special Olympics ef hægt sé að orða það þannig. Í hefðbundinni keppni er einn á toppnum í þríhyrningnum og svo fjölgar þeim eftir því sem neðar kemur. Þessu er öfugt farið í Special Olympics. Einnig er það svo að ef keppanda gengur mjög vel þá er hann oft færðir upp um flokk sem í eru minna fatlaðir eða getumeiri einstaklingar. Af því að Birki gekk vel í æfingunum þá lenti hann því miður svolítið oft í þannig aðstæðum, hann var flokkaður með einstaklingum sem voru minna fatlaðir en hann. Hann lenti t.d. tvisvar í því að vera í flokki með sterkum keppanda frá Kína sem ekki var hægt að sjá að nokkuð væri að. Við erum óskaplega stolt af okkar manni og hann er mjög sáttur við sitt framlag.
Eftir seinni keppnisdaginn fengum við Birki með okkur heim í sólarhring og þá var ákveðið að fara á ströndina. Stefnan var fyrst tekin í Family center sem er á UCLA svæðinu. Þar hittum við stórmerkilegan mann sem var þar staddur með foreldrum sínum. Um er að ræða einn af 13 velgjörðarsendiherrum Special Olympics; David Egan, 37 ára gamlan mann með Downs heilkenni. Við vorum búin að taka eftir þessum manni áður þar sem hann hafði verið einn af ræðumönnum kvöldsins í pikknikkinu í boði Maju S fyrr í vikunni. Hann hélt þar mjög eftirminnilega ræðu. Hann og foreldrar hans sögðu okkur sögu David en í dag starfar David á Capitol Hill í Washington DC sem lobbíisti fyrir Down syndrome samtökin í BNA. Hann er ótrúlega skýr og flottur maður og foreldrar hans eru einnig yndisleg. Við fengum að sjálfsögðu að smella mynd af Birki og David saman - sjá myndina hér að ofan. Eftir þetta var ferðinni heitið í Target þar sem kaupa varð bikiní á yngsta fjölskyldumeðliminn. Birkir spígsporaði því um Target í gallanum með allar medalíurnar um hálsinn og vakti hann þvílíka athygli og lukku. Hann var eins og rokkstjarna, fólk var stöðugt að stoppa hann og óska honum til hamingju með afrekin. Meira segja stoppaði ein kona hann til að fá að taka selfie með honum.
Á ströndinni áttum við dásamlegan tíma en ströndin er risastór og sá hluti strandarinnar sem við vorum á var mjög hreinn og fínn. Öldurnar voru passlega stórar þannig að auðvelt var að láta þær henda sér á kaf. Stelpunum fannst svo gaman að þær voru bókstaflega út í sjó allan tímann og Birki fannst einnig mjög gaman þó að ekki tæki hann sjósundið eins langt og systurnar. Í gærmorgun var Birki skilað á campusinn til Evu og Sigurlínar og stefnan var auðvitað aftur tekin á ströndina enda óvíst hvort að við komumst nokkuð aftur á strönd í ferðinni. Í gærkveldi fór síðan fram lokahátíð leikanna. Eins og opnunarhátíðin fór hún fram á Los Angeles Memorial Colesium. Eftir hátíðina fengum við Birki endanlega í okkar hendur. Á leiðinni heim var komið við á Fatburger sem er svona hollari hamborgarastaður. Það er því bæði búið að prófa hamborgarana á In N Out og Fatburger en ferðirnar á hamborgarastaði eiga nú sjálfsagt eftir að verða fleiri.
Meira síðar.....
Íris & Co
31.7.2015 | 06:02
Los Angeles og Special Olympics World Games
Nú hefur flökkugenið tekið sig upp í fjölskyldunni á nýjan leik og Fögrubrekkugengið er lagst í ferðalag. Ferðinni er heitið, eins og svo oft áður, til Bandaríkjanna en að þessu sinni er stefnan tekin á vesturströnd Bandaríkjanna sem fjölskyldan hefur ekki komið til áður. Upphaf ferðarinnar er í Los Angeles þar sem Birkir keppir í fimleikum á alþjóðaleikum Special Olympics. Þegar þetta er ritað, fimmtudaginn 28. júlí 2015, hefur Birkir ekki hafið alvöru keppni ennþá en fimleikar eru á dagskrá á morgun, föstudag, og á síðasta degi leikanna þ.e. nk. laugardag. Í gær fóru fram svokallaðar Podium æfingar sem gilda 20% í keppninni, flokkun fer fram á morgun og aðalkeppnin fer fram, eins og áður segir, á laugardag. Lokahátíð leikanna fer svo fram nk. sunnudag.
Birkir flaug til LA með hópnum á þriðjudaginn í síðustu viku og byrjaði ferðina á vinabæjarheimsókn til Ontario, sem er smábær rétt fyrir utan LA. Þar gisti hópurinn í tvær nætur áður en ferðinni var heitið til LA. Ferðalagið var ævintýralegt fyrir hópinn þar sem uppákomur eins og rútumisskilningur og fleira komu við sögu. Verða þær uppákomur ekki raktar frekar hér. Birkir gistir á heimavist UCLA háskólans í LA þar sem íslenski hópurinn hefur aðsetur en fimleikakeppnin fer einnig fram á háskólasvæðinu. Þar sem fimleikarnir eru seint á dagskrá leikanna þá vorum við svo heppin að fá Birki lánaðan til okkar í tvo sólarhringa frá seinnipart sunnudags til seinnipart þriðjudags þegar við þurftum að skila honum aftur til þeirra Evu Hrundar og Sigurlínar þjálfara.
Hvað varðar hina fjölskyldumeðlimina fjóra þá hóf hópurinn sig á loft frá Keflavíkurflugvelli degi síðar en Birkir þ.e. á miðvikudaginn í síðustu viku. Ferðinni var heitið til Washingtond DC þar sem gist var eina nótt á hóteli og síðan var flugið tekið um morguninn til LA. Þetta var ansi langt ferðalag, 6 klukkutíma flug frá Keflavík til Washington og 5 klukkutíma flug frá Washington til LA. Tímamismunurinn milli Reykjavíkur og LA er líka mikill þ.e. 7 klukkutímar og hefur svefnmynstur fjölskyldunnar verið hálf brenglað síðan komið var til LA. Ansi algengt að fjölskyldumeðlimir séu að vakna upp kl. 5:30 á morgnana og misjafnt hvort að hægt hafi verið að festa svefn á ný, þetta er nú samt allt að koma.
Hér í LA erum við svo heppin að hafa fengið inni hjá Atla frænda mínum og Önnu konunni hans. Þau eru á Íslandi og leyfðu okkur að vera í húsinu sínu á meðan ásamt því að lána okkur bílinn sinn. Þvílíkt lúxuslíf sem búið er að vera á okkur, geðveikt hús með öllum hugsanlegum þægindum og frábærri sundlaug. Við erum að reyna að finna leiðir til að launa greiðann t.d. með því að elda ofan í Hildi Svövu frænku mína og Arnar kærasta hennar sem búa einnig í húsinu.
Fjölskyldan hefur verið ansi bissý frá því að hún kom hingað til LA. Við komumst fljótt að því að hér er ekkert sem heitir að skjótast aðeins eitthvert, að komast á milli staða tekur heillangann tíma, vegalengdir eru miklar og umferðin ótrúlega þung, enda almenningssamgöngur lélegar og einn maður pr. bíl eins og heima.
Fyrstu tveir dagarnir hér fóru í ferðir í Downtown LA þar sem gögn fyrir leikana voru sótt ásamt miðum á opnunarhátíðina. Farið var á Grammy safnið sem var mjög skemmtilegt safn. Í safninu er saga verðlaunanna rakin og þeirra tónlistarstefna sem þar eru verðlaunaðar. Á föstudaginn fórum við á Santa Monica Pier þar sem kyndlahlaupararnir komu í mark með ólympíueldinn. Þeir sem hlaupa með eldinn eru m.a. lögreglumenn frá ýmsum þátttökulöndum leikanna og átti Ísland þar sinn fulltrúa, Guðmund Sigurðsson rannsóknarlögreglumann. Þarna var mikil stemning og frábært að sjá hlauparana koma í mark með eldinn. Á laugardaginn fórum við á opnunarhátíðin leikanna sem voru haldnir á Los Angeles Coliseum, þeir voru frábærir, mikið show þar sem m.a. Michelle Obama forsetafrú kom fram ásamt Stevie Wonder, Avril Lavigne, Nicole Scherzinger, Jimmy Kimmel, Eva Longoria og Michael Phelps. Í hádeginu á sunnudeginum bauð Íslendingafélagið hér í LA aðstandendum keppenda í hádegismat á mexíkóskum stað sem var mjög skemmtilegt. Eftir matinn sóttum við Birki á campusinn í UCLA þar sem hann, eins og áður sagði, fékk frí í tvo daga þar sem keppnin í fimleiknum átti ekki að byrja fyrr en á miðvikudag. Hann var mjög sáttur við að koma til okkar, komst loksins í tölvu og á Facebook ásamt því að fara í sund og slaka á. Við notuðum mánudaginn til að fara í Universal Studios. Áttum mjög skemmtilegan dag þar, fórum í öll tæki og í allar ferðir sem í boði voru, borðuðum Krusty burger og drukkum Duff bjór (kostaði aðeins 103$ fyrir okkur fimm). Birki var skilað til baka seinni part þriðjudags og það kvöld bauð Maja S (lesist Maria Shriver fyrrverandi eiginkona Arnold Svakanaggs) aðstandendum keppenda í pikknikk í garði hér í borginni sem við þáðum að sjálfsögðu. Móðir Maju S, Eunice Shriver systir JFK, stofnaði Special Olympics og fyrstu leikarnir voru haldnir árið 1968. Í pikknikkinu var matur og drykkir í boði eins og við gátum í okkur látið ásamt skemmtiatriðum og ýmsum uppákomum. Kynnir var Vanessa Williams. Öll Shriver systkinin komu fram ásamt mökum sínum og börnum, skyldleiki við JFK fór ekki á milli mála hvað varðar útlitið á fólkinu.
Á þriðjudaginn fórum við til Hollywood sem er mjög líflegt og skemmtilegt hverfi. Þar byrjuðum við á að fara í tveggja hæða rútu og taka tveggja tíma rúnt um hverfið með viðkomu í Beverly Hills og Melrose Avenue. Við vorum með einstakleg líflegan guide í ferðinni sem sagði you guys svona 275 sinnum. Eftir ferðina var stefnan tekin á walk of fame og stjörnurnar skoðaðar og myndaðar. Eftir daginn kom í ljós að litur flestra fjölskyldumeðlima hafði breyst úr hvítu í rautt og var því strandferð sem áætluð var í dag frestað um tvo daga. Ekki var þó hægt að halda sig alveg frá ströndinni og var stefnan í dag tekin á Venice Beach. Þar var litskrúðugt mannlíf þessarar frægu strandar skoðað ásamt því að fótleggir voru mátaðir við sjóinn sem var ansi líflegur með töluverðum öldum.
Á morgun mun Birkir keppa og mun fjölskyldan verða mætt snemma í fyrramálið til að fylgjast og hvetja hann og Jóhann Fannar áfram. Á morgun er stefnan einnig tekin á göngutúr upp að Hollywood skiltinu. Vonandi mun takast að setja inn einhverjar myndir hér á síðuna á morgun.
29.7.2014 | 01:43
Rauðir lokadagar
Síðasti heili dagurinn okkar á Martinique er að kveldi kominn. Eins og oft áður er verið að nota síðasta kvöldið til að klára matarbirgðir (risarækjur), drykkjarbirgðir (allskonar), þrífa og pakka. Flugið verður tekið til Parísar á morgun þar sem gist verður eina nótt áður en haldið verður heim á leið í faðm fjölskyldunnar. Eins og öll kvöld undanfarin þá er setið við borðstofuborðið, sem er út á svölum, við kertaljós frá Mosquitokertinu, reyk frá Mosquitoreykelsinu og í skýi af Mosquitospreyi og hlustað á sönginn í skordýrunum.
Frá því að penna var síðast stungið niður hefur litur manna breyst frá því að vera hvítur í að vera rauður. Síðasta föstudag var stefnan tekin á ströndina eins og fram kom í síðustu færslu. Þegar á leið kvöldið og daginn eftir kom í ljós að Eiður hafði brunnið all hressilega þennan dag. Hann er því líflegur útlits, hvítur með mjög rauða bletti hér og þar á líkamanum. Hann mun því væntanlega þegar fram í sækir verða hvítur með brúna bletti.
Síðast liðinn laugardag fórum við á norðanverða Martinique og var markmiðið að ganga mjög vinsæla gönguleið sem þar er að finna. Til að komast þangað þarf að keyra eins langt og hægt er á norð-vestur hluta eyjunnar, þ.e. þar til að vegurinn endar. Ranghalar vegakerfisins náðu nýjum hæðum, en við erum bókstaflega að tala um 180° beygjur upp og niður hæðir og fjöll ásamt halla upp á mörg hundruð prósent! Við stoppuðum á bílastæði sem er upphafspunktur göngunnar og þar er að finna rústir af byggingum sem áður hýstu sykurframleiðslu en einnig hafði kakó verið ræktað á svæðinu. Gönguleiðin liggur til bæjar sem er á norðurodda eyjarinnar og heitir Grand Riviere og tekur gangan þangað um sex klst. Vinsælt er að fá fiskveiðimenn sem þar búa til að skutla sér aftur til baka á bílastæðið af aflokinni göngu. Við höfðum nú ekki í hyggju að fara í svo langa göngu minnug þriggja tíma göngunnar sem við höfðum farið í nokkrum dögum áður. Gönguleiðin liggur um mjög fallegan frumskóg með fjölbreyttum gróðri en reyndist þegar á leið frekar einsleit og með takmörkuðu útsýni. Við gengum því í tæplegan klukkutíma og snerum þá við. Á leiðinni má búast við að rekast á snáka og kóngulær en því miður rákumst við á hvorugt. Hinsvegar heyrðum við á einum tímapunkti í göngunni samblöndu af hræðslu- og reiðiöskri og sáum á eftir villisvíni á harðahlaupum niður brekkuna þ.e. í áttina frá okkur, kannski sem betur fer.
Þegar komið var til baka á bílastæðið var haldið á yndislega fallega strönd sem þarna er og tánum dýft í sjóinn til hressingar.
Daginn eftir þ.e. á sunnudaginn áttum við pantað í Kayaka ferð. Við áttum frátekinn einn bát fyrir allan daginn en vinsælt er að sigla út í eyju sem er hér rétt við og heitir Ilet Chancel. Við bárum hressilega á okkur að sólarvörn og tókum með okkur vistir í hvítri tunnu sem við fengum afhenta og spenntum í ólar á Kayakinn. Siglingin var nú alveg töluvert púl þar sem við vorum á móti vindi og vel gusaðist yfir okkur að sjó allan tímann. Á eyjunni stoppuðum við á tveimur stöðum. Fyrst á stað þar sem finna mátti rústir af leirkerasmiðju og sykurverksmiðju (en ekki hvað) sem eyðilögðust í fellibyl árið 1891. Í þeim fellibyl fórust allir á eyjunni nema einn (að sjálfsögðu).
Þekktustu íbúar eyjarinnar í dag eru Iguana eðlur og sáum við nokkrar þeirra á rölti. Næsta stopp var á yndislegri strönd þar sem við gátum buslað í sjónum, borðað vistirnar okkar og slappað af. Eftir það var siglt heim á leið og það var eldrautt og gjörsamlega uppgefið fólk sem steig fæti á þurrt land við bílastæðin. Þá tók á móti okkur yndislega kona sem kunni bara frönsku og gaf okkur þann besta og kaldasta ananassafa sem við höfum nokkru sinni smakkað. Það dugði til að gefa okkur orku til að keyra heim í húsið.
Okkur aðkomumönnum að óvörum var haldin eins konar þjóðhátíð í litla bænum okkar í gærkvöldi. Hér var dúndrandi stuð, franskt popp, tískusýningar eða fegurðasamkeppni (vitum ekki hvort), kandýfloss og allt. Reyndar mjög góð tilbreyting frá nær óstöðvandi léttum lögum í dalnum frá ströndinni þaðan sem á hverju kvöldi hefur borist afskaplega þunglyndisleg frönsk hipphopp tónlist leikin af hljómplötum úr kyrrstæðum bíl. Við eigum reyndar von á miklu betra eftir nokkra daga þegar stórfjölskyldan sameinast á Þjóðhátíð í Eyjum. Þar höfum við leigt hús og saman ætlum við að halda þjóðhátíð, við öll fjölskyldan í Fögrubrekkunni, Rúna, systir Eiðs, ásamt Freyju dóttur hennar, mamma, tengdamamma og Dagný, systir Eiðs. Addi, vinur hans Eiðs, hefur svo bæst í hópinn ásamt dóttur sinni og því verðum við tólf saman í húsinu á Þjóðhátíð. Allur pakkinn verður tekinn, hvítt tjald og alles. Undirbúningur stendur nú sem hæst, á Ísafirði, í Kópavogi, Garðabæ og í bænum Tartane á Martinique.
Við kveðjum Martinique með söknuði. Bitin, sólbrennd, södd. Við höfum haft það afskaplega gott hér sl. tíu daga. Búin að nærast að mestu á grilluðum fiski á veitingastöðum. Vitum ekkert mjög mikið um nákvæmlega hvaða tegundir af fiski við vorum að borða en flestar máltíðirnar voru framandi og innihéldu heilgrillaðan fisk. Heima við hafa aðrar áherslur verið í eldamennskunni. Naut, önd, risarækjur og fl. Drykkirnir hafa verið Ti-Punch, púns (með ýmsum bragðtegundum), Pina Colada, Mojito, hvítt, rautt og bleikt vín. Við höfum einnig eignast nokkra vini úr dýraríkinu, hvítur köttur nágrannans, kólibrífuglar og eðlur hafa verið gestir á svölunum okkar hvern dag. Hitinn og rakinn hefur verið slíkur að fregnir af roki og rigningu á Þjóðhátíð í Eyjum hljóma ekki mjög fráhrindandi þessa stundina.
Over and out frá Martinique.
Íris og Eiður
26.7.2014 | 00:28
Martini? Nei....romm
Dagarnir hafa verið ansi þéttskipaðir hjá okkur að undanförnu og lítill tími hefur gefist til þess að skrifa á bloggið en úr því verður nú snarlega bætt. Þessi eyja er dásamlega falleg. Hún er hæðóttari og grænni er við áttum von á og vegakerfið því eintómar brekkur og beygjur. Húsið okkar og bílastæði er í svo miklum halla að við veltum nánast út úr bílnum, jafnvel bláedrú, þegar heim er komið og nauðsynlegt er að setja steina fyrir aftan dekkin á bílnum. Hér er líka mjöööög heitt og rakt. Regnskúrir hafa verið algengar undanfarna daga og þá erum við að tala um almennilega regnskúr, eins og hellt sé úr fötu. Þess á milli skín sólin. Eins og venjulega eru blessaðar mosquito óvinkonur okkar mættar í heimsókn. Það virðist alveg vera sama hversu miklar varnir við setjum upp, alltaf finnast ný og ný bit. Eins og sjá má á myndinni erum við með alls konar varnir, moskítóreikelsi, moskítóspaða, moskítókerti, moskótósprey, blað af Aloa-vera plöntu sem vex hér í garðinum, Aloa-vera gel á brúsa og hvítvín - sem er lykilatriði þegar snúist er til mosquitovarnar.
Þrátt fyrir hvítvínið þá er ekki um mikla hvítvínsframleiðslu að ræða hér. Hér drekka menn romm....og það mikið af því. Rommið er þjóðardrykkur eyjaskeggja. Mikil rommframleiðsla er á eyjunni og í búðunum er hilluplássið fyrir rommið mælt í metrum. Hægt er að fá það í ýmsum útgáfum, í litlum og stórum flöskum og meira að segja í beljuformi. Svo er rommið til í hinum ýmsu styrkleikum og hægt að fá það blandað sem Mojito og Pina Colada. Einnig er rommið greinilega stór hluti af borðhaldi innfræddra. Í þau skipti sem við höfum farið út að borða er ekki óalgengt að sjá fólk vera með romm flösku á borði ásamt flösku af sykurreirssírópi. Menn blanda sér svo drykk sem nefndur er Ti-punch. Einnig eru hér í boði endalausar aðrar tegundir af púnsi með alls konar bragði og í öllum regnbogans litum. Við erum nú þegar búin að prófa kókospúns sem er ljósbrúnn á litinn og svo ástaraldinpúns sem er bleikur á litinn. Pina-Colada og Mojito hafa einnig fengið að fylgja með í innkaupakörfuna.
Stutt yfirferð á dagskrá síðustu daga. Á þriðjudaginn keyrðum við um norðurhluta eyjunnar. Fórum til St. Pierre, sem er gamla höfuðborg hennar, en borgin þurrkaðist út árið 1902 þegar eldgos hófst í fjallinu Mount Pelée. Skv. Wikipedia þá áttu menn ekki von á því að eldgos í fjallinu myndi hafa eyðileggjandi áhrif á borgina þar sem tveir dalir aðskildu hana og fjallið. Annað kom hins vegar á daginn því að þegar fjallið gaus þá var um að ræða sprengigos þar sem gas og grjóthnullungar hentust á 700 km/klst hraða á bæinn og þurrkuðu út nánast allt líf þar, þ.e. 30 þús manns. Aðeins tveir lifðu tveir af, annar bjó alveg í útjaðri bæjarins en hinn var fangi sem var í svo rammgerðum fangaklefa (dýflissu) að gasið og grjótið náði ekki til hans. Í dag er ekki að sjá að þarna hafi átt sér stað svona hörmulegur atburður. Í stað höfuðborgar Martinique er nú að finna nokkra minni bæi og skemmtilegar strendur. Í dag er það borgin Forte-de-France sem er höfuðborgin og er hún staðsett á suð-vestur hluta eyjunnar.
Á miðvikudaginn ákváðum við að taka smá göngutúr um austasta hluta skagans sem við búum á. Um er að ræða merkta gönguleið sem var nú bara býsna erfið þegar á reyndi. Um var að ræða 12 km. gönguleið í mjög fallegu en líka mjög hæðóttu landslagi sem ýmist minnti á gróðurlausar Íslandsstrendur eða hitabeltisfrumskóg með pálmatrjám, Mangrove" og eitruðum Manchineel" trjám. Gangan tók vel á fjórðu klst. og þegar við það bættist 30 stiga hiti sem skv. weather channel appinu feels like 36 stiga hiti þá tók gangan verulega á. Við vorum því nær dauða en lífi þegar við komum á áfangastað. Mikil gleði braust út hjá nærstöddum þegar í vasa fundust þrjár evrur sem dugðu fyrir vatni í minjagripversluninni á endastöð, en vatnsskortur var farinn að gera alvarlega vart við sig síðasta klukkutímann. Sumir vilja halda því fram að 6-7 kg líkamsþyngd hafi gufað upp við gönguna, a.m.k. skv. forlátri vigt sem fyrirfinnst á heimilinu. Frekari staðfesting á þyngdartapi bíður betri tíma.
Í gær var farið í bíltúr og suðurhluti eyjunnar skoðaður. Þar er mikið af fallegum smábæjum og ströndum og stoppuðum við í nokkrum þeirra m.a. til að borða á veitingastað á ströndinni. Í gærkveldi fórum við síðan mjög fínt út að borða á franskan, nútíma kreóla veitingastað og fengum alveg frábæran mat. Mahi-Mahi fisk með þremur mismunandi grænmetis- og kartöflupuré, foie-gras með sultuðum mangó, hörpuskel í rjóma-hnetusósu og hrísgrjónabúðingur eldaður upp úr súkkulaði. Nammi namm.
Í dag var stefnan tekin á ströndina enda ekki seinna vænna að byrja aðeins að vinna í taninu áður en heim verður komið. Við fórum á sömu strönd og við fórum fyrsta daginn. Yndisleg strönd með örfáu fólki sem er mjög ólíkt því sem maður á að venjast frá sólarströndum, eins og t.d. Ródos. Núna er afrakstur dagsins að koma í ljós, það brakar í sumum og hvíti liturinn er óðum að víkja fyrir þeim rauða.
Á morgun er stefnan tekin norður á eyjuna þar sem við ætlum að taka góða gönguferð í frumskóginum, með nægar vatnsbirgðir. Á sunnudaginn er stefnan síðan tekin á Kayakaferð um eyjar í nágrenninu.
Meira síðar..........
kveðja
Íris og Eiður
21.7.2014 | 22:18
Martinique
Nú erum við Eiður komin til frönsku eyjunnar Martinique í Karíbahafinu og hér ætlum við að eyða næstu tíu dögum. Sunnar á jarðkringluna höfum við ekki áður komið en Martinique er á 14. breiddargráðu. Önnur lönd í svipaðri fjarlægð frá miðbaugi eru til dæmis Senegal, syðsti oddi Indlands og Filipseyjar. Um er að ræða heimilisskipti við hjón sem hér búa en við erum aðeins tvö í þetta skiptið, Birkir, Eydís og Diljá voru skilin eftir heima á Íslandi undir eftirliti ammanna.
Undanförnum þremur vikum hefur undirrituð eytt á grísku eyjunni Ródos við nám í hafrétti sem var mjög skemmtilegur tími. Eldsnemma á laugardagsmorguninn síðasta flaug ég til Parísar í gegnum Aþenu. Við Eiður hittumst á flugvellinum í París og eftir endalausar biðraðir náðum við loksins að koma okkur fyrir í flugvélinni. Þetta var langt ferðalag, 9 tíma flug frá París með Air Caraibes, frekar þröng sæti og því erfitt að láta fara vel um sig. Þegar við komum á áfangastað var komið myrkur. Við tókum leigubíl frá flugvellinum en þegar við komum í litla bæinn okkar, sem er hinum megin á eyjunni, þekkti leigubílstjórinn ekki heimilisfangið og vissi því ekkert hvert hann átti að fara með okkur. Við vorum búin að sjá myndir af húsinu og gátum því staðsett það út frá kennileitum og upplýsingum sem Martinique fólkið hafði gefið okkur þó að við vissum ekki hvaða gata myndi leiða okkur að húsinu. Við kvöddum því leigubílstjórann á aðalgötu bæjarins og ákváðum að reyna að finna veginn upp að húsinu frekar gangandi heldur en að láta bílstjórann leita í myrkrinu með mælinn í gangi. Húsið er í gríðarlega miklum halla sem býður upp á frábært útsýni en það tekur líka á að draga þungar ferðatöskur upp brekkuna í þessum hita. Við ákváðum því að safna kröftum áður en við hæfum leitina með því að fá okkur pizzu og rauðvín á veitingastað sem stendur við aðalgötuna. Eftir það var lítið mál að finna húsið og komum við því í húsið vel sveitt eftir töskudráttinn. Þegar undirrituð fór loksins að sofa var hún búin að vaka í 26 klst., eyða 13 klst. um borð í þremur flugvélum og fljúga í gegnum sjö tímabelti.
Fyrsti dagurinn, þ.e. gærdagurinn, fór í að koma sér fyrir og kanna umhverfið. Við búum í litlum bæ á á Caravelle skaga. Bærinn heitir Tartane og er ósköp lítill og sætur. Við versluðum í matinn en þær búðir sem við fundum voru ekki með mjög merkilegt úrval. Okkur tókst þó að finna frosna önd til að hafa í kvöldmatinn. Farið verður í betri matvöruverslun í dag. Eftir búðarferðina fórum við á dásamlega strönd hérna rétt hjá þar sem saman kom hvítur skeljasandur, pálmatré og heitur sjór, alveg eins og maður ímyndar sér Karíbahafið. Eftir að hafa eytt klukkutíma á ströndinni og í sjónum fundum við skemmtilega gönguleið sem við löbbuðum. Restinni af deginum var síðan eytt í rólegheitum. Ekki veitir af til að venjast hitanum en hann er mjög mikill.
Húsið sem við erum í er með mjög stórar svalir sem eru í raun framlenging á íbúðinni. Á svölunum er stofan og borðstofan. Fólk býr því að hluta til úti allan ársins hring. Garðurinn er fullur af fallegum trjám og runnum sem eru í blóma m.a. bananatré og papayatré. Dýralífið er líka mjög fjölbreytt, litlar krúttlegar eðlur, dásamlegir kólibrífuglar og ekki eins dásamleg skordýr.
Tímaskynið hjá undirritaðri er í algjöru rugli. Ég vaknaði klukkan fimm í morgun, við sólarupprás og ákvað að nota tímann, á meðan ég bíð eftir að betri helmingurinn vakni, í að skrifa þessar línur. Ég sit því núna í stofunni með útsýni út á hafið og hlusta á fuglasönginn, dásamlegt. Stefnt er á að eyða tímanum hér í skoðunarferðir um eyjuna, gönguferðir og mögulega einnig bátsferðir. Við munum vonandi geta gefið okkur tíma til að setja hér inn nokkrar færslur og myndir af því sem fyrir augu ber.
Bless í bili
Íris
26.7.2012 | 20:37
Myllubærinn í Frans
Þá erum við enn einu sinni farin á ferðina. Að sjálfsögðu urðu heimilisskipti í Frans fyrir valinu og þau ekki af verri endanum. Hálfur mánuður í Búrgúndý héraði, matar- og vínkistu Frakklands þaðan sem Pinot Noir þrúgan er upprunnin og Pouilly Fussy hvítvín er á heimaslóðum. Ekki er húsnæðið af verri endanum. Næsta hálfa mánuði ætlum við að eyða í 200 ára gamalli vatnsmyllu með ábyrgð á búfénaði staðarins.
Búfénaður staðarins samanstendur af tveimur kindum (með hala), nokkrum geitum, hænum, kanínum og svo öndum. Ein andarfrúin eignaðist í gær nokkur andarbörn, ein 16 stykki sem var strax hent út í djúpu laugina þ.e. litlu greyin voru varla komin í heiminn þegar þau voru teymd niður að ánni og látin reyna á sundhæfileikana. Ekki eru allar dýrategundirnar upptaldar þar sem á heimilinu eru líka einn köttur, níu ára Havana brown oriental sem heitir Che og hundur sem er blanda af giant poodle og Labrador og heitir Diego.
Það sem er ólíkt með þessari ferð og öðrum sem við höfum farið í er að Birkir er ekki með okkur. Birkir segist vera búinn að fá nóg af ferðalögum erlendis og sagði nei takk þegar fjölskyldan ákvað á síðustu stundu að breyta áætlunum sínum um að vera heima eitt sumar. Í staðinn fyrir Birki var því ákveðið að bjóða ömmum og systrum með í ferðina sem þær þáðu allar að sjálfsögðu. Birkir ætlar að eyða viku með afa sínum í Vestmannaeyjum. Arnar afi og Guðrún konan hans ætla síðan að koma hingað til Frans og þá mun Birkir eyða viku með ömmum sínum þegar þær fara heim frá Frans.
Ferðin hófst eldsnemma laugardagsmorgunn síðasta með óbeinu flugi til Lyon með fjólubláa flugfélaginu Wow. Upphaflega átti þetta að verða þægilegt beint flug sem færi fram á kristilegum tíma þ.e. kl. 17. Að sjálfsögðu tókst nýja spútnik félaginu að færa flugið að íslenskum veruleika með því að færa flugtímann fram til kl. 6:30 að morgni og að sameina það Basel flugi sem þýddi tveggja tíma bið inn í flugvélinni á Basel án þess að vera boðið upp á vott né þurrt eins og t.d. vatn þrátt fyrir loforð um annað. Þetta blogg á ekki að verða reiðilestur yfir lélegri þjónustu flugrekenda og því verður settur punktur við þess ræðu hér og nú.
Fyrstu tvær næturnar deildum við húsinu með Isabel (sem er húsráðandi hér í myllunni), Havana (7 ára dóttir hennar) og Jill (tengdamóðir hennar frá Nýja Sjálandi). Þær settu okkur vel inn í búskapinn, sýndu okkur aðeins umhverfið og fóru með okkur á frábæran veitingastað í hádeginu. Snemma á mánudagsmorgunn skutlaði Eiður húsráðendum á lestarstöðina þar sem þær hoppuðu upp í lest til Parísar og síðan var ferðinni heitið með flugvél til Íslands. Hinir nýju húsráðendur fóru á markaðinn Louhans þar sem gerð voru góð kaup, í töskum, hunangi, víni og Bresse kjúklingi (sjá mynd). Kjúklingurinn var notaður í Coq au vin um kvöldið. Meðlætið var ekki af verri endanum hvítlaukskartöflumús og Ratatouille. Að sjálfsögðu var þessu skolað niður með eðal vínum frá héraðinu.
Á þriðjudeginum var ferðinni heitið í H&M, en ekki hvað? Með nýjustu tækni þ.e. H&M appi var auðvelt að finna út hvar næsta H&M búð er. Að komast þangað reyndist nú ákveðinn höfuðverkur þar sem í ljós kom að þetta nýja fína app frá HM og heimasíða HM var ekki með heimilisfangið rétt. Allt hafðist þetta nú að lokum sem má þakka áralangri reynslu fjölskyldumeðlima í að koma sér í og úr vandræðum. Þegar á staðinn var komið reyndist HM búðin vera hin þokkalegasta og staðsett í stórum verslunarkjarna með mörgum öðrum búðum m.a. græjubúðum. Meðan kvenpeningurinn fann sig og buddunni sinni stað í HM ákvað eini karlpeningur hópsins að eyða tíma í græjubúð. Hún reyndist síðan ekki tímans virði þar sem skortur var á alvöru græjum í búðinni og því var næsta skemmtilegast iðjan tekin upp en hún er að versla í matinn.
Það er hreint yndislegt að vafra um, skoða og kaupa í stórum matvöruverslunum hér í Frakklandi þar sem allt er til. Um kvöldið var leitað í smiðju Yesmine Olsson og lambi á fyrsta farrými var hent í pottinn og með því var höfð mjög sterk raita og hrísgrjón. Að sjálfsögðu var þessu skolað niður með guðaveigum ættuðum frá Frans. Í gær ákvað hluti af hópnum að setja smá vinnu í tanið (brúnkuna) en hinn hlutinn ákvað að gerast menningarlegur og fara til tveggja bæja sem hafa klaustur á sínum snærum. Eftir mjög sveittan tíma í loftkælingalausum bíl sameinaðist menningarhlutinn brúnku hlutanum sem hafði tanað sig í drasl. Sest var út á pallinn og smakkað á frönskum ostum áður en afgöngum var hent á pönnuna og þeim rennt niður með rauðu og hvítu eftir smekk.
Í dag var undirrituð orðin voða kvefuð þannig að hún ákvað að halda sig heima en restin af hópnum fór í hellaskoðunaferð sem reyndist dásamleg þar sem aðeins var 11 stiga hiti í hellunum. Dagurinn var einstaklega heitur og þegar þetta er skrifað er 28 stiga hiti á pallinum og klukkan orðin 10 að kveldi. Spáin segir 35 stig fyrir kvöldið og nóttina og því má búast við að mikið verði svitnað hér á myllubænum í kvöld og í nótt. Kvöldmaturinn var mjög heimalagaður þar sem mikil framleiðsla hefur verið hjá hænum staðarins upp á síðkastið og því nóg til í eggjaköku. Einnig fullt af baunum, tómötum og kúrbít. Ömmurnar tóku að sér eldamennsku kvöldsins og öllum þessum fínu afurðum var skellt í eggjakökuna og restin af Bresse kjúklingnum var grillaður og hafður með. Þessu var skolað niður með fínum frönskum drykkjum og síðan var frönsk sítrónubaka með stóru s-i, ostar og ákvextir í eftirrétt. En nóg í bili hér frá myllubænum í Frans.
Kveðja Íris og co.
Vinir og fjölskylda | Breytt 27.7.2012 kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2011 | 21:25
Heimsókn á eldfjallaeyju, Jennifer Aniston og ferðalok
Síðasti dagurinn á Santorini að kveldi kominn og eins og oft áður er verið í skella í sig afgangsáfengi ferðarinnar enda við íslendingar alin upp við eitthvað allt annað en að hella niður slíkum vökva. Á morgun er ferðinni heitið til London þar sem gist verður eina nótt með viðkomu í Mílanó áður en haldið verður heim á leið en það verður gott að komast heim í daglega rútínu eftir svona frábæra afslöppun. Þetta verður síðasta bloggfærsla ferðarinnar og nú verður gráhærða helmingnum haldið fjarri meðan þetta er skrifað.
Í gær fórum við í hálfs dags siglingu um eyjarnar. Alls eru það fjórar eyjar sem mynda Santorini eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Farið var á gamaldags báti á eina af eyjunum þar sem eldfjallið, sem allt snýst um hér, er staðsett. Síðast gaus á eyjunni árið 1950 og þurfti ekki að grafa mjög djúpt niður í mölina til að komast að 90 gráðu heitu grjóti. Við röltum upp á eldfjallið en það verður að segjast eins og er að ekki var þetta nú mikil upplifun fyrir okkur og þá sérstaklega ekki fyrir gráhærða bassaleikarann frá Vestmannaeyjum sem er alinn upp við slík fyrirbæri. Þetta var svolítið eins og að labba í nýja hrauninu í Vestmannaeyjum. Eftir að eldfjallaeyjan hafði verið könnuð nánar var siglt að annarri minni eyju þar sem heitir hverir eru neðanjarðar. Þar var okkur hent útbyrðis og fengum við að synda um í hálftíma í ,,brúna lóninu" (okkar nafngift á fyrirbærinu) sem var bara notalega heitt og á brúna drullan og fosfórinn sem þarna er að vera óskaplega gott fyrir húðina að sögn heimamanna :) Þegar búið var að hreinsa mannskapinn aftur upp um borð var haldið til hafnar þar sem við fengum tækifæri til að skoða eyjuna og fá okkur að borða. Möguleiki var á að borða við höfnina á einu af fjöldamörgum veitingahúsum sem þar eru staðsett eða að rölta upp fjallið (eða fá sér far með asna) til bæjarins sem þar er staðsettur. Við ákváðum að segja pass við asnanum og fá okkur frekar að borða. Eftir matinn var siglt aftur til baka og eyddum við restina af deginum í sólinni fyrir framan litlu sætu íbúðina okkar þar til að brakaði í okkur. Þar sem við Eiður eigum tuttugu ára brúðkaupsafmæli í ágúst var ákveðið að taka smá forskot á afmælið með því að fjáfesta í kampavíni og skála. Farið var í fínu vínbúðina á Santoríni sem er staðsett mjög nálægt okkur og keypt kampavín á 20 evrur en gengispíndir Íslendingarnir tímdu ekki að splæsa í Moet kampavín 200 ml. flösku á 15 evrur (eitt glas á mann) hvað þá heila flösku á 65 evrur. Við hefðum nú líklega verið betur sett með litlu flöskuna þar sem vínið sem við keyptum var bara súrt og ekki fyrir venjulegan mann að klára.
Deginum í dag var eytt í sólbað. Verið er að reyna að fá smá lit á kroppinn enda vitum við Íslendingar ekkert eins hallærislegt eins og að koma snjóhvítur heim frá sólríkum stöðum. Ef komið er heim af sólarströnd snjóhvítur þá getur það aðeins merkt eitt að viðkomandi hafi hangið á barnum allan tímann sem er nú ekki par fínt. Ekki er það nú okkur hjónakornunum eiginlegt að liggja í sólbaði allan daginn og því var tekinn smá göngutúr um hverfið og eftir mikinn hausverk var fjárfest í ísskápsmerki og gjöfum. Í kvöld var síðan haldið á veitingastað sem við höfðum frétt af í gegnum internetið og er staðsettur rétt hjá okkur. Eigandi staðarins er gráhærður og gráskeggjaður grikki sem hafði mikla ánægju af því að hitta okkur þar sem við erum frá mikilli eldfjallaeyju eins og Santorini. Hann sér um að spila á gítar og syngja fyrir gesti staðarins ásamt tveimur félögum sínum og þeir mega nú bara eiga það að þeir héldu uppi ágætri stemmningu. Á þessum veitingastað er til siðs að taka myndir af öllum gestum og fá þá til að skrifa undir myndirnar í gestabók þar sem myndirnar eru límdar inn í. Þessu til sönnunar var skellt í fangið á okkur tveimur þykkum bókum sem voru úttroðnar af myndum af misglaseygðum gestum og misgáfulegum skilaboðum frá þeim. Þarna virðist vera um töluverða vinnu að ræða að halda utan um þetta allt saman þar sem fjöldi gesta virðist sækja þau heim á hverjum degi. Okkur sýndist ein bók duga fyrir einn mánuð og fengum við í fangið bók fyrir apríl 2011 og júní 2011 til að skoða og í júníbókinni mátti þekkja nokkra af ferðafélögum okkar frá því í bátsferðinni til eyjanna í gær. Þegar við höfðum greitt reikninginn vorum við leyst út með myndatöku og ég skrifaði nokkur vel valin orð á íslensku í bókina. Ef þið eigið leið um Santorini þá mæli ég með að þið leitið uppi þennan veitingastað sem heitir Santorini Moy og biðjið um að fá að kíkja í júlíbókina frá árinu 2011 ;) Þegar við yfirgáfum veitingastaðinn fengum við einnig afhent nafnspjald sem á var nafn staðarins og mynd af eigandanum og Jennifer Aniston en af útliti grikkjans að dæma var myndin nokkra ára gömul. Skyldi Jennifer vita af þessu? Á myndaspjaldi sem er að finna fyrir utan staðinn mátti líka sjá myndir af karlinum með söngvara hljómsveitarinnar Green day í góðum fíling.
Á morgun er ferðinni heitið til London þar sem við munum gista eina nótt áður en haldið verður heim á leið. Stefnan er tekin á HM að sjálfsögðu og nokkrar vel valdar aðrar búðir verða einnig teknar út. Einnig er stefnt á að fá sér góðan indverskan mat að borða. Við bíðum spennt eftir að komast heim og erum farin að hlakka mikið til að hitta Eydísi og Diljá og einnig gulldrenginn okkar sem kemur heim frá Grikklandi á nánast sama tíma og við.
Við sjáumst heil heima.
Kveðja
Íris